Stýrihópur tilraunaverkefnis í Breiðholti var settur á laggirnar í ársbyrjun 2012. Verkefnið er til þriggja ára og felur sér metnaðarfull markmið sem lúta að því að þjónusta Reykjavíkurborgar í hverfinu verði heildstæðari, markvissari og samhæfðari, íbúum hverfisins til hagsbóta. Verkefninu er jafnframt ætlað að nýta auðlindir borgarinnar betur, s.s. húsnæði og starfsfólk.

Stýrihópurinn starfar þvert á svið Reykjavíkurborgar undir forystu borgarstjóra í því skyni að efla samstarf sviða og starfseininga borgarinnar í tengslum við verkefnið. Í stýrihópi sitja sviðsstjórar íþrótta- og tómstundasviðs, menningar- og ferðamálasviðs, skóla og frístundasviðs, umhverfis-og skipulagssviðs og velferðasviðs. Í stýrihópi sitja einnig fulltrúar hverfisráðs Breiðholts. Þverfaglegt samstarf hefur auk þess verið formgert með skipan framkvæmdastjórnar Breiðholtsverkefnisins. Í framkvæmdastjórn sitja fulltrúar stjórnenda starfsstaða á vegum borgarinnar í hverfinu. Verkefnið er í eðli sínu samstarfsverkefni borgarstofnana í hverfinu. Þverfaglegt samstarf borgarstofnana er grundvöllur þess að verkefnið nái tilætluðum árangri.