Um aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík

Markmið aðgengis- og samráðsnefndarinnar er að bæta þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík með virkri aðkomu fatlaðs fólks að skipulagi og mótun þjónustunnar. Markmið aðgengis- og samráðsnefndarinnar er jafnframt að bæta aðgengi fatlaðs fólks að allri þjónustu Reykjavíkurborgar sem og að borgarlandinu.
 

Fulltrúar

Aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks er skipuð níu fulltrúum og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Fulltrúar tilnefndir af borgarstjórn eru Þorkell Heiðarsson (formaður) frá Samfylkingu, Dóra Björt Guðjónsdóttir frá Pírötum og Egill Þór Jónsson frá Sjálfstæðisflokki.
 
Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Fulltrúar ÖBÍ eru Bergþór Heimir Þórðarson (varaformaður) frá Geðhjálp, Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp og Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu.
Varafulltrúar ÖBÍ eru Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Snædís Rán Hjartardóttir frá Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heynarskerðingu og Hlynur Þór Agnarsson frá Blindrafélaginu.
 
Landssamtökin Þroskahjálp tilnefna tvo fulltrúa og tvo til vara.
Fulltrúar Þroskahjálpar eru Björgvin Björgvinsson og Hanna Björk Kristinsdóttir.
Varafulltrúar Þroskahjálpar eru Haukur Guðmundsson og Inga Guðrún Kristjánsdóttir.
 
NPA miðstöðin tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.
Fulltrúi NPA miðstöðvarinnar er Hallgrímur Eymundsson. 
Varafulltrúi NPA miðstöðvarinnar er Andri Valgeirsson.
 

Verksvið

Aðgengis- og samráðsnefnd skal vera borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni fatlaðs fólks í aðgengismálum í víðum skilningi, við mótun allrar þjónustu borgarinnar sem snýr að fötluðu fólki og eftir atvikum öðrum hagsmunamálum fatlaðs fólks. Nefndin skal stuðla að góðu upplýsingaflæði og samstarfi Reykjavíkurborgar við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Aðgengis- og samráðsnefnd kemur að mótun stefnu í aðgengismálum og málaflokkum er tengjast þjónustu við fatlað fólk, tekur ákvarðanir og gerir tillögur til fagráðanna sem varða verksvið hennar. Hún skal hafa frumkvæði að verkefnum sem stuðla að bættri þjónustu við fatlað fólk og bættu aðgengi fatlaðs fólks í samræmi við stefnu í aðgengismálum og fjárheimildir nefndarinnar hverju sinni. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.
Aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar fer einnig með verkefni samráðshóps um málefni fatlaðs fólks samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.
 
Starfsmaður aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks er Tómas Ingi Adolfsson.