Fundur nr. 5621

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 18. mars, var haldinn 5621. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir og Dóra Björt Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Kr. Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Marta Mirjam Kristinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. mars 2021. R21010023

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi sósíalista tekur undir erindi frá fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Í erindinu er farið fram á að aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkur sendi frá sér ályktun um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli vera undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem um er að ræða í bílastæðahúsum, bílskýlum eða undir beru lofti. Í erindinu kemur fram að Bílastæðasjóður hafi um nokkurt skeið innheimt gjald af handhöfum stæðiskorts hreyfihamlaðra vegna lagningar ökutækja í bílastæðahúsum borgarinnar. Samkvæmt reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða nr. 1130/2016 er handhafa stæðiskorts þó heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða og í önnur gjaldskyld bifreiðastæði (stöðureit) án greiðslu. Bílastæðasjóður telji sig hins vegar hafa heimild til að innheimta gjald af handhöfum stæðiskorts hreyfihamlaðra með vísan í samþykkt Reykjavíkurborgar frá 1988 um Bílastæðasjóð Reykjavíkur. Grunlausir handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi því fengið rukkanir í heimabanka vegna ætlaðra stöðubrota á grundvelli innri reglna Reykjavíkurborgar, sem ekki virðast hafa stuðning í löggjöf. Í erindinu er tekið fram að hreyfihamlaðir einstaklingar eru mun lengur að athafna sig en aðrir bílastæðanotendur og hafa oft ekki annarra kosta völ en að nota einkabíl, þar sem almenningssamgöngur, hjólreiðar eða ganga eru ekki raunhæfur kostur.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

  Umræða um rafhlaupahjól í borginni: Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að spyrja leigusala rafhlaupahjóla í borginni um hvaða ráðstafanir þeir geri til þess að tryggja að frágangur á rafhlaupahjóli hindri ekki aðgengi annarra vegfarenda í borginni. Sjá má hjól stundum skilin eftir á óheppilegum stöðum sem skapar slysahættu. Hjól sem lagt er á gangstétt eru slysagildra eða hindrun fyrir fatlaðan einstakling, t.d. þann sem er í hjólastól eða er sjónskertur/blindur. Það vantar skýrar umgengnisreglur um hvernig megi og eigi að skilja við hjólin og þá þurfa vissulega að vera aðstæður (hjólastandar) til að leggja hjólunum. Gríðarleg fjölgun hefur orðið á notkun hlaupahjóla sem og rafskútna og rafhlaupahjóla á stuttum tíma. Enn skortir mikið á að innviðir í borgarlandinu geti tekið við þessari miklu fjölgun.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 8. mars 2021. R21010020

  Fylgigögn

 3. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 11. mars 2021. R21010004

  Fylgigögn

 4. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 9. mars 2021. R21010024

  Fylgigögn

 5. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 8. mars 2021. R21010030

  Fylgigögn

 6. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 3. mars 2021. R21010016

  Fylgigögn

 7. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 3. mars 2021. R21010022

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar Félagi eldri borgara fyrir ábendingu félagsins sem lýtur að 6. gr. í drögum að reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu sem birt er í fundargerð öldungaráðs. Bent er á í bókuninni að það sé ekki réttlætanlegt að skylda umsækjanda til að heimila þjónustumiðstöðinni að afla fjárhagslegra persónulegra gagna vegna þjónustunnar þar sem hún er vegna heilsufarslegra ástæðna og er ótengd fjárhagsstöðu fólks. Einu tilvikin sem slíkt gæti verið réttlætanlegt er þegar fólk býr við svo lök kjör að það gæti verið, eins og segir í 10. gr: „Undanþegnir gjaldskyldu hvað varðar stuðning við heimilishald eru þeir sem einungis hafa tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar ríkisins eða þar undir.“ Það eru undantekningartilfelli og ætti ekki að gilda almennt um umsækjendur þjónustunnar. Fulltrúi Flokks fólksins væntir þess að tekið verði tillit til þessa og annars sem fram kemur í bókun öldungaráðs, s.s. að fara þurfi vel með persónuupplýsingar og gæta þess að fyllsta trúnaðar sé ávallt gætt.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R21020188

  Fylgigögn

 9. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21030007

  Fylgigögn

 10. Lagt er til að Skúli Helgason taki sæti sem fulltrúi Reykjavíkurborgar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stað Kristínar Soffíu Jónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Kristín taki sæti sem varamaður í stað Skúla. R18060038
  Samþykkt.

  -    Kl. 9:10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

 11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 að rammaskipulagi fyrir Austurheiðar, ásamt fylgiskjölum. R21030149
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Margar athugasemdir sem borist hafa vegna Austurheiða virðast eiga rétt á sér. Aðrar snúast um einkahagsmuni sem hafa vonandi líka verið skoðaðar með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Í athugasemdum koma fram rök um að reiðstígar og almennir göngu- og hjólastígar fari illa saman. Gæta þarf því að skýrri aðgreiningu. Það ætti almennt ekki að vera vandamál enda rýmið mikið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um mikilvægi þess að göngu- og hjólastígar séu með eins litlum brekkum og hægt er séu þeir hugsaðir sem hluti af samgöngukerfi borgarinnar.

  Ólöf Örvarsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum. R21030152
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fram kemur í gögnum að á þessu svæði á að fella lóðir, byggingarreiti og götur að landi og náttúrulegum staðháttum og taka á tillit til ræktaðra svæða. Mikill skógur er á svæðinu. Ræktun á svona svæðum, svo sem græna treflinum sem myndar umgjörð um borgina og skilgreinir mörk útmerkur og þéttbýlis, þarf að hugsa sem borgargarða en ekki náttúrulega vist. Einnig er álitamál hvort mikilvægt sé að halda í núverandi gróður. Uppstaða ríkjandi gróðurs er útplöntun trjáa á síðustu áratugum. Gróðurfar er ekki stöðugt og vel getur verið að allt annað gróðurfar sé betra en það sem nú er á svæðinu. Vel má því skipuleggja svæðið án tillits til núverandi gróðurs. Úrkomumagn skiptir litlu máli fyrir lífsgæði á svæðinu, úrkomutímarnir skipta meira máli. Litlu skiptir hvort það rignir 5 eða 10 mm á klst. Tíminn er sá sami.

  Ólöf Örvarsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Laugaveg sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum. R19070069
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Eyþórs Laxdals Arnalds og Mörtu Guðjónsdóttur, borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.
  Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er í samræmi við samþykkta stefnu borgarstjórnar frá september 2018 um að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu allt árið. Hér er verið að samþykkja annan áfanga sem nær yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs. Tillagan gerir ráð fyrir auknum gróðri og mun stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir gangandi vegfarendur sem fara um svæðið. Algild hönnun verður höfð að leiðarljósi við hönnun svæðisins sem mun hafa í för með sér bætt aðgengi fyrir allt fólk. Við fögnum þessum áfanga og samþykkjum tillöguna að lokinni auglýsingu.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Miðflokksins telur að farsælla hefði verið að hafa fullt samráð við íbúa og rekstraraðila í þessu máli. Það var ekki gert. Laugavegur sem göngugata hluta árs og valda daga að auki er sú leið sem mest sátt virðist vera um og þykir fulltrúa Miðflokksins miður að slík leið sátta hafi ekki orðið fyrir valinu.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Of mikil óbilgirni og harka hefur einkennt aðgerðir skipulagsyfirvalda þegar kemur að þessu máli að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta fjallar ekki um hvort göngugötur séu skemmtilegar eða ekki. Þetta varðar það hvort meirihlutinn átti sig á mikilvægi tímasetninga og geti lesið í aðstæður, geti sett sig í spor og síðast en ekki síst noti sanngjarna aðferðafræði. Í þessari breytingu hefði mátt fara aðrar leiðir, fara hægar og hagaðilum hefði átt að bjóða að ákvörðunarborðinu á fyrstu stigum. Margir sakna Laugavegarins eins og hann var. Til stóð að opna fyrir umferð aftur eftir lokun um sumarið 2019. En við það var ekki staðið. Margir hagaðilar höfðu beðið óþreyjufullir eftir opnun þetta haust því verslun hafði dalað í kjölfar lokunar fyrir umferð. Það er vissulega rétt að flestar göngugötur eru að mestu ,,stétt“ með viðeigandi skreytingum. En nú er heimild í lögum að P-merktir bílar aki göngugötur og lögum þarf að fylgja. Enn vantar viðeigandi merkingar, skilti til að merkja þessa lagaheimild. Það hefur orðið til þess að fólk á P-merktum bílum hefur orðið fyrir aðkasti.

  Ólöf Örvarsdóttir og Björn Axelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. mars 2021, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars 2021 á breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands, Vísindagarða, vegna lóðarinnar nr. 15-19 við Sæmundargötu, ásamt fylgiskjölum. R21030153
  Synjun skipulags- og samgönguráðs er staðfest.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. mars 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. mars 2021 á endurskoðuðum reglum um bílastæðakort íbúa í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R21030151
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með þessari endurskoðun er lögð til talsverð einföldun á reglunum um íbúakort. Tengsl íbúakorta og bílastæðagjalds húsbyggjenda eru rofin og miðað er við að sækja megi um eitt íbúakort fyrir hverja íbúð sem ekki fylgir bílastæði að uppfylltum öðrum skilyrðum. Þá taka reglurnar mið af fjölbreyttari eignarformum og umráðum yfir ökutækjum. Ljóst er að aðilum sem hafa rétt á íbúakortum mun fjölga. Það er okkar skoðun að rétt sé að hækka gjald íbúakorta og bjóða upp á fjölbreyttari greiðslumöguleika til að stýra aðgengi að þessum takmörkuðu gæðum enn betur.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Breyttar reglur um bílastæðakort innihalda engar ívilnanir fyrir rafmagnsbíla og gildir sama gjald fyrir alla óháð eldsneytisnotkunar. Þetta er þvert á þá stefnu stjórnvalda á Íslandi að stuðla að orkuskiptum í samgöngum, en engin þjóð er í betri færum en Íslendingar að nýta sér hreina raforku í samgöngum. Rétt væri að hafa lægra gjald fyrir rafbíla líkt og gert er í Noregi og í Danmörku.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða að íbúar (á sérvöldum svæðum í miðbænum) fái aðgang að bílastæðum gegn gjaldi, sem getur verið mishátt, í stað þess að íbúar eigi sérbílastæði. En hvað með raf-, vetni- og metan bíla, er ekki rétt að skoða ívilnun fyrir þá? Í Osló þurfa eigendur rafbíla, vetnisbíla og fólk með hreyfihömlun ekki að kaupa kort. Í Drammen þarf að skrá rafbíla en ekkert að borga fyrir þá í stæði. Af hverju ættu ekki að vera sambærilegar reglur í miðbæ Reykjavíkur, ekki síst þar sem skipulagsyfirvöld taka nánast flest upp eftir skipulagsyfirvöldum í Osló? Miðbærinn er orðið svæði sem er dýrt að búa á og stefnir í að það verði hverfi fyrir efnameira fólk í framtíðinni. Útgjöld munu aukast og dýrt verður að koma sem gestur. Í raun stefnir í það að þeir sem ætla að búa í miðbænum muni einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um hvort þeir geti leyft sér að eiga bíl og gestir verði helst að koma gangandi eða hjólandi. Fyrir fjölskyldur er ekki ósennilegt að þetta hafi fælingarmátt þegar skoða á fasteign til kaups eða leigu á svæðinu og mun fólk kannski í æ meira mæli berjast um stærri eignir í úthverfum.

  Ólöf Örvarsdóttir og Þorsteinn Rúnar Hermannsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út malbikunarframkvæmdir fyrir árið 2021, ásamt fylgiskjölum. R21010087
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Áætlað er að malbika fyrir rúmlega 900 m.kr. í borginni í ár. Um er að ræða göturnar Baldursgata, Bragagata, Fjölnisvegur, Grettisgata, Hallveigarstígur, Hlemmur (strætó akrein við Rauðarárstíg), Klapparstígur, Laugavegur (gatnamót við Nóatún), Leifsgata, Lokastígur, Mímisvegur, Smiðjustígur, Snorrabraut, Vonarstræti, Kirkjugarðsstígur, Bústaðavegur (afrein), Ásvallagata, Brynjólfsgata, Eggertsgata, Einholt, Fálkagata, Hátún, Holtsgata, Hólavallagata, Reykjavíkurvegur, Seilugrandi, Skerplugata, Skildinganes, Sólvallagata, Sturlugata, Stúfholt, Suðurgata, Suðurhlíð, Sæmundargata (gatnamót við Sturlugötu), Sörlaskjól, Traðarholt, Varmahlíð, Vesturgata, Álftamýri, Bústaðavegur, Engjateigur, Engjavegur, Eyrarland, Garðsendi, Hrísateigur, Hæðagarður, Kelduland, Kirkjusandur, Kleppsvegur, Langagerði, Laugarnesvegur, Litlagerði, Ljósheimar, Skeiðarvogur, Sólheimar, Stjörnugróf, Súðavogur, Sævarland, Vesturbrún (botnlangi), Arnarbakki, Birtingakvísl, Fjarðarsel, Fljótasel, Grænistekkur, Gyðufell, Hléskógar, Holtasel, Hólmavað, Jaðarsel, Jakasel, Jöklasel, Kistuhylur, Klettháls, Klyfjasel, Krókháls, Lambasel, Látrasel, Ljárskógar, Malarsel, Máshólar, Norðurás, Rofabær, Selásbraut, Silungakvísl, Sílakvísl, Skógarsel (botnlangar), Skriðusel, Stokkasel, Stuðlasel (botnlangi), Suðurhólar, Útvarpsstöðvarvegur, Yrsufell, Þangbakki, Stekkjarbakki, Bjallavað, Bugða, Hádegismóar, Móvað, Norðlingabraut (botnlangi), Reykás, Sandavað, Skógarás, Viðarás (botnlangi), Þingás (botnlangi), Álfaborgir, Barðastaðir, Borgavegur, Fjörgyn, Funafold, Garðstaðir, Hamarshöfði, Hlíðarhús, Hverafold, Korpúlfsstaðavegur, Kristnibraut (botnlangi), Lambhagavegur, Logafold, Maríubaugur, Reynisvatnsvegur (hringtorg), Stórhöfði (botnlangi), Strandvegur, Víkurvegur, Völundarhús, Esjugrund (botnlangi) og Hofsgrund.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er jákvætt að verið sé að gera átak í malbikunarframkvæmdum. Mikilvægt er að gæðakröfur séu samræmdar og auknar til að auka endingartíma og minnka slysahættu. Þá er löngu tímabært að malbika aðkomu að sjúkrahúsinu Vogi sem er holóttur malarvegur.

  Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð staðfesti jákvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á undanþágu frá ákvæði skipulagsreglugerðar vegna laugar í Nesvík á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R21020209
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að auglýsa eftir samstarfsaðilum sem hafa uppi áform um húsnæðisuppbyggingu án hagnaðarsjónarmiða í borginni á næstu tíu árum.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R21030144
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að samþykkja að borgin auglýsi eftir samstarfsaðilum til uppbyggingar á óhagnaðardrifnu husnæði til næstu 10 ára. Verkefnið er hluti af græna plani Reykjavíkurborgar sem miðar að því að skapa græna, vaxandi borg fyrir fólk. Efnahagsvídd græna plansins felst meðal annars í húsnæðisáætlun borgarinnar sem stefnir að því að í borginni byggist árlega upp 1.000 íbúðir, þar af 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga. Á undanförnum árum hefur mjög kraftmikil uppbygging á fjölbreyttu húsnæði átt sér stað í borginni bæði á vegum einkaaðila og húsnæðisfélaga. Samvinna við traust húsnæðisfélög sem hafa fjárhagslega burði til að ráðast í uppbyggingu og eru rekin án hagnaðarsjónarmiða er lykilþáttur í framfylgd húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og græna plansins.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ekki liggur fyrir hvernig valið verður á milli umsækjanda og því ekki ljóst hvort jafnfræðis sé gætt á milli aðila. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eðlilegt framboð á byggingarlóðum og að ferlið sé opið og gagnsætt.

  Fylgigögn

 19. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 16. mars 2021, að viðaukum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021. Greinargerðir fylgja tillögunum. R21010107
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 20. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna húsnæðis fyrir leikskóla við Bríetartún 11, ásamt fylgiskjölum. R21030139
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Um er að ræða nýjan leikskóla við Bríetartún sem mun fjölga leikskólaplássum í borginni. Þessi leikskóli er enn eitt skrefið sem verið er að taka í verkefninu Brúum bilið. Fjölgun íbúða hefur átt sér stað á svæðinu á undanförnum árum og eðlilegt að leikskóli sé staðsettur í þessu hverfi borgarinnar.

  Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 21. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. mars 2021, þar sem er óskað eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna Njálsgötu 33, ásamt fylgiskjölum. R21030140
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. mars 2021, þar sem er óskað eftir að borgarráð samþykki afnotasamning á spildu í Öskjuhlíð, ásamt fylgiskjölum. R21030106
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Afnotasamningur um spildu fyrir aparólu í Öskjuhlíð hefur verið samþykkt í borgarráði. Skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar hefur samt hafnað umsókn Perlu norðursins, rekstrarfélags Perlunnar, um að setja upp svokallaða zip-line, nokkurs konar risaaparólu, sem átti að ná um 235 metra ofan af Perlunni og niður í Öskjuhlíð. Segir í umsögninni að deiliskipulag borgarinnar geri ekki ráð fyrir slíkri línu eða rólu. Þá sé það heldur ekki vilji borgarinnar að skipulagi verði breytt svo hægt sé að setja slíkt upp. Umsókn Perlu norðursins var því hafnað. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svona róla skemmtileg en þykir sérkennilegt að lesa umsögn skipulagsstjóra sem segir nei á sama tími og meirihlutinn í borgarráði segir síðan já við rólunni. 

  Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 23. Fram fer kynning á skjólborgarverkefni Reykjavíkurborgar og ICORN. R21030172

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þetta er verkefni um að bjóða listamönnum, rithöfundum, talsmönnum mannréttinda, blaðamönnum og tónlistarmönnum sem eru vegna tjáningar sinnar í hættu, skjól í Reykjavík, hið svo kallað skjólborgarverkefni Reykjavíkur. Þetta er sannarlega falleg hugsun en hér er verið að taka ákveðinn hóp út sérstaklega, fólk sem hefur borið gæfu til að verða þekkt fyrir list sína en er ógnað vegna tjáningar sinnar. Það hlýtur að vera vandmeðfarið að velja úr hverjir komast undir þennan verndarvæng enda þótt það sé ekki á forræði borgarinnar. Sú borg sem gerist aðili að skjólborgarverkefninu hjálpar þessu fólki að fá dvalarleyfi, aðstoð með tryggingar, séð um flutning og móttöku til borgarinnar, því er útvegað húsnæði, styrkur og aðstoð við aðlögun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf erfitt þegar lagt er upp með verkefni eða aðstoð sem mismunar fólki með einhverjum hætti. Nú eru fjölmargir sem leita til landsins eftir hæli/skjóli, fólk sem er að flýja bráðahættu ýmist vegna stríðsástands í landinu eða því er hótað lífláti af sinni eigin fjölskyldu.

  Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 24. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. mars 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundasviðs frá 9. mars 2021 um stjórnun leikskóla við Kleppsveg, ásamt fylgiskjölum. R21030129
  Samþykkt. 

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 25. Lagður fram dómur héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 11. mars 2021, í máli E-2035/2020. R20030182

  Fylgigögn

 26. Lagður fram dómur Landsréttar, dags. 12. mars 2021, í máli 72/2020. R19030227

  Fylgigögn

 27. Fram fer kynning á könnun Gallup á trausti til Borgarstjórnar Reykjavíkur. R21030083

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Lágt traust sem mælst hefur til borgarstjórnar er ekki síst að rekja til þess að borgarstjórn nýtur lítils trausts á landsbyggðinni. Þegar svör Reykjavíkinga eru skoðuð mælist traust til borgarstjórnar 34% sem er þriðja hæsta mælingin í sögunni. Eftir því sem þekking á borgarstjórn eykst þá eykst traustið skv. mælingunni. Þetta ætti að vera borgarstjórn hvatning til að kynna starf sitt betur og keppa að því að auka traust til sín áfram á næstu árum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Rétt er að benda á að traust íbúa nágrannasveitarfélaganna til Reykjavíkurborgar hefur minnkað úr 29% 2018 í 17% 2021 og hefur ekki verið lægra í áratug. Rétt væri að Reykjavíkurborg tæki virkan þátt í samræmdri þjónustumælingu Gallup eins og önnur sveitarfélög til að fá dýpri og betri skilning á viðhorfi íbúa borgarinnar, en borgin hefur fengið mjög lága einkunn miðað við önnur sveitarfélög í samræmdum könnunum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikill munur er á tveimur pólitískum stofnunum sitt hvorum megin við Vonarstrætið. Traust til Alþingis hefur aukist verulega og farið úr 24% í 34% frá 2014. Það er aukning um 42%. Á sama tíma hefur traustið minnkað verulega til borgarstjórnar. Frá því Samfylkingin tók að leiða meirihluta borgarstjórnar undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra árið 2014 hefur traust til borgarstjórnar minnkað um þriðjung úr 31% í 22% frá 2014. Þá vekur sérstaka athygli að borgarstjórn nýtur minnst traust allra stofnana í könnuninni. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur litið til Gallup af ákveðinni virðingu, talið að þar væru gerðar alvöru kannanir. Gallup hefur verið að gera netkannanir sem varla geta verið mjög marktækar og ekki hvað síst þar sem svarhlutfall er stundum bara rétt rúmlega helmingur. Um 95% kannana eru gerðar á netinu. Ekki eru allir á netinu og þótt þeir séu á netinu dettur þeim ekki í hug að svara svona könnun. Fulltrúi Flokks fólksins telur engu að síður að það sé rétt að ekki margir beri traust til borgarstjórnar, sérstaklega nágrannasveitarfélögin og landsbyggðin en einnig fólk í úthverfum borgarinnar. Þegar talað er um traust til borgarstjórnar hlýtur að vera vísað til meirihlutans í borgarstjórn, þess hluta sem heldur á valdasprotanum. Minnihlutinn í Reykjavík ræður engu og hefur ekki komið í gegn 98% framlagðra mála sinna sem meirihlutinn hefur ýmist fellt eða vísað frá. Minnihlutinn í borgarstjórn er því nokkuð oft á sama plani og þeir sem eru óánægðir með „borgarstjórn“ þ.e. þá sem stýra skipinu, hafa völdin. Í svona könnun ætti því að spyrja öðruvísi, spyrja ætti líka um traust til meirihlutans í borgarstjórn en ekki til borgarstjórnar sem heild.

  Matthías Þorvaldsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, að vinna að tillögu að útvíkkun á starfsemi Verkefnastofu starfsmats og undirbúningi að stofnun sjálfstæðrar starfseiningar, Jafnlaunastofu, í þeim tilgangi að styðja stjórnendur sveitarfélaga með ráðgjöf og fræðslu á sviði jafnlaunamála til viðbótar við núverandi samstarf um þróun og rekstur starfsmatsins. Hlutverk jafnlaunastofu verði að uppfylla ákvæði jafnréttislaga og jafnræðisreglunnar um launajafnrétti án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis og annarra mismunabreyta. Unnin verði að tillaga að útfærslu Jafnlaunastofu sem verður starfseining í eigu Reykjavíkurborgar og Sambandsins og verði sett á stofn á grundvelli samnings og byggi á rekstri Verkefnastofu starfsmats.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R21030147
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Lagður er grunnur að því að útvíkka starfsmatsvinnu borgarinnar sem lagt hefur grunn að jafnlaunavottun borgarinnar og undirbúa stofnun sjálfstæðrar starfseiningar, Jafnlaunastofu, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk Jafnlaunastofu verði að uppfylla ákvæði jafnréttislaga og jafnræðisreglunnar um launajafnrétti án tillits til kyns, uppruna, þjóðernis og annarra mismunabreyta. Sú þekking sem orðið hefur til innan borgarinnar á undanförnum árum er mikilvæg og verðmæt auðlind sem mun geta nýst öðrum sveitarfélögum og jafnvel öðrum vinnustöðum landsins.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Leiðréttur kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg er innan við 2% og er fylgst vel með þessum málum bæði í kjarasamningum og einstökum starfskjaramálum. Nú þegar er starfandi mannauðssvið sem stofnað var 2019 og auk þess fleiri stofnanir hjá borginni sem fylgjast með þessum málum og því óvíst hvort þessi viðbótarstofa bæti nokkru við hvað borgina varðar.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er nauðsynlegt að vinna gegn ójafnrétti því þeirri vinnu er langt frá því að vera lokið. Í umræðum og baráttunni um launajafnrétti þarf einnig að útrýma stéttskiptingu og taka þar á lágum launum sem eru greidd til þeirra sem vinna störf skilgreind innan hefðbundinna kvennastétta. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Nú leggur borgarstjóri til að borgarráð samþykki að sett verði á laggirnar Jafnlaunaskrifstofa, sérstök eining með öllu tilheyrandi í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur að skipta á kostnaði jafnt. Þýðir það að Reykjavík greiðir helminginn og nágrannasveitarfélögin hinn helminginn? Ef svo er þá er samkrull borgarinnar við Sambandið enn og aftur að koma sér illa fyrir borgarbúa. Fjárhagsleg ábyrgð borgarinnar mest en stjórnunarleg minnst. Umfang virðist eiga að vera heilmikið. Stöðugildi eiga að vera 6 og allt kostar þetta sitt. Tilgangurinn er sagður að styðja stjórnendur sveitarfélaga með ráðgjöf og fræðslu á sviði jafnlaunamála, en hafa þeir beðið um þessa hjálp? Einnig má spyrja hvort þetta sé forgangsmál. Einmitt nú ríkja erfiðar aðstæður í borginni vegna m.a. COVID. Fátækt fer vaxandi og biðlistar barna eftir þjónustu borgarinnar eru í sögulegu hámarki. Nú þegar eru margir starfsmenn og deildir að sinna þessum málum enda má gera betur í að jafna laun kynjanna. Óþarfi er að opna enn eina skrifstofuna/eininguna með tilkostnaði. Kerfi Reykjavíkur er orðið alveg nógu stórt völundarhús nú þegar. Jafnrétti skiptir máli í öllu, ekki aðeins í launum heldur einnig að almennur jöfnuður ríki í Reykjavík. Langt er í land að því markmiði verði náð.

  Lóa Birna Birgisdóttir og Helga Björg Ragnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 29. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 4. mars 2021, þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa frá Reykjavíkurborg í stafrænan samráðshóp. R20120090
  Samþykkt að tilnefna Dóru Björt Guðjónsdóttur og Katrínu Atladóttur í samráðshópinn.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tilnefna á í stafrænan samráðshóp. Tilnefna á tvo frá frá hverju sveitarfélagi, óháð stærð og verkefnum og er vægi Reykjavík lítið nú sem fyrr í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er tímabært að öll sveitarfélögin á Íslandi, og jafnvel ríki og ráðuneyti, fari að vinna að sameiginlegum lausnum fyrir íbúa landsins. Spyrja má af hverju er ekki sett upp ákveðna allsherjar upplýsingagátt fyrir landsmenn (íbúa borgar og sveita) í gegnum island.is. Þá þarf fólk aðeins að skrá sig inn á island.is og þar væru allar gáttir opnar fyrir viðkomandi og hann gæti sinnt öllum sínum stafrænu málum þar. En að borgin, upplýsinga- og tækniþjónustan, leiði innleiðingu starfrænna umbreytinga á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er gríðarleg fjárútlát sem koma beint úr vasa borgarbúa. Önnur sveitarfélög, sum hver stöndug, eiga að sjálfsögðu að taka þátt í þeim kostnaði og í framhaldi geta þau haft bein áhrif á það hvert sú stafræna umbreyting skuli stefna svo hún þjóni best best þörfum allra. Svona stór mál eiga að vera í formi sameiginlegrar uppbyggingar með ríkinu á „raunverulegum“ stafrænum lausnum sem koma til með að þjóna öllum íbúum.

  Fylgigögn

 30. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 10. mars 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um byggingarland við Ánanaust, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. desember 2020. R20120086

  Fylgigögn

 31. Fram fer yfirferð á stöðu mála vegna húsnæðis Fossvogsskóla. R19020180

 32. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í þrjú ár hafa nemendur Fossvogsskóla þurft að kljást við veikindi og óvissu með skólahald. Ljóst er að viðgerðir og endurbætur á húsnæði Fossvogsskóla hafa ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Nú hefur verið ákveðið að rýma skólann, en ljóst er að ekkert plan liggur fyrir um hvernig skólahaldi verður fram haldið. Hvernig stendur á því? Skortur á upplýsingum og yfirklór hefur skapað gríðarlegt vantraust á borgaryfirvöld sem erfitt verður að endurheimta. Heilsa barnanna verður að fá að njóta vafans og borgaryfirvöld verða að axla þá ábyrgð sem þau hafa í þessu hörmungarmáli. Það vekur undrun að þetta mál hafi ekki verið á dagskrá borgarráðs í morgun. R19020180

 33. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Óskað er upplýsinga um stöðu biðlista eldri borgara eftir heimaþjónustu og heimahjúkrun. Þá er óskað skýringa hver sé ástæða þess að ekki er hægt að veita öllum þjónustuna. R21030203

  Vísað til meðferðar velferðarráðs.

 34. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hver er áætlaður kostnaður við að bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu Strætó bs.? Hvað er áætlað að slíkt myndi kosta á ársgrundvelli? R21030202

  Vísað til umsagnar Strætó bs.

 35. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Árið 2019 keyptu Félagsbústaðir 112 íbúðir sem var 13 íbúðum undir áætlun. Á árinu 2020 bættust 127 leigueiningar við eignasafn félagsins, sem er tæplega 90% af því sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hvað er áætlað að heildarfjárútlát Félagsbústaða hefðu verið ef áætlanir um íbúðakaup hefðu gengið eftir? Hver er ástæða þess að áætlanir um kaup hafa ekki gengið upp? R21030201

  Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

 36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Mikið hefur gengið á í Fossvogsskóla undanfarin ár vegna mygluskemmda í húsnæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hugað sé að börnunum í skólanum og hvernig þau eru að koma undan þessum ósköpum öllum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði sérstök könnun á andlegri líðan þessara barna, tilfinningalegri líðan þeirra og félagslegri og í kjölfarið verði skoðað hvort hægt sé að koma inn með sértæk hjálparúrræði allt eftir því hvað niðurstöður könnunarinnar segja til um. Í ljósi langs biðlista skólabarna eftir sálfræðingum skóla (957 börn bíða núna) er vont til þess að vita að þau börn í Fossvogsskóla sem eru nú þegar á biðlista eftir fagfólki skólaþjónustu þurfi að bíða mikið lengur núna þegar langvarandi álag vegna myglunnar í skóla þeirra bætist þar ofan á. Þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins það mikilvægt að taka stöðuna á líðan barnanna með kerfisbundnum hætti og skoða í framhaldinu hvort grípa þurfi til frekari hjálparúrræða, t.d. fjölgunar sálfræðinga eða annars fagfólks. R19020180

  Frestað.

 37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Flokkur fólksins leggur til að borgin standi straum af lækniskostnaði barna og starfsmanna Fossvogsskóla vegna veikinda sem hlotist hafa af raka- og mygluskemmdum í Fossvogsskóla. Mál Fossvogsskóla er einsdæmi að því leyti að þarna hafa fengið að grassera raka- og mygluskemmdir árum saman. Eins er farið í fleiri skólum og byggingum borgarinnar vegna þess að þeim hefur ekki verið haldið við svo árum skiptir. Það sem einkennir þetta mál sérstaklega er að foreldrar, starfsfólk og börnin hafa reynt að ná eyrum borgaryfirvalda í þrjú ár. Yfirvöld brugðust illa og seint við, hafa verið með útúrsnúninga, og á tímabili var áberandi að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur reyndi jafnvel að þagga málið niður, í það minnsta brást ókvæða við þegar spurt var um stöðu þess. Fulltrúi Flokks fólksins vill í ljósi vanrækslu borgaryfirvalda og tregðu að taka ástand Fossvogsskóla alvarlega strax og kvartanir bárust leggja til að Reykjavíkurborg standi straum af öllum lækniskostnaði barna og starfsmanna skólans vegna veikinda sem hlotist hafa af menguninni. Þetta á við um kostnað vegna líkamlegra veikinda vegna myglunnar og einnig vegna andlegrar vanlíðunar sem ástandið kann að hafa skapað. R19020180

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 13:18