Fundur nr. 5608

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 26. nóvember, var haldinn 5608. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 08:09. Eftirtaldir borgarfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn með fjarfundarbúnaði áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason, Valgarður Davíðsson og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist: 
 1. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 23. október 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. október 2020 á tillögu um breytingu á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 16. nóvember 2020. R20100278
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fyrsta heildstæða uppbyggingaráætlun borgarinnar í sértækum búsetuúrræðum var samþykkt í velferðarráði þann 30. maí árið 2017 í kjölfar ítarlegrar þarfagreiningar. Nú er ljóst að staða á biðlistum er misjöfn eftir þjónustuþáttum og því er eðlilegt að breyta gildandi áætlunum til að mæta núverandi þörf. Fulltrúarnir fagna einnig áherslu á stuðning til sjálfstæðrar búsetu og færanleg búsetuteymi. Einnig fagna fulltrúarnir því að fatlað fólk og aðstandendur þeirra treysti í meiri mæli á áreiðanleika stuðningsþjónustu sem gerir fólki kleift að búa sjálfstætt í eigin íbúð með stuðningi, enda er það í samræmi við gildandi stefnumótun borgarinnar og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þegar kemur að sérstæku húsnæði fyrir fatlað fólk þá hefur verið margbrotið á fötluðum einstaklingum í Reykjavík og með því brotið gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði. Tillaga sviðsstjóra um breytingu á uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða er góð eins langt og hún nær. Það eru mikil vonbrigði hversu lítið hefur verið byggt fyrir fólk með fötlun. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur sé kominn langt á fertugsaldur þegar hann fær loksins húsnæði. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu. Nýlega féll úrskurður í úrskurðarnefnd velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Borgin veitir oft misvísandi upplýsingar. Haldnir eru kannski fjöldi funda, símtöl og póstsamskipti. En síðan ekki söguna meir. Það er átakanlegt að sjá að það er verið að byggja út um allt til að mæta þörfum ólíkra hópa en það er ekki hægt að byggja nóg fyrir fatlaða.

  Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, varðandi bætta aðstöðu knattspyrnumála í Grafarvogi, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. Á fundinum misritaðist bókun undir liðnum og er nú lögð fram leiðrétt.  R20110243

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í þessari tillögu er samþykkt að skoðaðir verði með Fjölni og fleiri aðilum valkostir varðandi bætta aðstöðu vegna knattspyrnumála í Grafarvogi. Fyrir liggja hugmyndir félagsins um bætta aðstöðu við Dalhús eða Egilshöll sem nauðsynlegt er að rýna áður en ákvörðun um framhald verður tekin.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 17. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um námskeið bílstjóra hjá Strætó bs., sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020. R20110203

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Við fyrirspurn Flokks fólksins um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma kom fram að þeir sjá sjálfir um lögboðin námskeið atvinnubílstjóra fyrir sína starfsmenn. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að vita hver hefði eftirlit með því að kennslan sé samkvæmt námsskrá og hvort námskrá endurmenntunarnámskeiða sé yfirfarin af löggildum aðilum. Fram kemur í svari að Strætó bs. sé viðurkenndur námskeiðshaldari. Það er álitamál hvort fyrirtækið sjálft eigi að vera með eftirlit með endurmenntuninni. Halda mætti að það væri ekki æskilegt, ef Samgöngustofa samþykkir fyrirkomulagið er svo sem ekki mikið hægt að segja. Reiknað er með að Samgöngustofa hafi eitthvað eftirlit og eftirfylgni með námskeiðunum.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 20. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tilnefningu í starfshóp vegna þjóðarleikvangs fyrir frjálsar íþróttir, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. R15020197

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um hvort undirbúningsvinna fyrir fyrirhugaðan Þjóðarleikvangs í frjálsum íþróttum verði ekki samtvinnuð undirbúningsvinnu knattspyrnuvallar sem einnig á að byggja. Í svari segir að frjálsíþróttavettvangurinn á Laugardalsvelli víki. Um það var svo sem ekki beinlínis spurt. Ekki er ljóst af svari hvort þetta verða tvö aðskilin mál. Af því sem lesa má milli lína er eins og þarna sé um tvö risastór verkefni að ræða sem tengjast ekki neitt.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram svar íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 20. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðræður borgarinnar við Brokey og landfyllingar, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. R20110237

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er fram svar við fyrirspurn Flokks fólksins um viðræður Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaraðstöðu í Fossvogi/nýrri byggð í Skerjafirði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér og spyr hvort það þýði landfyllingar og þá hvort enn eigi að ganga á náttúrulegar fjörur. Fram kemur að verið sé að meta umhverfisáhrif væntanlegrar landfyllingar á lífríkið o.fl. og öll skipulagsvinna er háð niðurstöðu úr því mati. Hér er full ástæð til að ræða enn og aftur landfyllingar að mati fulltrúa Flokks fólksins. Er ekki hægt að gera neitt við ströndina án þess að „landfylla“? Stefnan ætti að vera að forðast landfyllingar eins og kostur er frekar en að hafa þær alltaf sem fyrsta kost. Það þarf ekki alltaf að láta kanna hugsanlegar breytingar á lífríkinu við hverja einstaka framkvæmd. Það verða alltaf breytingar á lífríkinu. Svo mikið er víst. Benda má á að fyrstu bryggjurnar í Skerjafirði voru trébryggju – bryggjur þar sem staurar voru reknir niður í undirlagið og trédekk sett á þá. Það var framkvæmd sem lítil áhrif hafði á lífríkið. Hvernig væri að íhuga alla vega að reyna slíkt í staðinn fyrir landfyllingar?

  Fylgigögn

 6. Lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 23. nóvember 2020, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til styrkþega vegna aflýsingar menningarnætur 2020, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20080056

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þetta mál er merkilegt fyrir margar sakir. Styrkþegum sem fengu úthlutun úr menningarnæturpotti var tilkynnt að ekki yrði greitt til þeirra vegna fyrirhugaðra listviðburða á menningarnótt „vegna COVID-19“. Þegar borgarfulltrúi Miðflokksins lagði inn fyrirspurn um hvernig stæði á því að undirritaðir samningar við listamennina yrðu ekki efndir var fátt um svör en fljótlega eftir framlagningu spurninganna var haft samband við styrkþega og þeim boðið að skrifa undir nýja samninga sem hljóðuðu upp á að listamennirnir fengju 25% af upprunalegri fjárhæð. Líklega voru viðbrögð Reykjavíkurborgar þessi því í gildi var undirritaður gildur samningur um heildarfjárhæðir sem styrkþegar gátu sótt rétt sinn á. Þetta eru kaldar kveðjur til þeirra listamanna sem búið var að velja til að skemmta Reykvíkingum og öðrum landsmönnum sem ætluðu að heimsækja borgina á menningarnótt sérstaklega í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur nú þegar aukið fjármagn til listamanna í borginni vegna ástandsins. Misræmi er í þeim tveimur svörum sem borist hafa því í fyrra svari var fullyrt að 75% af styrkupphæðinni yrði varið til annarra en þeirra sem fengu úthlutun. Nú er þvertekið fyrir það í þessu svari. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Þegar endanlega lá fyrir að ekki yrði hægt að halda menningarnótt vegna hertra samkomutakmarkana var um leið ljóst að ekkert yrði af þeim verkefnum sem hlutu styrk úr menningarnæturpotti Reykjavíkurborgar og Landsbankans. Mikill vilji var hins vegar til þess að koma til móts við styrkþega hátíðarinnar í ljósi þess að einhver undirbúningur hafði þegar átt sér stað. Því var niðurstaða menningar- og ferðamálasviðs og Landsbankans að greiða styrkhöfum 25% af styrkupphæðinni í stað þess að greiða þeim ekki neitt. Hafi einhver styrkhafanna hins vegar lagt út í meiri kostnað en sem nam 25% af styrkupphæðinni skyldi það greitt svo framarlega sem fyrir lægju reikningar og gögn því til staðfestingar. Einn styrkþegi hefur sýnt fram á slíkan útlagðan umfram kostnað og hefur því fengið styrkinn greiddan að fullu. Fullyrðing um misræmi í svörum er byggð á misskilningi. Hugmyndir voru um að halda eftir 75% af menningarnæturpottinum til að nýta í haust en því miður gáfu samkomutakmarkanir ekki færi á slíku og því varð ekkert af þeirri hugmynd.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram svar verkefnastofu Borgarlínu, dags. 18. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skýrslu Mannvits og COWI um borgarlínu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020. R20100398

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Skýrsla Mannvits og COWI um borgarlínununa er gölluð í veigamiklum atriðum. Félagsfræðileg/þjóðhagsleg greining sýnir að núvirði hennar er verulega neikvætt þegar rétt er reiknað. Staðreyndin er sú að framkvæmdin mun hafa mjög neikvætt greiðsluflæði allan tímann. Reiknaður ábati er nær einvörðungu tímasparnaður 4-5% borgarbúa. Allar aðrar fjárfestingar í samgöngumálum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hefur mun meiri félagshagfræðilega/þjóðhagslega arðsemi að núvirði en þessi fyrsti áfangi borgarlínu. Borgarlínan mun taka mikið af framtíðarútsvarstekjum Reykjavíkur um mjög langa framtíð til sín og útgjöld í fjárfestingar og rekstur hennar eru mjög óljós svo ekki sé meira sagt. En líklega helgar sá tilgangur meðalið.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Félagshagfræðileg greining er byggð á alþjóðlegum stöðlum og hefur það margoft komið fram. Er það í samræmi við ábendingar OECD um að forgangsröðun fjárfestinga í innviðum sé ábótavant á Íslandi og gera þurfi átak í þeim efnum. Sú félagshagfræðilega greining sem beitt er á borgarlínuverkefnið fylgir leiðbeiningum Evrópusambandsins og OECD en gerð er krafa um slíkar greiningar ef leitað verður fjármögnunar utan landssteinanna fyrir verkefnið.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 17. nóvember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um þýðingar á vef Reykjavíkurborgar, dags. 5. nóvember 2020. R20110043

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á vef Reykjavíkurborgar má m.a. finna upplýsingar um þjónustu, viðburði á vegum borgarinnar og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Á enskri útgáfu síðunnar er ekki að finna allar þær upplýsingar t.a.m. um stjórnkerfi borgarinnar. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar má sjá laus störf í boði en slíkt er ekki hægt að sjá á enskri útgáfu síðunnar. Ef markmiðið er að auðvelda aðgengi að upplýsingum með tilliti til fleiri tungumála er ljóst að langt er í land. Í upplýsingastefnu borgarinnar sem fylgir með svarinu stendur.: „Opna þarf gögn borgarinnar eins og hægt er til að gefa öllum færi á að rýna þau og nýta sér þau á nýstárlegan hátt sem borgin sér ekki sjálf fyrir eða leggur ekki út í.“ Það er staðreynd að borgarbúar eru ólíkir og ekki allir skilja íslensku eða eru að læra tungumálið og þá er nauðsynlegt að upplýsingar séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Aukið gagnsæi og upplýsingaaðgengi er eitt af stóru verkefnum þessa kjörtímabils. Vefsvæðið reykjavik.is er yfirgripsmikið og inniheldur mikið af efni. Gróflega áætlað eru um 20.000 undirsíður á reykjavik.is. Efnið og texti sem tilheyrir tilteknum sviðum er á ábyrgð efniseiganda sem tengist inn á upplýsingagjöf sviðanna. Sé þess óskað eru útgáfur á fleiri tungumálum settar upp í samráði við vefteymi. Það er sannarlega rými til framfara þegar kemur að þýðingum og algildri hönnun þegar kemur að upplýsingagjöf og stendur það til bóta. Þann 15. janúar sl. var tillaga samþykkt á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og fjölmenningarráðs um umbætur í upplýsingagjöf og aðgengi að upplýsingum á öðrum tungumálum en íslensku á vef Reykjavíkurborgar með sérstökum verkefnastjóra. Vefteymi hefur í kjölfarið nýlokið við ráðningu á sérfræðingi í notendamiðaðri textagerð og þýðingum í það starf sem mun sjá um að koma upp vélþýðingum og þýðingarminni sem mun einfalda fyrir efniseigendum að miðla efni sínu á fleiri tungumálum en íslensku. Samhliða er verið að fækka síðum, einfalda og yfirfara allan texta og heimfæra hann eftir algildum stöðlum sem mun skiptir sköpum fyrir það markmið að hafa upplýsingar aðgengilegar á öðrum tungumálum en íslensku á varanlegan hátt.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Vonandi tekur framkvæmd áætlana ekki jafn langan tíma og framkvæmd tillögunnar sem var fjallað um að ofan. Hér er vísað í tillögu sem kom fram á sameiginlegum fundi þann 15. janúar.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Eftir samþykkt tillögunnar 15. janúar tók við fordæmalaust ástand vegna COVID-19 þar sem vænn hluti þeirra 9.000 starfsmanna sem vinnur hjá Reykjavíkurborg fór í heimavinnu. Það hafði skiljanlega umfangsmikil áhrif á þjónustu- og nýsköpunarsvið sem ber ábyrgð á tækniinniviðum og fjarfundarbúnaði borgarinnar. Í ljósi þessa voru flest önnur verkefni sviðsins sett til hliðar en var verkefnið tekið upp í sumar og hefur nú verið ráðið í starfið.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 16. nóvember 2020. R20010023

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar: 

  Loksins á nú að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætó biðstöðvar vegna aðgengismála. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum þar sem aðgengi og yfirborð á 556 stöðum er ekki í lagi. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað. Aðgengi og yfirborðsvandi – slæmt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Eiginlega er, samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, aðgengi hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma sem það tekur að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi. Flokkur fólksins telur jafnframt að stórauka og bæta þurfi hjólastólaaðgengi víðs vegar um borgina þar sem aðgengi er annað hvort ekki til staðar eða ábótavant. Ný aðgengisnefnd tók til starfa en því miður var ekki nógu skýrt hvernig og hvort verið væri að berjast fyrir fatlaða við að koma þeirra baráttumálum í gegn.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 16. nóvember 2020. R20010018

  Fylgigögn

 11. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 19. nóvember 2020. R20060037

  Fylgigögn

 12. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 18. nóvember 2020. R20010024

  Fylgigögn

 13. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkur frá 18. og 23. nóvember 2020. R20110027

  Fylgigögn

 14. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 16. nóvember 2020. R20010021

  Fylgigögn

 15. Lögð fram fundargerð samstarfshóps miðborgarmála frá 18. nóvember 2020. R20100323

  Fylgigögn

 16. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 22. október 2020. R20010013

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í fundargerð SORPU bs. er dagsrárliður sem hljóðar svo: „3. [TRÚNAÐARMÁL]“ og engar frekari skýringar eru undir þeim lið. Hvað er það sem þolir ekki dagsljósið? Hvað er verið að fela?

  Fylgigögn

 17. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. R20110031

  Fylgigögn

 18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20110035

  Fylgigögn

 19. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2020 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. nóvember 2020, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2020. R20110298
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Efnahagsáfallið sem gengur yfir heimsbyggðina sökum heimsfaraldurs kórónuveiru er farið að birtast í rekstri borgarsjóðs og samstæðu Reykjavíkurborgar. Tekjur minnka og útgjöld aukast. Veiking krónunnar hefur umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu og álverð hefur lækkað með neikvæðum áhrifum á álafleiðu Orkuveitu. Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk SORPU bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Mikil óvissa er um hversu lengi ástandið varir og hvenær megi ætla að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur af fullum krafti og því erfitt að meta áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar með áreiðanlegum hætti til framtíðar. Græna planið er viðspyrnuáætlun Reykjavíkur og gerir ráð fyrir umfangsmiklum grænum fjárfestingum sem hluta af leið borgarinnar út úr kreppunni. Um leið hafa fréttir um þróun bóluefnis gefið tilefni til bjartsýni á að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á næsta ári.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Skuldir Reykjavíkurborgar jukust verulega í góðærinu síðustu árin og var vaxtarskeiðið ekki nýtt til að greiða niður lán eins og lofað var í meirihlutasáttmála. Borgin er því vanbúnari að takast á við niðursveifluna en ella væri. Tekjur hækka milli ára en gjöldin mun meira. Tap er því á rekstri borgarinnar og er niðurstaðan 12,2 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í áætlun. Ef ekki væri fyrir matsbreytingu á félagslegu húsnæði upp á 3.733 milljónir væri tapið enn meira. Ljóst er af uppgjörinu að fjárfestingar ársins eru fjármagnaðar með lántökum og nálgast skuldir og skuldbindingar borgarinnar fjögur hundruð milljarða króna.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Skuldahlutfall borgarsjóðs er mun lægra en í flestum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Það er því af og frá að borgin sé ekki viðbúin að takast á við efnahagsáfall af þessu tagi.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Staða Reykjavíkurborgar fer sífellt versnandi. Veltufé frá rekstri er í sögulegu lágmarki, skuldir hafa aukist um 6 milljarða á árinu og mikill tekjusamdráttur hefur orðið. Rekstur Reykjavíkurborgar er löngu orðinn ósjálfbær.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgin var vanbúin að taka við COVID áfallinu. Fyrir COVID voru einnig ólguský á lofti í málefnum sem sneru að grunnþjónustu við fólk. Í stað þess að greiða niður skuldir í góðæri jók borgin skuldir. Allar tölur eru neikvæðar nú. Tekjusamdráttur, þróun rekstrartekna, rekstrargjöld eru lægri en gert var ráð fyrir. Hreinar skuldir jukust um 25 milljarða frá áramótum. Engar áætlanir hafa staðist og erfitt er að spá fyrir um framhaldið. Spyrja má hvort þau markmið sem sett eru fram séu raunhæf? Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á loforðin í meirihlutasáttmálanum og það lögbundna hlutverk að gæta að velferð borgarbúa ávallt og ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru.

  Halldóra Káradóttir, Gísli H. Guðmundsson, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Lárus Finnbogason og Hallur Símonarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 20. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands: 

  Hvað er átt við þegar talað er um „raddtón stafræna hönnunarkerfis borgarinnar“? Hér er sérstaklega spurt út í hvað „raddtónn“ þýðir í þessu samhengi en það kom fram í svari við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands um þýðingar á vef borgarinnar. Er átt við þýðingar þar sem tölvan les upp þýðinguna? R20110043

  Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

  -    Kl. 9:00 tekur Ólöf Magnúsdóttir sæti á fundinum, Ebba Schram og Bjarni Þóroddsson víkja af fundi.

 21. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins: 

  Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar muni kosta Reykjavíkurborg á árinu 2021 tæmandi talið eftir sviðum borgarinnar? R14050127
  Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 22. Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021, ásamt greinargerð og starfsáætlunum. Einnig er lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs vegna trúnaðar á framlögðum gögnum, dags. 26. nóvember 2020. R20010203
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 23. Lagt  fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025, ásamt greinargerð. R20010203
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 24. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, ásamt tillögu að fjármálastefnu og fjárfestingastefnu Reykjavíkurborgar. Greinargerð fylgir tillögunni. R20110297
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 25. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarstjóra, dags. 25. nóvember 2020, varðandi græna planið – sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 ásamt fylgigögnum. R20060016
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 26. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2021. 
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20110295
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 27. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2021. 
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20110296
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 28. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um gjalddagaskiptingu fasteignagjalda fyrir árið 2021. 
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20110296
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 29. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyris árið 2021.
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20110296
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 30. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021.
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 31. Lögð fram trúnaðarmerkt tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2020, um lántökur á árinu 2021.
  Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203
  Frestað.

  Gögn undir þessum lið eru bundin trúnaði þar til borgarstjóri hefur með formlegum hætti gert fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun opinberar við framlagningu þeirra í borgarstjórn þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 13:00, sbr. bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 26. nóvember 2020.

 32. Fram fer kynning fjármála- og áhættustýringarsviðs á frumvarpi að fjárhagsáætlun 2021 og frumvarpi að fimm ára áætlun 2021-2025. Kynnt er fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar og starfs- og fjárhagsáætlanir velferðarsviðs, menningar- og ferðamálasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs, miðlægrar stjórnsýslu, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, þjónustu og nýsköpunarsviðs, eignasjóðs, umhverfis- og skipulagssviðs, fjármála- og áhættustýringarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

  Halldóra Káradóttir, Guðlaug S. Sigurðardóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Hallur Símonarson, Anna Karen Arnarsdóttir, Fjóla Hreinsdóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Daði Geir Hreinsson, Gísli Hlíðberg, Regína Ásvaldsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Hjálmar Sveinsson, Arna Schram, Huld Ingimarsdóttir, Ómar Einarsson, Steinþór Einarsson, Anders Bögebjerg Andreasen, Sigurður Páll Óskarsson, Anna Kristinsdóttir, Óskar J. Sandholt, Óli Jón Hertervig, Ámundi Brynjólfsson, Ólöf Örvarsdóttir, Glóey Helgudóttir, Finnsdóttir, Hreinn Ólafsson, Pawel Bartoszek og Lóa Birna Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. R20010203

Fundi slitið klukkan 15:50