Hvað er Háskólavítamín?

Háskólavítamín er tækifæri fyrir unga, háskólamenntaða atvinnuleitendur til að öðlast starfsreynslu og fá þjálfun hjá fyrirtækjum og stofnunum. Námskeiðið er samtals 7 vikur. Fyrstu 3 vikurnar er undirbúningsnámskeið í Hinu Húsinu  kl. 10.00 – 13.00 mánudaga – fimmtudaga. Á seinni 4 vikunum fara þátttakendur í starfsþjálfun á vinnustað.

Hvað er gert á námskeiðinu?

Á undirbúningsnámskeiðinu er m.a. farið í :

· Tækifæri á vinnumarkaði

· Umsóknarbréf

· Markmiðasetningu

· Vellíðan og virka atvinnuleit

· Styrkleika

· Gera góða ferilskrá enn betri

· Atvinnuviðtalið – hvernig kem ég mér á framfæri?

Undirbúningsnámskeiðið er mikilvægur þáttur í að geta tengt þátttakendur við atvinnulífið en að loknu undirbúningsnámskeiði fara þátttakendur í starfsþjálfun hjá fyrirtæki eða stofnun. Starfsstaður er fundinn í samráði við hvern og einn þátttakanda þar sem menntun, reynsla og áhugasvið hvers og eins er haft að leiðarljósi.  Þannig fá þátttakendur reynslu af vinnumarkaði tengdri menntun sinni, tengslanet þeirra víkkar, þeir eiga möguleika á að fá meðmæli sem getur nýst vel við atvinnuleitina og oft hefur starfsþjálfunin leitt til áframhaldandi ráðningar á vinnustaðnum.

Fyrir hvern er námskeiðið?

Háskólavítamín er fyrir 23-28 ára háskólamenntað fólk í atvinnuleit á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Til að fá nánari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á netfangið hitthusid@hitthusid.is.

eða í síma 411 5500.