Hundahald og hundaeftirlit

Hlutverk hundaeftirlitsins er að fylgja eftir samþykkt um hundahald í Reykjavík. Hundaeftirlit veitir leyfi til þeirra sem uppfylla skilyrði til hundahalds, hefur eftirlit með hundahaldi og stuðlar að ábyrgu hundahaldi í Reykjavík. Markmið hundaeftirlits eru að bæta hundahald í borginni með aukinni fræðslu til hundaeigenda og borgarbúa og að fækka óskráðum hundum í borginni.

Hvernig er sótt um?

Sækja þarf um leyfi til hundahalds í borginni. Á umsókn eru að finna nánari upplýsingar um gögn sem þurfa að fylgja. Ef búseta er í fjöleignarhúsi er nauðsynlegt að sameigendur í húsinu samþykki hundinn og þurfa þeir að skrifa undir þar til gert eyðublað. Fylgiskjöl og ítarefni er einnig að finna hér til hægri á síðunni. Ath. vegna Covid-19 þá er leyfilegt að senda útfyllt umsóknareyðublað ásamt fylgigögnum (skannað inn með undirskriftum) rafrænt á hundaeftirlit@reykjavik.is og reikningur fyrir skráningargjaldi verður síðan sendur í heimabanka umsækjanda.

Heimilisföng skráðra hunda eru aðgengileg á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sjá hundaleyfi í gildi í Reykjavík.

Hvað kostar þjónustan?

Reikningur fyrir leyfisgjaldi vegna hundaleyfis verður sendur í heimabanka umsækjanda, sjá gjaldskrá.

Varsla hunda

Hundaeftirlitið í Reykjavík semur við hundageymslur sem standast kröfur eftirlitsins, um vörslu hunda sem teknir eru í lausagöngu og af öðrum orsökum. Hundar fást afhentir þegar greitt hefur verið handsömunargjald sjá gjaldskrá, auk alls kostnaðar sem bæst hefur við vegna dvalar eða geymslu hundsins. Einungis  hundar sem skráðir eru á lögheimili eiganda síns fást afhentir.

Hundaeftirlitið sér alfarið um samskipti við hundaeigendur vegna hunda í vörslu eftirlitsins. Hægt er að hafa samband við hundaeftirlitið í s. 693 9648 á viðverutíma (sjá neðar) eða Þjónustuver í s. 411 1111 til kl. 16:15.  Einnig er hægt að koma skilaboðum til hundaeftirlitsins á netfangið hundaeftirlit@reykjavik.is. Athugið að starfsfólk hundageymslu veitir ekki upplýsingar um hunda sem eru í vörslu hundaeftirlits Reykjavíkur.

Ómerktum hundum má ráðstafa eftir tvo daga frá handsömun, sé þeirra ekki vitjað og eigandi ekki þekktur. Merktum hundum sem ekki er vitjað innan viku frá því að eigenda var tilkynnt um handsömun má ráðstafa eftir viku. Ef eigandi finnst ekki þá má ráðstafa hundinum eftir tvær vikur.

Afskráning hunda

Hundaeiganda ber að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um aðsetursskipti. Einnig skal hann tilkynna heilbrigðiseftirlitinu ef hundurinn deyr (vottorð frá dýralækni) eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu og hvert hann flytur. Eigendaskipti skal tilkynna með sama hætti. Tilkynningar skulu berast eins fljótt og kostur er og eigi síðar en mánuði frá breytingum á hundaeftirlit@reykjavik.is .

Við afskráningu hunds er heimilt að endurgreiða árlega gjaldið í réttu hlutfalli við þá mánuði sem eftir eru af árinu. Tilkynningar skulu berast eins fljótt og kostur er og eigi síðar en mánuði frá breytingum. Ef óskað er eftir endurgreiðslu þurfa bankaupplýsingar hundaeiganda að fylgja með tilkynningu.

Hundaeftirlitsmenn

Póstfang hundaeftirlits er hundaeftirlit@reykjavik.is

Hundaeftirlitsmenn eru:

Viðtalstímar starfsmanna eru frá kl. 8:30 - 9:00 alla virka daga.

Viðverutími hundaeftirlitsmanna við síma utan hefðbundins vinnutíma er mánudaga og miðvikudaga til kl. 18:00, þriðjudaga og fimmtudaga til kl. 19:00 og föstudaga til kl. 17:00.  Ef erindið er brýnt, vinsamlegast leitið til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin og um helgar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og ábendingum á framfæri við hundaeftirlitsmenn. Netfang hjá þeim er  eins og áður segir hundaeftirlit@reykjavik.is. Einnig er hægt að hafa samband við Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 4 11 11 11.