Frístundamiðstöðin Kringlumýri er þekkingarmiðstöð í málefnum barna og unglinga með fötlun. Undir starfið heyrir ráðgjöf um frístundastarf fyrir börn og unglinga með fötlun. Þekkingarmiðstöðin heldur utan um öll börn sem þurfa sértækan stuðning vegna fötlunar og/eða þroskafrávika á almennum frístundaheimilum í borginni.

Frístundaheimili fyrir 6-9 ára fötluð börn

Fötluð börn sem eru í almennum grunnskólum eiga að fá þann stuðning sem þau þurfa á frístundaheimilinu við sinn skóla. Við Klettaskóla er frístundaheimilið Gulahlíð. Sótt er um á umsóknarvefnum: https://fristund.vala.is/umsokn/#/. Hér má finna gjaldskrá fyrir frístundaheimilin: https://reykjavik.is/gjaldskrar/fristundaheimili-gjaldskra  

Sértækt félagsmiðstöðvarstarf fyrir 10 - 16 ára fötluð börn

Skóla- og frístundasvið starfrækir síðan fjórar félagsmiðstöðvar fyrir fötluð börn í 5. - 10. bekk í almennum grunnskólum. Þetta eru Höllin fyrir börn og unglinga í Grafarvogi, Hellirinn fyrir börn og unglinga í Breiðholti, Grafarholti, Árbæ og Norðlingaholti og Hofið sem er fyrir þau sem búa vestan Elliðaáa. Börn sem eru í Klettaskóla og Brúarskóla geta sótt frístundaheimili og félagsmiðstöðvar við sína skóla. Við Klettaskóla er félagsmiðstöðin Askja.  Sótt er um á umsóknarvefnum: https://fristund.vala.is/umsokn/#/.

Sértækt félagsmiðstöðvarstarf fyrir fötluð börn er opið eftir að almennum skóladegi lýkur til kl. 17.00 alla virka daga. Einnig er opið frá kl. 08.00 - 17.00 í öllum skólafríum fyrir utan vetrarfrí. Opið er allan daginn í páska-, jóla- og sumarfríum, á starfsdögum skólanna og foreldraviðtalsdögum.

Hér er að finna gjaldskrá sértækra félagsmiðstöðva: https://reykjavik.is/gjaldskrar/fristundaheimili-gjaldskra 

Meginmarkmið með starfinu er að bjóða upp á fjölbreytt og spennandi frístundatilboð þar sem uppeldisgildi frítímans eru höfð að leiðarljósi.

Stefnt er að því að tengja þetta starf þeim tilboðum sem nú þegar standa þessum aldurshópi til boða í hverfunum.

Ung Topp fyrir 16 - 25 ára

Ung Topp er opið félagsstarf fyrir fólk á aldrinum 16 - 25 ára. Félagsstarfið er skipulagt af þátttakendum í starfinu. Fastir liðir eru til dæmis Bingókvöld, söngvakeppni, Hrekkjavaka, Dragkeppni, DJ - kvöld, Wii tölvuleikjamót og kvikmyndakvöld svo eitthvað sé nefnt.

Starfið fer fram á föstudögum frá kl. 17:00 til 22:00 í kjallara Hins hússins. Innangengt er frá Austurstræti og lyftuaðgengi fyrir hjólastóla er bakvið húsið sé gengið inn frá Hafnarstræti.

Sjá nánar á Facebook síðu Ung Topp.

Tipp Topp fyrir 16 - 40 ára

Tipp Topp er opið félagsstarf fyrir fólk á aldrinum 16 - 40 ára. Starfið fer fram á miðvikudögum frá kl. 17:00 til 22:00 í kjallara Hins hússins. Innangengt er frá Austurstræti og lyftuaðgengi fyrir hjólastóla er á bakvið húsið sé gengið inn frá Hafnarstræti.

Sjá nánar á Facebook síðu Tipp Topp.

Félagsstarf fyrir fatlaða á aldrinum 16 - 40 ára er rekið í Hinu húsinu

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt að hafa samband við deildarstjóra frítímastarfs fatlaðra barna í Kringlumýri í síma 411 5400 vegna frístundastarfs 6 - 16 ára barna og unglinga með fötlun.

Hægt er að ná í starfsfólk í Hinu húsinu í síma 411 5508 eftir kl. 17:00 á miðvikudags- og föstudagskvöldum.