Á fundi borgarráðs 25. mars 2021 var lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 19. mars 2021 fyrir nýtt deiliskipulag. Um er að ræða tæplega 20 hektara svæði og er markmið skipulagsins m.a. að festa inn á deiliskipulag bráðabirgðatengingar fyrir innanhverfisveg og stígatengingar frá Gufunesinu upp á Strandveg í Grafarvogi, ásamt því að tryggja góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Hafa þarf í huga fyrirhugaða legu Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Jafnframt verður Hallsteinsgarður og nærumhverfi fest í sessi inn á deiliskipulag.

Lýsingin var samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Óskað er eftir að ábendingar/umsagnir berist eigi síðar en 5. maí 2021.

Umhverfis- og skipulagssvið notar þær persónugreinanlegu upplýsingar sem settar eru fram vegna athugasemda við skipulag, s.s. kennitölu, nafn og netfang í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna borgarbúa. Að auglýsingarferli loknu eru gögn varðveitt í 30 ár og flytjast að þeim tíma liðnum til Þjóðskjalasafns Íslands skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Nánari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga hjá Reykjavíkurborg má finna hér.

Vakin er athygli á því að athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og birtast meðal annars nöfn borgarbúa í fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs á netinu.