Fundur nr. 5619

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 4. mars, var haldinn 5619. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:07. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Líf Magneudóttir og Eyþór Laxdal Arnalds. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Kr. Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Marta Mirjam Kristinsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. mars 2021:

  Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.115 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 4,22%, í óverðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVKN 35 1, en það eru 956 m.kr. að markaðsvirði og tilboð að nafnvirði 2.451 m.kr., á ávöxtunarkröfunni 1,24%, í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 32 1, sem eru 2.424 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 3. mars 2021.

  Trúnaðarmerkt greinargerð fylgir tillögunni. R20120178
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 2. Fram fer umræða um hættustig almannavarna á höfuðborgarsvæðinu vegna skjálftahrinu á Reykjanesi. R21030013

  Borgarráðsfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á borgarráðsfundi þann 16. maí 2019 bókaði borgarfulltrúi Miðflokksins við kynningu á rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. „Loksins, loksins er komin rýmingaráætlun. Þann 22. maí 2012 lagði ég fram á Alþingi fyrirspurn um rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið kæmi upp vá eins og t.d. eldgos. Svar innanríkisráðherra var birt þann 10. september 2012 og er að finna á þessari slóð. Í stuttu máli má segja að engin rýmingaráætlun var til. Gleðilegt er að sjá að ýmislegt í þessari fyrirspurn er að skila sér í rýmingaráætlun Reykjavíkur. Margt vantar í rýmingaráætlunina ef stórtækir atburðir gerast á höfuðborgarsvæðinu sem kalla á víðtæka rýmingu. Ekki eru til sviðsmyndir af verstu hugsanlegu atburðum. Aðferðin til að koma upplýsingum áleiðis til fólks eins og að senda SMS, senda upplýsingar á fjölmiðla og samfélagsmiðla eru á veikum grunni reistar því í hamförum fer rafmagnið oft fyrst. Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í stórkostlegt kynningarátak og sendi vandaðan upplýsingabækling á hvert einasta heimili í Reykjavík til að upplýsa um hvernig fyrstu viðbrögð eigi að vera þegar alvarleg vá steðjar að. 

  Jón Viðar Matthíasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. febrúar 2021, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 17. febrúar 2021 á tillögu um friðlýsingu á Blikastaðakró, Grafarvogi og þangfjörusvæði í austanverðum Skerjafirði, ásamt fylgiskjölum. R21020187
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægi náttúrusvæða og náttúruverndar verður okkur æ ljósari á tímum loftslagsbreytinga og heimsfaraldurs. Í þéttri byggð og sístækkandi borg verðum við að vanda okkur og huga að verndun búsvæða fjölbreytts lífríkis, vistgerða, náttúruvætta, einstakra jarðminja, landslags og gróðurfars. Náttúran gegnir lykilhlutverki í lýðheilsu og hvers kyns athöfnum borgarbúa en náttúran hefur líka gildi í sjálfri sér. Samtal um friðlýsingu þriggja mikilvægra strandsvæða í Reykjavík við Blikastaðakró, Grafarvog og þangfjörusvæðið í austanverðum Skerjafirði er fyrsta skrefið af mörgum í átt að aukinni náttúruvernd í Reykjavík. Friðlýsingarhjólin eiga líka að fá að snúast í borginni.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja friðlýsingaráform í Skerjafirði og Grafarvogi svo fremi sem þau raski ekki áformum um uppbyggingu Sundabrúar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins telur tími til kominn að friðlýsa öll þessi svæði. Fulltrúi Flokks fólksins er talsmaður friðlýsingar á sem flestum stöðum í borgarlandinu þar sem þarf að draga úr álagi á náttúru og lífríki svæða. Allt of mikið er gengið á grænu svæði borgarinnar, náttúru fórnað fyrir steypu. Gengið er á náttúrulegar fjörur á nokkrum stöðum í borginni með landfyllingum til að þétta byggð enn meira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur mótmælt þessu harðlega.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals, ásamt fylgiskjölum. R20020112
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Laugardalurinn fái að vera í friði fyrir íbúðaáformum, hvort sem um er að ræða smáhýsi eða stórhýsi. 

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur frá upphafi talað fyrir því að Reykjavíkurborg myndi taka á leigu/kaupa hótel eða gistiheimili fyrir þennan hóp sem á svo mjög um sárt að binda í borginni. Nú hefur að einhverju leyti verið orðið við því og er það gleðiefni. Aukafundur var haldinn í borgarráði sumarið 2018 til að ræða neyðarástand heimilislausra í Reykjavík þar sem aðgerða var krafist strax í málaflokknum. Svar borgarstjóra og meirihlutans var að kaupa 20 smáhýsi án útboðs. Til stóð að kaupa 25 smáhýsi en þeim fækkaði „í sjó“. Allt í kringum smáhýsin er flopp. Kostnaður við húsin hleypur á hundruðum milljóna og var óskiljanleg ráðstöfun á sínum tíma. Margt þarf að skoða í sambandi við þá ákvörðun, útboði sem ekki var tekið, komu húsanna til landsins og frágangi þeirra á lóðir. Fermetraverð smáhýsanna losar 1,5 milljón miðað við kostnaðaráætlun en nú er þegar ljóst að kostnaðurinn er farinn úr böndunum. Er það á pari við fermetraverð dýrustu lúxus íbúða í Reykjavík.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það er afar mikilvægt að íbúar og aðrir í hverfinu, þ.m.t. íþróttafélögin, fái góða og ítarlega upplýsingagjöf og fræðslu um þau úrræði sem koma á upp í hverfinu. Fundir eru best fallnir til þess því á þeim er hægt að ræða saman maður við mann, skiptast á skoðunum og umfram allt útskýra í hverju úrræðið felst, hvernig það kemur til með að líta út, hver verður umgjörðin og eftirfylgnin með því eins og í tilfelli þessa úrræðis sem hér um ræðir. Ef litið er yfir athugasemdir í þessu máli má sjá að þær kjarnast nokkuð í því að fólki finnst úrræðið enn nokkuð óljóst.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, 26. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð göngu- og hjólastíga við Bústaðaveg og Litluhlíð, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 180 m.kr. R21030009
  Samþykkt. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021 á tillögu um endurskoðaðar reglur um bílastæðagjald byggingaraðila í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R21030010
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst í fyrsta lagi undarlegt að það hafi þurft að útvista því verkefni að kanna hvað sambærilega er gert er í bílastæðamálum í nokkrum erlendum borgum . Hér er aðeins um að ræða að lesa opinberar upplýsingar sem ekki þarf sérfræðiþekkingu til að gera. Embættismannakerfi borgarinnar ætti að ráða við það, er það ekki? En í Reykjavík þarf að gera ráð fyrir bílastæðum fyrir alla sem vilja og þurfa og það er vissulega kostur að gefa þeim sem eru að byggja, á þegar fullbyggðum svæðum, kost á að greiða fyrir bílastæði í stað þess að gera þau sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins styður aukinn sveigjanleika í þessum efnum að þeir eigendur bíla sem óska að leggja í bílastæðahúsum frekar en við heimili sín, sem dæmi í miðbænum þar sem búið er að byggja þröngt, verði gert það auðveldara og aðgengilegra. Nóg pláss er í bílahúsum og mörg vannýtt á ákveðnum tímum. Ástæður eru ýmsar fyrir því, erfitt aðgengi og óþarflega há gjaldtaka. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssvið, dags. 25. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á umsögn skipulagsfulltrúa vegna greiningar á staðarvali fyrir skólabyggingu í Öskjuhlíð, ásamt fylgiskjölum. R19040175

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er löngu tímabært að Hjallastefnan fái viðunandi og varanlega lóð fyrir framtíðarhúsnæði enda hefur starfsemin verið í tímabundnu húsnæði um árabil. Mikilvægt er að málið verði leyst svo skjótt sem verða má. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja á skóla fyrir Hjallastefnuna. Leysa þarf málið sem fyrst til að draga úr óvissu foreldra, barna og starfsfólks. Valinn hefur verið einn fallegasti staðurinn í borginni fyrir skólann. Þarna er fallegi duftgarðurinn Sólland og einu áhyggjur fulltrúa Flokks fólksins er að byggt verði of nálægt honum þrátt fyrir að vilyrði sé gefið fyrir lóð B en duftgarðurinn er á lóð A. Mikilvægt er að duftgarðurinn geti þróast og stækkað í framtíðinni. Reyndar er annar ókostur við að byggja skóla á þessu svæði. Börnin munu ekki geta gengið í skólann, heldur þarf að aka þeim. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti vilyrði um lóð ásamt byggingarrétti undir skólahúsnæði í Öskjuhlíð, ásamt fylgigögnum. R19040175
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hjallastefnu er hér veitt vilyrði um úthlutun lóðar við Öskjuhlíð en skólinn er einn af 17 starfandi sjálfstæðum leikskólum og einn af sex sjálfstæðum grunnskólum í Reykjavík. Í talsverðan tíma hafa Hjallastefnan og Reykjavíkurborg átt í viðræðum um lausn á lóðarmálum skólans. Með þessu skrefi er leitast við að minnka óvissu foreldra, nemenda og starfsfólks skólans. Vilyrðið er háð þeirri kvöð að lóðin verði einungis leigð undir húsnæði til skólareksturs. Þegar og ef til lóðarúthutunnar kemur til Hjallastefnunnar má því vænta að við Öskjuhlíð rísi skólahúsnæði með tilheyrandi lífi skólabarna í nágrenni við einstaka náttúru.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að byggja á skóla fyrir Hjallastefnuna. Leysa þarf málið sem fyrst til að draga úr óvissu foreldra, barna og starfsfólks. Valinn hefur verið einn fallegasti staðurinn í borginni fyrir skólann. Þarna er fallegi duftgarðurinn Sólland og einu áhyggjur fulltrúa Flokks fólksins er að byggt verði of nálægt honum þrátt fyrir að vilyrði sé gefið fyrir lóð B en duftgarðurinn er á lóð A. Mikilvægt er að duftgarðurinn geti þróast og stækkað í framtíðinni. Reyndar er annar ókostur við að byggja skóla á þessu svæði. Börnin munu ekki geta gengið í skólann, heldur þarf að aka þeim. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að veita Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni – Safnaðar Moskvu-Patriarkatsins, Öldugötu 44, 101 Reykjavík, tveggja ára viðbótarfrest til að hefja framkvæmdir við byggingu kirkju á lóðunum Bræðraborgarstíg 2 og Bakkastíg 8. Samhliða færist frestur til að ljúka framkvæmdum um tvö ár.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R18110202
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki lóðarvilyrði fyrir atvinnuhúsnæði í Gufunesi. R18040205
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir atvinnuhúsnæði við Jöfursbás 2, ásamt fylgiskjölum R17110093
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, varðandi framlengingu á lóðarvilyrði fyrir Jöfursbás 6. R17110092
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir Lambhagaveg 10. R20120068
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðilaskipti að lóðinni Rökkvatjörn 6-8. R20120127
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á lóðinni Suðurlandsbraut 34-Ármúli 31, ásamt fylgiskjölum. R20120128
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er verið að gera samkomulag um nokkuð umfangsmikla uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis meðfram Borgarlínu. Deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að iðnaðarhúsnæði að Ármúla 31 og bakhús á miðri lóð víki fyrir 4-8 hæða nýbyggingum en að gamla Rafmagnsveituhúsið fái virðingarsess á lóðinni. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi gerir ráð fyrir 40.872 m² af íbúðarhúsnæði, 436 íbúðum og 6.179 m² af atvinnuhúsnæði. Samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu verður heimilað byggingarmagn ofanjarðar 47.051 m². Þá mun lóðin skerðast, m.a. vegna nýrra gatna, gönguása og borgarlínu.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús og bílageymslu við Stefnisvog 1, ásamt fylgiskjölum. R21020153
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús við Urðarbrunn 94. R20120159
  Samþykkt. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um uppbyggingu á lóð að Þverholti 13, ásamt fylgiskjölum. R21020102
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

  Líklegt má telja að samningsmarkmið borgarinnar um innviðagjöld og aðrar kvaðir tefji framkvæmdir, hækki kostnað og hækki þannig íbúðaverð. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. mars 2021, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela menningar-, íþrótta og tómstundaráði og íþrótta- og tómstundasviði í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur að gera tillögu að því hvaða félag eða félög taki að sér að þjóna nýjum borgarhluta í Vogabyggð og Ártúnshöfða. Ráðið mun rýna drög að deiliskipulagi og aðgengi að nálægum svæðum með tilliti til íþróttaaðstöðu. Meðal annars verði litið til hugmynda félaganna og óskir um uppbyggingu innviða á svæðinu með hagkvæmni og samnýtingu á einhverjum núverandi innviðum á svæðum félaganna í huga. R21030001

  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er mikilvægt að íþróttafélög þjóni vel nýjum íbúum í nýum hverfum Vogabyggðar og Ártúnshöfða. Hér er borgarráð að fela menningar- íþrótta- og tómstundaráði og Íþróttabandalagi Reykjavíkur að fara í þá vinnu að meta hvernig þeirri þjónustu sé best sinnt. Meðal annars verði litið til hugmynda íþróttafélaganna og óskir um uppbyggingu innviða á svæðinu með hagkvæmni og samnýtingu á einhverjum núverandi innviðum á svæðum félaganna í huga.

  Fylgigögn

 20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 1. mars 2021, varðandi tilnefningu fulltrúa í undirbúningsnefnd um stofnun og byggingu Norðurslóðaseturs í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum. R21030004
  Samþykkt

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Málefni norðurslóða skipta okkur miklu máli. Þróun hafstrauma er eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að rannsaka betur. Gott og aukið samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir innanlands og erlendis skipta þar miklu.

  Fylgigögn

 21. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag við lóðarhafa að lóðunum Laugavegur 168 og 170-174, ásamt fylgiskjölum. R16020062
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er jákvætt að samningsaðilar hafi náð niðurstöðu en málið hefur tafist í fjögur ár. Líklegt má telja að samningsmarkmið borgarinnar um innviðagjöld og aðrar kvaðir tefji framkvæmdir, hækki kostnað og hækki þannig íbúðaverð. 

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. mars 2021, varðandi tillögu um ábyrgðargjald Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2021, ásamt fylgiskjölum. R21020191
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu máslins og leggja fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir 83,7 milljörðum króna af skuldum Orkuveitu Reykjavíkur. Hér er verið að innheimta ábyrgðargjald enda er ábyrgð borgarinnar á skuldum dótturfyrirtækjanna raunveruleg en ábyrgðin kemur ekki fram með skýrum hætti í efnahagsreikningi borgarinnar. 

  Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 23. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. mars 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við leigusamning um Vatnagarða 28, ásamt fylgiskjölum. R21020201
  Samþykkt. 

  Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 24. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að gengið verði til samninga um kaup á landi í Viðey, ásamt fylgiskjölum. R20020179
  Samþykkt. 

  Halldóra Káradóttir og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 25. Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 8. febrúar 2021, varðandi drög að viðaukasamningi um rekstur Laugardalsvallar, ásamt fylgiskjölum. R15020197
  Samþykkt.

  Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 26. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 1. mars 2021, um markaðsátak vegna COVID-19, ásamt fylgiskjölum. R20030002

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Síðasta vor samþykkti borgarráð að fara í markaðsátak að kynna Reykjavík sem ferðamannastað og verja til þess að lágmarki 150 m.kr. Markmiðið var að styðja þannig við ferðaþjónustu í borginni eftir það hrun sem hefur verið í greininni vegna COVID-19. Síðasta sumar var átakinu beint að Íslendingum og þeir hvattir til að sækja Reykjavík heim. Nú virðist sem rétti tíminn sé að koma til að beina átaki að erlendum gestum og að hvetja þá til að koma til Reykjavíkur þegar að heimurinn fer aftur á flakk, fullur af þrá til að upplifa eitthvað nýtt og heimsækja aftur sína uppáhaldsstaði eftir bólusetningar. Er menningar- og ferðamálasviði þökkuð kynningin.

  Arna Schram og Gíslína Petra Þórarinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 27. Lagt bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 15. febrúar 2021, um framvinduskýrslu vegna áfangastaða- og markaðsstofu fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið, ásamt fylgiskjölum. R21020122

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Í nýsamþykktri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar koma fram skýr markmið um að þróa sjálfbæra ferðaþjónustu í sátt við samfélagið og laða fram það besta sem Reykjavík hefur að bjóða sem sjálfstæður áfangastaður. Með áfangastofu höfuðborgarsvæðisins gefst tækifæri á að vinna enn betur að þeim markmiðum, í samstarfi við alla hagaðila. Árangursríkt og skilvirkt samstarf getur skilað sér í aukinni samkeppnishæfni áfangastaðarins Reykjavík. Áfangastofur er nú að finna í öllum landshlutum, utan höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið verður nú unnið áfram í samstarfi allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem framfylgd sóknaráætlunar 2020-2024, auk Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Ferðamálastofu.

  Arna Schram, Gíslína Petra Þórarinsdóttir og Inga Hlín Pálsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. mars 2021, ásamt fylgiskjölum: 

  Lagt er til að borgarráð samþykki breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykkt var á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar sl. Breytingin felur í sér kostnaðarauka við fjárhagsaðstoð að fjárhæð 67,1 m.kr. á ársgrundvelli sem tekur mið af fjölda þeirra sem voru á fjárhagsaðstoð í september 2020. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa, sem fjármagnaður verði af kostnaðarstaðnum ófyrirséð, 09205. Samþykktin felur jafnframt í sér einskiptiskostnað við hugbúnaðarbreytingar á bilinu 6-7,5 m.kr. sem rúmast innan fjárfestingaáætlunar. R21030012

  Samþykkt. 
  Vísað til borgarstjórnar.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Þær breytingar sem hér eru samþykktar á reglum um fjárhagsaðstoð eiga flestar rætur sínar að rekja til tillagna stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra sem samþykkt var í velferðarráði þann 4. desember 2019. Stærsta breytingin felst í að heimildagreiðslur vegna barna verða nú þjónustugreiðslur, sem verða að sjálfkrafa rétti, til að hægt sé að veita börnum notenda fjárhagsaðstoðar ákveðna grunnþjónustu. Þjónustugreiðslurnar duga fyrir allt að átta tíma dvöl á leikskóla ásamt fæðisgjaldi, dvöl á frístundaheimili fimm daga í viku ásamt síðdegishressingu og skólamat. Hér er um að ræða nýja nálgun í reglum um fjárhagsaðstoð þar sem litið er á sjálfstæðan rétt barna til þeirrar þjónustu sem um ræðir. Einnig er tekið tillit til aðstæðna þeirra sem eru að ljúka endurhæfingu er varðar skerðingar vegna tekna fyrri mánaða, en mikilvægt er að hvati sé til staðar til að taka þátt í endurhæfingarúrræðum. Auk þessa eru gerðar ýmsar breytingar á reglum t.d varðandi námsaðstoð, húsbúnaðarstyrk, ábyrgðartryggingar vegna húsaleigu, greiðslur vegna sérfræðikostnaðar eru hækkaðar sem og útfararstyrkur. Reglunum var vísað til umsagnar hagsmunaaðila og tóku drögin ákveðnum breytingum í kjölfar þess. Mikilvægt er að líta á reglur um fjárhagsaðstoð sem lifandi plagg og bregðast við þeim atriðum sem upp kunna að koma í framkvæmdinni með reglubundnum hætti.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hér eru ýmsar breytingar gerðar á reglunum en ekki er verið að fara í heildarendurskoðun á reglunum og eftir stendur sú staðreynd að ekki er verið að hækka grunnupphæðina. Hún dugar ekki til framfærslu eins og sjá má á tölunum. Fólki í viðkvæmdri stöðu er gert mjög erfitt fyrir. Fulltrúi sósíalista þakkar fyrir allar þær ábendingar sem bárust frá einstaklingum og hagsmunasamtökum. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Öllum góðum breytingum er fagnað. Upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu er of lág og hana þarf að hækka. Fjölmargar ábendingar komu en ekki þær veigamestu komust gegnum nálaraugað. Króna á móti krónu skerðing heldur áfram. Við gerð reglna um fjárhagsaðstoð er vel hægt að víkja frá þessari skerðingu enda ávinningur af því fyrir alla. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að Reykjavík auki við fjárhagsaðstoð eða breyti reglunum þannig að fjárhagsaðstoð skerðist ekki krónu móti krónu. Lög um félagsþjónustu hafa að geyma ákvæði um lágmarksskyldur sveitarfélaga en takmarka ekki hve mikið þau mega gera umfram þær lágmarksskyldur. Greinin um framfærsluskyldu sýnir að áfram á að skerða fjárhagsaðstoð vegna tekna maka og vísað er í dóm sem borgin vann. Sá sigur er ekki til að hreykja sér af hvað þá styðja sig við. Ekkert kemur fram í þessu dómsmáli sem gefur til kynna að það myndi brjóta gegn ákvæðum hjúskaparlaga eða laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að afnema tekjutengingu við maka. Þetta er allt spurning um hvernig við viljum búa að okkar viðkvæmustu einstaklingum. Markmið hjálparkerfis á að vera að valdefla einstaklinga. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi.

  Regína Ásvaldsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 29. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 1. mars 2021, sbr. samþykkt velferðarsviðs frá 24. febrúar 2021 á tillögu um breytingar á reglum velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum, ásamt fylgiskjölum. R20020077
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Þessar reglur gera Reykjavikurborg kleift að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir, hér er verið að lengja frest en á sama tíma mun velferðarsvið fara í sérstakt kynningarátak til að ná til fleiri foreldra. Þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins.

  Regína Ásvaldsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 30. Lagður fram úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 24. febrúar 2021, í máli E-5197/2020. R21030011

  Fylgigögn

 31. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur og eftirlit með styrkjum og samstarfs- og þjónustusamningum, sbr. 53. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021. R21010121

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar ítarlegt svar en spurt var um um reglur og eftirlit með styrkjum og samstarfs- og þjónustusamningum. Sjá má að margt horfir til bóta enda hefur verið óreiða í þessum málum. Nokkrar vangaveltur skjóta upp kollinum við lestur svarsins og þá er fyrst að nefna tengsl fagsviðanna við fjármála- og áhættusviðið t.d. hvort tengslin séu næg og hvort fjármála- og áhættusvið fylgi eftir málum inn á fagsviðin. Skila á inn greinargerð um hvernig styrkféi hefur verið varið en ekki er vitað hversu margar greinargerðir skila sér. Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að rifta samningum, afturkalla styrkloforð og/eða krefjast endurgreiðslu ef sannarlega er um forsendubrest eða vanefndir að ræða af hálfu styrkþega en hversu mörgum samningum hefur verið rift fylgir ekki sögunni. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja inn frekari fyrirspurnir um þetta en fagnar að greinilega er verið að taka til í þessum málum.

  Fylgigögn

 32. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 4. mars 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp og reiknilíkan vegna skýrslu innri endurskoðunar um grunnskóla frá 2019, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020. R20110107

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp og reiknilíkan vegna skýrslu innri endurskoðunar um grunnskóla frá 2019. Gott er að þetta verk, endurskoðun á reiknilíkani potast áfram en það hefur gengið allt of hægt. Eins og fram kemur í svari var, árið 2019, settur á laggirnar starfshópur sem hafði það að markmiði að endurskoða reiknilíkan til úthlutunar fjárheimilda fyrir grunnskóla. Nú hefur annar starfshópurinn verið myndaður sem á að útfæra og meta forsendur líkansins. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort fyrri hópurinn sem myndaður var hefði ekki getað gert þetta líka. Nú þremur árum seinna er enn ekki komið nýtt líkan og verður ekki fyrr en 2022. Minnt er á að ansi mörg og alvarleg vandamál fylgdu því að vera með “plástrað” reiknilíkan. Árum saman stýrði úrelt og margplástrað reiknilíkan, sem var farið að lifa sjálfstæðu lífi, fjármagni til skólanna.

  Fylgigögn

 33. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um að innri endurskoðandi kanni heildarkostnað við endurbætur á Óðinstorgi, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar 2021. R19030190
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihlutinn vísaði tillögu minni um að innri endurskoðandi kanni heildarkostnað og skoði öll ítargögn sem finnast hjá Reykjavíkurborg s.s. fjárheimildir frá árinu 2017 til og með 2020, hönnunarsamkeppnir, útboð, skoðun á reikningum og fl. til að upplýsa hvað endurbætur Óðinstorgi raunverulega kostuðu útsvarsgreiðendur í Reykjavík. Hvers vegna vill meirihlutinn ekki upplýsa borgarbúa um kostnaðinn og hvað er verið að fela? Hér fer ég yfir reikningskúnstir borgarinnar sem standast enga skoðun í framkvæmdum á vegum opinberra aðila. Að fletja út allan kostnað t.d. 60 milljóna hönnunarkostnaðar á torginu á allt verkið og deila heildarkostnaði verksins í heild með fermetrafjölda til að fá út fermetraverð og margfalda síðan með fjölda fermetra Óðinstorgs til að finna út verðmiða á torgið eru blekkingar og ósannindi. Borgarfulltrúi Miðflokksins hyggst sjálfur fara með málið til innri endurskoðanda til rannsóknar. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Margoft hefur verið gerð grein fyrir þeim atriðum sem áheyrnarfulltrúinn leggur til að verði skoðuð af innri endurskoðun. Fullyrðingum um reikningskúnstir er vísað til föðurhúsanna. Um er að ræða fullkomlega eðlilega aðferðafræði við að setja fram kostnað við framkvæmdir sambærilegar þeirri sem hér um ræðir. Því er lagt til að tillögunni sé vísað frá.

  Fylgigögn

 34. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 18. febrúar 2021. R21010023

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið: 

  Bókun við lið 4 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 18. febrúar 2021: Lagt er fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. desember 2020, við fyrirspurn Öryrkjabandalags Íslands um merkingar við göngugötur. Segir í svari að núverandi fyrirkomulag merkinga á göngugötum í Reykjavík sé sú útfærsla sem þykir árétta með hvað skýrustum hætti að um sé að ræða göngugötur. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi útfærsla geti varla talist mjög skýr, alla vega ekki nógu skýr. Ef hún væri það þá myndi fólk sem hefur leyfi til að aka göngugötur á P merktum bílum sínum ekki verða fyrir aðkasti. Segir einnig að beðið sé eftir að sérstakt umferðarmerki fyrir göngugötur verði tekið upp í reglugerð um umferðarmerki. Hvenær það verður um það bil fylgir ekki sögunni.

  Fylgigögn

 35. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 15., 19. og 24. febrúar 2021. R21010018

  Fylgigögn

 36. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. febrúar 2021. R21010004

  Fylgigögn

 37. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. febrúar 2021. R21010026

  Fylgigögn

 38. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 25. febrúar 2021. R21010028

  Fylgigögn

 39. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 24. febrúar 2021. R21010031

  Fylgigögn

 40. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 17. febrúar 2021. R21010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið: 

  Kynning á Velkomin í hverfið: Komið er inn á íþróttavirkni barna af erlendum uppruna í kynningunni. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þá staðreynd að rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum, en í þeim hópi er stór hluti innflytjendur, stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Allt of mörg dæmi eru um að efnaminni foreldrar eiga engra annarra kosta völ en að nota frístundakortið til að greiða fyrir vistun á frístundaheimilum. Það leiðir til þess að barnið getur ekki nýtt frístundakortið í sérvalda tómstund. Hér verða velferðaryfirvöld að koma inn með sértækan stuðning og sértækar aðgerðir. Frístundakortið er réttur barnsins sem á ekki að nota sem gjaldmiðil í þeim tilfellum sem velferðaryfirvöld styðja ekki fátæka foreldra með viðunandi hætti, svo sem að hjálpa þeim að greiða gjald frístundaheimilis. Tekjutenging gjalda fyrir vistun á frístundaheimilum er ein leið til að stuðla að auknum jöfnuði fyrir þann hóp barna sem býr við viðkvæma fjárhagslega stöðu.

  Fylgigögn

 41. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 24. febrúar og 1. mars 2021. R21010069

  Fylgigögn

 42. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 15. febrúar 2021. R21010021

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið: 

  Bókun Flokks fólksins við lið 1 í fundargerð ofbeldisvarnarnefndar: Ég tel að engum dyljist það mikilvæga starf sem starfsfólk Kvennaathvarfsins hefur sinnt frá opnun þess 1982. Kvennaathvarfið stendur opið öllum þeim konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu maka eða annarra heimilismanna. Kvennaathvarfið beinir sjónum að þörfum og réttindum barnanna sem búa í athvarfinu hverju sinni. Áherslan er á börnin sem gerir allt starf Kvennaathvarfsins svo frábært. Komið hefur verið upp sérstökum verklagsreglum um vinnu með börnunum í athvarfinu. Þarna er unnið stórkostlegt starf og vill fulltrúi Flokks fólksins færa starfsfólki og öllum þeim sem koma að starfi Kvennaathvarfsins hinar bestu þakkir.

  Fylgigögn

 43. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 17. febrúar 2021. R21010016

  Fylgigögn

 44. Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 24. febrúar 2021. R21010008
  B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 27. lið: 

  Tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta að svörun erinda sem berast sviðinu var vísað frá. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið þurfi að skoða hvort þurfi að bæta verkferla þegar kemur að svörun og afgreiðslu utanaðkomandi erinda. Ástæða fyrir að fulltrúi Flokks fólksins lagði þessa tillögu fram er að á RÚV var fyrir stuttu rætt við konu á Kjalarnesi sem sagði frá því að erindi hennar var ekki svarað eða sinnt með neinum hætti þótt hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við sviðið. Þetta er miður að heyra og gefur tilefni til að sviðið skoði markvisst og kerfisbundið hvort hjá því liggi fleiri ósvöruð erindi. Það er vel vitað að bæta þarf viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma og svörun skeyta víða í borgarkerfinu. Þrátt fyrir það var tillögunni vísað frá.

  Fylgigögn

 45. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 24. og 26. febrúar 2021. R21010012

  Fylgigögn

 46. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 29. janúar og 19. febrúar 2021. R21010017

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið: 

  Undir liðnum önnur mál í fundargerð Strætó frá 19. febrúar 2021 kemur fram að: „Rætt var um möguleika á að verktakar geti komið með vagna sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjafa“. Fulltrúi sósíalista undirstrikar mikilvægi þess að byggðasamlög og sveitarfélögin sem sjá um rekstur þeirra vindi ofan af útvistunarstefnu, þar sem grunnþjónustu er komið í hendur einkaaðila, í stað þess að auka á hana. Mikilvægt er að fyrirtæki í eigu borgarinnar efli umhverfisvæna kosti sína.

  Fylgigögn

 47. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 27 mál. R21020188

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið: 

  Fulltrúi Flokks fólksins telur afar brýnt að fullnægjandi stoð sé í lögum um leik–, grunn- og framhaldsskóla hvað varðar einelti. Mest um vert er að málin séu unnin af fagmennsku og að þeim sinni aðeins þeir sem hlotið hafa sérfræðimenntun í úrvinnslu eineltismála og hafa langa reynslu við vinnslu þeirra á vettvangi. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það þurfi að vera hægt að vísa málum fyrr til fagráðsins. Stundum hefur verið reynt of lengi áður en máli er vísað og hefur þá málið undið upp á sig svo mikið að enn erfiðar reynist að leysa það svo viðunandi sé. Þessi mál þarf að vinna hratt. Gagnvart aðilum (foreldrum) þarf að ríkja gegnsæi þannig að aðilar hafi jafnan aðgang að framlögðum gögnum. Ganga þarf úr skugga um að allir leik- og grunnskólar sinni forvörnum með fullnægjandi hætti og hafi viðhlítandi verkferla tiltæka komi kvörtun um einelti. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu. Í ljósi ofangreinds væntir fulltrúi Flokks fólksins þess að hlutverk fagráðsins verði endurskilgreint.

  Fylgigögn

 48. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21030007

  Fylgigögn

 49. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Á fjárhagsáætlun 2021 til 2025 var stafræn þróun á þjónustu Reykjavíkurborgar meðal helstu fjárfestingaverkefna næstu ára. Þannig var ákveðið að umbreyta allri þjónustu og afgreiðslu sem unnt er að færa á internetið, á þremur árum með tíu milljarða fjárfestingu í upplýsingatækni og stafrænni umbreytingu borgarinnar. Óskað er upplýsinga um (a) hvernig áætlað er að verja þeim 10 milljörðum sem ráðstafað verður í verkefnið (b) hversu mörg opinber störf verkefnið kallar á (c) hvert verði umfang útvistunar verkefna og verkþátta (d) hvort unnið verði að hagkvæmni og samnýtingu lausna þvert á sveitastjórnarstig, í samstarfi við Stafrænt Ísland og stafræna þróun annarra sveitarfélaga og (e) hversu mikla hagræðingu stafræna þróunin muni leiða af sér fyrir borgarkerfið, á ársgrundvelli, til framtíðar? R20010203

  Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 50. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

  Þann 16. apríl lagði fulltrúi sósíalista fram eftirfarandi tillögu: Lagt er til að grunnlaun borgarfulltrúa og 1. varaborgarfulltrúa taki ekki hækkunum í takt við þróun launavísitölu líkt og þau hafa gert. Grunnlaunin miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Á meðan að COVID-19 faraldurinn gengur yfir og samfélagið tekst á við efnahagslegar afleiðingar þess er mikilvægt að hinir betur launuðu í ráðandi stéttum sýni ábyrgð í verki. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja að laun borgarfulltrúa taki ekki hækkunum á komandi mánuðum. Þá er mikilvægt að ef þessi ákvörðunin verði endurskoðuð síðar, að hún leiði ekki til afturvirkra launahækkana. Fulltrúi sósíalista hefur reglulega athugað hver staðan á tillögunni sé en hún hefur ekki enn komið til afgreiðslu, mörgum mánuðum síðar og komið hefur til launahækkana. R20040104

 51. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
   
  Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þann 15. febrúar sl. var lagt fram og kynnt minnisblað frá stjórn Betri samgangna ohf. þar sem lagðar voru fram tillögur að mögulegum útfærslum fjármagnsskipunar félagsins, ásamt minnisblaði PwC varðandi þær útfærslur sem eru færar í því efni. Jafnframt kom fram að framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi fundað með fjármálastjórum og endurskoðendum sveitarfélaganna vegna þessa. Borgarfulltrúi Miðflokksins óskar eftir að framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. komi á fund borgarráðs og kynni minnisblaðið. R21030058

  Vísað til vinnslu skrifstofu borgarstjórnar.

 52. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að tekjutengja gjald fyrir vistun á frístundaheimili og taki sú aðgerð gildi 1. janúar 2022. Kostnaðaráætlun: Niðurgreiðsla vegna gjalda á frístundaheimilum yrði um 13.000.000 kr. á ári. Ábyrgðaraðili: skóla- og frístundasvið. Tímarammi: 2022. Jöfnuður er ein mikilvægasta forsenda þess að öll börn nái að vaxa og dafna í samfélaginu. Rannsóknir sýna að börn frá tekjulágum heimilum stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Innflytjendur eru stór hópur tekjulágra í reykvísku samfélagi. Foreldrar hafa þurft að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða frístundaheimili og þar með nýtist kortið ekki fyrir barnið til að velja sér tómstund eða íþrótt. Hér er brotið á rétti barnsins. Útbúa þarf tekjuviðmið um niðurgreiðslu til að hægt verði að styðja við tekjulágar fjölskyldur með viðbótarniðurgreiðslu á gjöldum frístundaheimila. Þetta er eina leiðin til að barnið fái að halda rétti sínum til frístundakortsins.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R21030042
  Frestað.

  Fylgigögn

 53. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Tillaga Flokks fólksins um að skoðað verði að opna aðstöðu fyrir sjósund á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukins áhuga almennings. Þetta má gera án þess að raska fjörum. Það sem þarf er sturtu- og búningsaðstaða og heitur pottur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að íþrótta- og tómstundaráð skoði með að opna aðstöðu fyrir sjósund á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna aukins áhuga almennings. Talað hefur verið um aðstöðu við Laugarnestangann og við Geldinganes. En meðan verið er að skoða fleiri möguleika á staðsetningu fyrir sjóböð er tilvalið að lengja opnunartímann í Nauthólsvík, þar sem þegar er til staðar frábær aðstaða fyrir sjósundsfólk. Þar þarf að vera opið alla daga vikunnar. R21030043

  Vísað til meðferðar menningar,- íþrótta- og tómstundaráðs.

 54. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Tillaga Flokks fólksins að opnunartími sjóbaðanna í Nauthólsvík verði lengdur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að opnunartími sjóbaðanna í Nauthólsvík verði lengdur þannig að þau verði opin alla daga vikunnar. Það eru margir sem nú losna fyrr úr vinnu vegna styttingu vinnuvikunnar og myndu gjarnan vilja komast í sjóböð t.d. um hádegi á föstudögum og sama má segja um sunnudaga. Sjálfsagt er að hafa sjóböðin opin alla daga vikunnar. Margir upplifa aukin lífsgæði við það að stunda sjósund og eru mörg dæmi um fólk sem telur sig hafa náð betri andlegri og líkamlegri heilsu við sjóböð. R21030044

  Vísað til meðferðar menningar- íþrótta- og tómstundaráðs.

 55. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Tillaga Flokks fólksins um að sett verði nauðsynlegt fjármagn í styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki enda ljóst að gera þarf breytingar á vaktkerfi, vaktaplönum og launaforritum. Mikill fjöldi félagsmanna vinnur vaktavinnu m.a. fjöldi starfsmanna innan heilbrigðisgeirans og í stofnunum velferðarþjónustunnar. Með styttingu vinnuvikunnar verða miklar breytingar á vaktakerfinu. Vaktaplönum þarf að breyta og einnig forritum sem halda utan um t.d. launamál. Kannski var þetta ekki alveg hugsað til enda þegar sett var sem skilyrði að þetta mætti ekki kosta neitt. Þessu fylgir eðlilega kostnaður ef taka á verkefnið um styttingu vinnuvikunnar alla leið. Streðað var við að stytta vinnuviku dagvinnufólks án þess að setja í það krónu. Hætta er á að það komi niður á þjónustuþegum, starfsfólki og jafnvel starfsemi á þeim stöðum þar sem mesta álagið er. Ef allir taka vinnutímastyttingu yrði mönnunargat of stórt til að ráða við það og til að fylla það gat þarf fjármagn. Einhverjir í hlutastörfum munu án efa auka starfshlutfall sitt, vinna sömu tíma en fá hærri laun sem er vel en ekki er raunhæft að ætla að skref sem þetta muni ekki kosta sitt. Eitt er víst að þeim peningum er vel varið. R14050127

  Frestað.

 56. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Í bréfi við fyrirspurnum Öryrkjabandalags Íslands við merkingum á göngugötum í Reykjavík vantar upplýsingar um hvenær áætlað er að viðeigandi merkingar verði settar upp við göngugötur: Fulltrúi Flokks fólksins spyr: hvenær er áætlað að sérstakt merki sem tilgreinir að P-merktum bílum er heimilt að aka göngugötur verði tilbúið og það komið upp við göngugötur í Reykjavík? R19070069

  Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

 57. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

  Í reglum um styrki og styrkveitingar segir að Reykjavíkurborg áskilji sér rétt til að rifta samningum, afturkalla styrkloforð og/eða krefjast endurgreiðslu ef sannarlega er um forsendubrest eða vanefndir að ræða af hálfu styrkþega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr, hversu mörgum samningum hefur verið rift sl. 3 ár vegna forsendubrestar eða vanefnda af hálfu styrkþega? R21030045

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Fundi slitið klukkan 12:27