Umboð

Ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkurborgar starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt þessari, samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 og eftir því sem lög mæla fyrir um.
 

Verksvið

Ofbeldisvarnarnefnd skal vera borgarstjórn og nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um aðgerðir og viðbrögð við ofbeldi í samfélaginu. Nefndin skal stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök, móta stefnu og gera tillögur til borgarráðs sem varða verksvið þess.
 

Hlutverk

Ofbeldisvarnarnefnd er vettvangur samráðs borgarfulltrúa og sérfræðinga á sviði ofbeldisvarna og er virkur þátttakandi í allri stefnumörkun málaflokksins. Ofbeldisvarnarnefnd er ráðgefandi fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar í málaflokknum og stuðlar með viðfangsefnum sínum, ráðgjöf og tillögum að upplýstri umræðu um ofbeldi á öllum sviðum borgarinnar og öruggara borgarsamfélagi.
 

Skipan

Ofbeldisvarnarnefnd er skipuð 7 fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa og þrjá til vara, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara, Stígamót tilnefna einn fulltrúa og einn til vara, Samtök um kvennaathvarf tilnefna einn fulltrúa og einn til vara og Embætti landlæknis tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.
 
Borgarstjórn kýs formann nefndarinnar en ofbeldisvarnarnefndin kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil nefndarinnar er hið sama og borgarstjórnar. Þá getur ofbeldisvarnarnefnd tekið ákvörðun um áheyrnarfulltrúa hagsmunasamtaka með málfrelsi og tillögurétt. Þann 17. nóvember 2015 var samþykkt að Heiða Björg Hilmisdóttir yrði formaður ofbeldisvarnarnefndar. 
 
Starfsmaður ofbeldisvarnarnefndar er Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum.