Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar segir í 50. gr.:

Forseti og varaforsetar borgarstjórnar skipa forsætisnefnd og stýrir forseti starfi nefndarinnar. Nú á framboðslisti sem fær kjörinn fulltrúa í borgarstjórn ekki fulltrúa í forsætisnefnd skv. 1. málsl. og skal hann þá tilnefna borgarfulltrúa úr sínum röðum sem áheyrnarfulltrúa í forsætisnefnd með málfrelsi og tillögurétt.

Tilnefna skal varamenn í forsætisnefnd sem taka sæti á fundum hennar þegar fulltrúar eru forfallaðir. Hið sama gildir um varaáheyrnarfulltrúa.

Forsætisnefnd heldur að jafnaði fundi tvisvar í mánuði. Boða skal til aukafunda eftir þörfum. Forseti boðar til funda forsætisnefndar og ákveður dagskrá í samráði við framkvæmdastjóra nefndarinnar.

Verkefni forsætisnefndar eru sem hér segir:

1. Skipuleggur starf borgarstjórnar.
2. Hefur umsjón með alþjóðasamstarfi borgarstjórnar.
3. Fjallar um tillögur að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar og samþykktum fyrir einstakar nefndir.
4. Fjallar um álitamál varðandi málsmeðferð í stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar sem til hennar er vísað.
5. Fjallar um og setur reglur um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa, sbr. einnig IV. kafla.
6. Ákveður móttökur á vegum borgarinnar.
7. Fjallar um önnur þau mál sem forseti leggur fyrir hana eða aðrir nefndarmenn, áheyrnarfulltrúar eða skrifstofustjóri borgarstjórnar óskar að ræða
8. Afgreiðir tilkynningar kjörinna fulltrúa um fæðingarorlof, veikinda- og slysaforföll.

Skrifstofa borgarstjórnar annast alla umsýslu fyrir forsætisnefnd. Í því felst móttaka og meðferð gagna, undirbúningur funda, svo sem gerð og útsending dagskrár, framkvæmd funda, þar með talið ritun fundargerða, frágang gagna og tilkynningar um afgreiðslu mála, birting fundargerða og upplýsingagjöf til almennings. Skrifstofustjóri borgarstjórnar er framkvæmdastjóri nefndarinnar.

Forseti borgarstjórnar er Alexandra Briem.