Hvað er Jafningjafræðsla Hins Hússins?

Jafningjafræðslan er rekin af Hinu Húsinu í Reykjavík og er skipuð ungu fólki á aldrinum   16-20 ára sem fer og ræðir við annað ungt fólk um sjálfsmyndina og lífið almennt.  Hugmyndafræðin er sú að ungt fólk nái betur til annars ungs fólks heldur en aðrir.

Jafningjafræðarar eru ráðnir til starfa á vorin og fá þeir í upphafi fræðslu frá fagaðilum um þau málefni sem endurspegla ungmennamenningu á hverjum tíma.  Auk þess eru fræðarar þjálfaðir í raddbeitingu, framkomu og hvernig gott er að vinna með hópa og einstaklinga innan þeirra.

Á undirbúningsnámskeiði Jafningjafræðslu Hins Hússins er meðal annars lögð mikil áhersla á almenna lýðheilsu, styrkingu sjálfsmyndar, fræðslu um neyslu áfengis-, tóbaks- og vímuefna, samskipti kynjanna, kynlíf, kynheilbrigði, líkamsvitund og virðingu, klám, réttindi ungs fólks, fíkn, geðheilsu, einelti o.fl.

Jafningjafræðslan starfar allt árið um kring og heimsækir félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla með sérstaka fræðsludagskrá sem miðar að því að fræða önnur ungmenni um margvísleg málefni, svara spurningum og brjóta daginn upp með skemmtilegum og fræðandi hópeflisleikjum.  Lögð er áhersla á gildi góðrar sjálfsmyndar, heilbrigðan lífsstíl, ókosti vímuefnaneyslu og samskipti í raunheimum og á netmiðlum.

Hvernig er hægt að sækja um?

Auglýst er eftir umsóknum árlega með öðrum sumarstörfum Reykjavíkurborgar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Til að fá nánari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á netfangið hitthusid@hitthusid.is.

eða í síma 411 5500.