Fundur nr. 5604

Borgarráð

Ár 2020, fimmtudaginn 29. október, var haldinn 5604. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 09:00. Eftirtaldir borgarfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn með fjarfundarbúnaði áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Þorsteinn Gunnarsson, Ebba Schram, Pétur Ólafsson, Ívar Vincent Smárason og Ólöf Magnúsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram tillaga borgarritara, dags. 26. október 2020, um úthlutun úr Miðborgarsjóði 2020, ásamt fylgiskjölum. R20100041
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fjöldi verkefna fá nú úthlutað úr Miðborgarsjóði. Meðal þeirra má nefna jólamarkað, reddingakaffi, aðventu á Skólavörðustíg, Riff bílabíó, Miðborgargöngu og Smart Reykjavík Street Hub. Fjöldi umsókna barst og er það til marks um mikla grósku í menningarlífi miðborgarinnar.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á gagnsæi við útdeilingu styrkja og reglur um úthlutun séu skýrar. Það er mikilvægt að borgin hafi samræmt styrkjakerfi svo hægt sé hafa yfirsýn yfir hvaða forsendur liggi til grundvallar því að ákveðin verkefni séu valin og önnur ekki. 

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Að deila út takmörkuðu fjármagni úr „pottum“ handvirkt er vandasamt. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur gagnrýnt slíkt fyrirkomulag frá upphafi. Mikil hætta er á spillingu og vinavæðingu í slíku fyrirkomulagi. Reglurnar eru mjög óskýrar og óljósar. Það á að leggja þetta fyrirkomulag af strax.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. október 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. október 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Örfirisey–Vesturhöfn, Línbergsreitur, vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og nr. 39-93 við Grandagarð, ásamt fylgiskjölum. R20060269
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Enn eru engar íbúðir leyfðar í Örfirisey, þrátt fyrir að kjöraðstæður séu til staðar hvað varðar verslun og þjónustu sem væri þá í göngufæri fyrir íbúa. Betra jafnvægi í umferð næst með því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vestri. Hér er verið að fara í aðra átt. Þá er mikilvægt að framfylgja þeirri stefnumörkun borgarráðs að minnka umfang olíubirgðastöðvarinnar um helming fyrir 2025.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þeirri uppbyggingu sem hér er kynnt er fagnað, en borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir miklum áhyggjum af því andvaraleysi sem virðist ríkja gagnvart olíutönkunum í Örfirisey. Þeir eru tifandi tímasprengja. Sífellt er verið að færa byggðina nær tönkunum/hættusvæðinu og öllum má vera ljóst hvað gerist ef eldur verður laus og/eða eitthvert óhapp verður sem leiðir til þess að tankarnir springa í loft upp. Í leiðinni er rétt að geta þess að sömu áhyggjum er lýst yfir vegna gríðarlegra olíuflutninga frá svæðinu á þröngum götum Reykjavíkur og þá sérstaklega í gegnum þrönga Geirsgötu og sífellt er verið að þrengja götur og aðgengi bíla í gegnum miðbæinn. Það er látið eins og þessi hætta sé ekki til staðar og hún er aldrei rædd. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi en varpar ljósi á að rýmingaráætlun fyrir Reykjavík vestan Elliðaáa er í algjöru skötulíki.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. október 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. október 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R20040125
  Samþykkt. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. október 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 21. október 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðar nr. 2 við Rökkvatjörn, ásamt fylgiskjölum. R20100264
  Samþykkt. 

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum vegna áætlaðra framkvæmda á árinu 2021, ásamt fylgiskjölum. Áætlaður heildarkostnaður er 550 m.kr. R20100188
  Samþykkt.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Heildarkostnaður við LED-væðingu næsta árs er 550 mkr. Helstu verkefni ársins 2021 eru: Vesturbær, kaup og uppsetning á 773 lömpum; Grafarvogur: kaup og uppsetning á 2664 lömpum; Norðlingaholt: kaup og uppsetning á 236 lömpum; safngötur innan hverfa: kaup til þriggja ára og uppsetning að hluta á 5600 lömpum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Minnt er á tillögu frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tímalengd götulýsingar úr skipulags- og samgönguráði sem lögð var fram í janúar 2019. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu framkvæmda og viðhalds en engin umsögn hefur borist. Nauðsynlegt er að bætt verði við tímalengd götulýsingar í Reykjavík. Árið 2015 var hún stytt. Vegna LED-væðingar götulýsingar er kostnaður við það að lengja tíma götulýsingar kvölds og morgna óverulegur og því aftur hægt að bæta við þann tíma sem kveikt er á lýsingu. Góð götulýsing er öryggisatriði bæði fyrir gangandi, hjólandi og þá sem akandi eru.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum vegna áætlaðra framkvæmda á árinu 2021. Þetta er löngu tímabært, þótt fyrr hefði verið. Lýsing og ljósaskilti hafa almennt séð mikil áhrif á útlit borga. Það er löngu tímabært að móta stefnu um þessi mál þar sem LED-lýsingar munu verða ríkjandi á næstu árum og þar með verða breytingar á skiltum. Með LED-tækninni opnast nýir möguleikar. Mikilvægt er að settar verði skýrar og almennar reglur um lýsingu t.d. sem snýr að skiltum á stofnvegum en einnig þar sem verslunarkjarnar eru inn í íbúðahverfum. Sterk lýsing ljósaskilta verslana getur auðveldlega teygt sig inn í stofu hjá fólki með tilheyrandi ama. Sem betur fer er sveigjanleiki LED-lýsinga mikill og með þeirri tækni er færi á að fegra umhverfið, en ekki spilla því. Þetta er sannarlega pólitískt borgarmál, en ekki mál sérhvers söluaðila, hagsmunasamtaka eða verslunareigenda.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 60 m.kr. R20100263
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Því ber að fagna og samhliða er þess vænst að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Til upprifjunar þá var konum úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er um lýðheilsumál að ræða. Að jafnrétti kynja var ekki gætt við hönnun og eru þessar breytingar varla í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum. Mannréttindastjóri hefur hafnað því og segir að „áður hafi konur ekki notið sömu þjónustu og karlar og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir en nú uppfylli Sundhöllin mannréttindastefnu borgarinnar“.Fátt af þessu stenst reyndar. Hver var t.d. sú þjónusta sem karlar nutu í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig? Staðan er bagaleg nú fyrir konur ekki síst á vetrum því leiðin frá kvennaklefum í nýbyggingu og inn í Sundhöll er löng og köld fyrir konur, ungar sem aldnar, verandi í blautum sundbolum í alls konar veðrum.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 26. október 2020, varðandi lóðarvilyrði til Sjálfseignarstofnunar Kvennaathvarfsins. R20100257
  Samþykkt.

  Bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 8. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við kaupsamning vegna Hallgerðargötu 1, ásamt fylgiskjölum. R20100178
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig og Ívar Örn Ívarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning vegna Kleppsvegar 58, ásamt fylgiskjölum. R20100256
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. október 2020, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki kaup á húsnæði Vörðuskóla að Barónsstíg 34, sbr. meðfylgjandi bréf skrifstofustjóra eignaskrifstofu til borgarráðs, dags. 11. október sl. Skóla- og frístundasviði verði falið að gera tillögu að safnskóla á unglingastigi í samráði við nærliggjandi skóla, með hliðsjón af spám um þróun nemendafjölda til skemmri og lengri tíma og framtíðarsýn um spennandi skólastarf í nýrri menntastefnu borgarinnar. Nemendaspár og tímaáætlanir verði unnar með aðkomu umhverfis- og skipulagssviðs. R20090156

  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í þeim tilgangi að byggja upp safnskóla á unglingastigi í ljósi fjölgunar íbúa til framtíðar í hverfum í kringum Vörðuskóla er lagt til að borgin kaupi hlut ríkisins í þessu mikilvæga mannvirki. Vörðuskóli stendur við Barónsstíg og er við hlið Austurbæjarskóla. Hann er teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og lauk smíði hans árið 1949.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þetta eru frábærar fréttir í alla staði. Sameiginlegt eignarhald húsa hjá ríki og borg hefur ekki gefist vel sbr. Harpa. Byggingin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins og var fullbyggð í kringum 1949. Ljóst er að leggja þarf mikla fjármuni í breytingar og viðhald á húsinu. Vonast er til að útboðsmál og framkvæmdir verði faglegar og þær innan fjárhagsramma.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar-ágúst 2020, dags. 29. október 2020. R20010095

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

 12. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 27. október 2020, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2020, ásamt fylgiskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni. R20010161
  Vísað til borgarstjórnar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fjárhagsleg staða borgarinnar er slæm og aðeins að hluta til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru COVID-19. Áður en veiran kom voru tekjur af sölu byggingarréttar langt undir áætlun. Á sama tíma og notendum þjónustu fjölgar og mun fleiri þurfa nú fjárhagsaðstoð er sviðum sem sinna grunnþjónustu gert að hagræða og gjaldskrár eru hækkaðar. Stefna borgarinnar í peningamálum er stundum í þversögn. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að meirihlutinn nýti sér COVID-19 sem skjól. Fjárhagsstaða borgarinnar fyrir COVID fellur í skuggann á stöðunni sem komin er vegna COVID. Eðli málsins samkvæmt eru minni umsvif í efnahagslífinu. Fyrir faraldurinn var skuldaaukning mikil og nú er þörf á enn frekari lántökum til að fjármagna fjárfestingar. Huga þarf að velferðarsviðinu sérstaklega, þar er þungur rekstur sem ætti ekki að koma á óvart nú. Engu að síður er gerð krafa um hagræðingu. Hópurinn sem þarf fjárhagsaðstoð hefur stækkað og er nú einnig breiðari. Hann mun halda áfram að stækka enn meira með auknu atvinnuleysi.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, þar sem lögð er fram endurskoðuð tímaáætlun fyrir frágang, kynningu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2021-2025. Einnig lagt fram uppfært fundadagatal borgarráðs fyrir árið 2020. R18080150
  Samþykkt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af þessari tímaáætlun og breytingum á fundadagatali aðallega vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið annar ekki að kostnaðarmeta breytingartillögur fulltrúa minnihlutans sem hyggjast leggja slíkar tillögur fram. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til 28. maí 2020 að skilgreint yrði ákveðið starfshlutfall t.d. eins starfsmanns fjármálaskrifstofu til að reikna út þær tillögur sem minnihlutafulltrúar óskuðu eftir að yrðu kostnaðarmetnar og einfaldlega sinna betur minnihlutafulltrúum. Tillögunni var vísað frá. Í þau skipti sem fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir kostnaðarmati og látið jafnvel fylgja að gróft mat dugi, líður oft langur tími áður en nokkuð svar berst. Þetta segir vissulega ekkert annað en það að það er mikið álag á starfsmönnum fjármálasviðsins. En kannski má einnig álykta að tillögur og breytingatillögur minnihlutafulltrúa eru ekki settar í neinn sérstakan forgang nema síður sé. Að hafa hugmynd um kostnað tillögunnar getur skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld eins og oftast gerist. Ef stjórnkerfi borgarinnar á að vera heilbrigt og eðlilegt þarf að gera á þessu bragarbót. Almennt er hvatt til þess að mál minnihlutafulltrúa séu móttekin með jákvæðari hætti af meirihlutanum, í það minnsta að þau fengju oftar skoðun.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 26. október 2020, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. október á tillögu um þjónustusamning við Alanó samtökin, ásamt fylgiskjölum. R20080029
  Samþykkt með þeirri breytingu að samningurinn gildi frá 1. nóvember 2020 fram til 31. desember 2022.

  Regína Ásvaldsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 26. október 2020, þar sem uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar. R20090022

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er nú lögð fram í sjötta sinn en hún var fyrst lögð fram árið 2017. Húsnæðisáætlun er greining á stöðu húsnæðismála með yfirlitum yfir aðgerðir borgarinnar í málaflokknum. Markmiðið með húsnæðisáætlun er að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu á minnst 1.000 nýjum íbúðum á ári að meðaltali. Þar af er gert ráð fyrir að byggja um 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Það markverðasta í húsnæðisáætlun að þesu sinni er samspil Græna plansins og húsnæðisáætlunar þar sem í undirbúningi er þróunarverkefni um grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar á 5-7 svæðum í borginni sem er til samþykktar á þessum fundi. Í heild gerir húsnæðisáætlun ráð fyrir byggingu 24.000 íbúða í Reykjavík. Húsnæðisáætlun gerir áfram ráð fyrir umfangsmikilli þéttingu byggðar sem stuðlar að sjálfbærni hverfa og sjálfbærni borgarinnar. Ártúnshöfði er stærsta uppbyggingarsvæðið á næstu árum en þar er gert ráð fyrir að verði fyrsta heildstæða græna borgarhverfi Reykjavíkur samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Í Ártúnshöfða er gert ráð fyrir 6.000 íbúðum. Laugardalshverfi, Háaleiti-Bústaðir og Vatnsmýri koma þar á eftir sem stærstu byggingarsvæði borgarinnar. Húsnæðisáætlun fangar markmið aðalskipulags, markmið loftslagsáætlunar, hjólreiðaáætlunar og Græna plansins. Húsnæðisáætlun verður lögð fram í borgarstjórn næstkomandi þriðjudag.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Sterkar vísbendingar eru um að minna sé af húsnæði í byggingu en þörf er fyrir bæði samkvæmt gögnum borgarinnar sjálfrar og markaðsaðila. Sem dæmi má nefna að eingöngu 443 íbúðir eru skráðar á fokheldisstigi samkvæmt byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar en borgin telur sjálf að þörf sé fyrir að minnsta kosti 1.000 íbúðir á ári. Það markmið hefur eingöngu einu sinni náðst á síðustu sex árum. Innan við 40% íbúða á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 6 árum eru í Reykjavík. Skortur á húsnæði hefur leitt til hækkandi húsnæðisverðs sem ekki sér fyrir endann á. Að mati Samtaka iðnaðarins eru nýbyggðar íbúðir í Reykjavík of dýrar til að uppfylla skilyrði hlutdeildarlána ríkisins sem bendir til þess að hagstæð byggingarsvæði skorti í borginni. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Húsnæðisáætlun uppfærð er lögð fram. Það hafa ekki allir borgarbúar öruggt húsnæði eins stefnan kveður á um. Ekki er nægjanlega mikið af almennu sannarlega hagkvæmu húsnæði. Sé skortur á hagkvæmu húsnæði aukast líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými taka varla biðlistann sem nú er. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins rétt rúmlega 100 íbúðir. Þétting er víða ansi mikil. Að stafla eins mörgum á eins lítinn blett og hægt er er varla fýsilegt. Fylla á fjörur til að koma enn fleirum fyrir eins og t.d. í Skerjafirði. Enn eru þeir til sem óska eftir lóðum til að byggja sitt eigið hús eða óska eftir einbýlum í nýjum hverfum eins og í Úlfarsárdal. Ekki er mikið framboð af slíku. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík og atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum bara lítið sem ekkert.

  Svavar Jósefsson, Óli Jón Hertervig og Óli Örn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  -    Kl. 11:00 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir víkur sæti.

  Fylgigögn

 16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. október 2020:

  Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að leiða nýtt þróunarverkefni um grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið og eignaskrifstofu fjármála- og áhættustýringasviðs. Boðin verða fram 5-7 svæði í borginni þar sem kallað verði eftir hugmyndum að vistvænni uppbyggingu sem meðal annars feli í sér uppbyggingu 50-150 íbúða á hverjum reit. Markmiðið er að stuðla að þróun á nýjungum og framúrskarandi lausnum og framkvæmdum út frá loftslagsmálum, umhverfisþáttum og grænum áherslum aðalskipulags, loftslagsáætlunar Reykjavíkurborgar og Græna plansins.

  Greinargerð fylgir tillögunni. R20100296
  Samþykkt. 
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að samþykkja nýtt og spennandi þróunarverkefni um grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar. Boðin verða fram 5-7 svæði í borginni þar sem kallað verður eftir hugmyndum að vistvænni uppbyggingu sem meðal annars feli í sér uppbyggingu 50-150 íbúða á hverjum reit. Markmiðið er að stuðla að þróun á nýjungum og framúrskarandi lausnum og framkvæmdum út frá loftslagsmálum, umhverfisþáttum og grænum áherslum aðalskipulags, loftslagsáætlunar Reykjavíkurborgar og Græna plansins. Reykjavík er þannig að taka forystu í nýsköpun á grænu húsnæði, grænum uppbyggingarsvæðum og grænum hverfum sem mun stuðla að sjálfbærni borgarinnar til framtíðar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar. Þetta hljómar vel nema hugmyndin um aukna byggð í Skerjafirði og það á kostnað fjara. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Væri ekki nær að bíða eftir því að flugvöllurinn fari? Í þessu er því mikil þversögn því með þessu græna íbúðarhúsnæðissvæði á að horfa til að íbúar geti notið nábýlis grænna svæða og útivistarsvæða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um af hverju þessi meirihluti getur ekki látið fjörur í friði. Það vantar ekki land. Haldið er áfram að troða á kostnað bæði grænna svæða og útivistarsvæða. Einnig á að fylla fjörur í Ártúnshöfða þar sem byggja á 900 íbúðir. Svo mikið fyrir hina „grænu áherslu“ meirihlutans!

  Svavar Jósefsson, Óli Jón Hertervig og Óli Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 17. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf innri endurskoðunar, dags. 19. október 2020, varðandi rannsóknarskýrslu innri endurskoðunar, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R20100194

  Hallur Símonarson, Óskar J. Sandholt, Jenný Stefanía Jensdóttir, Dagbjört Hákonardóttir og Lárus Finnbogason taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

 18. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4147/2019. R19090042

 19. Lagt til að Diljá Ámundadóttir Zoëga og Geir Finnsson taki sæti sem varafulltrúar Reykjavíkurborgar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í stað Gunnlaugs Braga Björnssonar og Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur. R18060038
  Samþykkt.

 20. Lagt fram svar Strætó bs., dags. 28. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýja fargjaldastefnu Strætó, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019. R19070163
  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Segir í svari að vinnan við mótun nýrrar fargjaldastefnu sé enn í gangi. Í því sambandi má undirstrika að stakt fargjald með strætó er einfaldlega allt of hátt. Svo hátt að það fælir þá frá sem myndu vilja nýta sér strætó endrum og sinnum. Stök ferð kostar tæpar 500 krónur. Það væri mikil bót í máli ef hægt væri að kaupa sem dæmi strætókort sem hefur ótakmarkaðan gildistíma. Það hentar vel fólki sem þarf og vill nota strætó en ekki með reglubundnum hætti. Þessari hugmynd Flokks fólksins og fleiri var vísað til stjórnar Strætó. Margt er hægt að gera til að laða fólk að frekari notkun strætisvagna t.d. með því að bjóða upp á ódýr kynningarkort til að fólk kynnist kerfinu. Það þurfa að vera fleiri möguleikar í fargjöldum, jafnvel fríar ferðir utan álagstíma. Finna ætti fjölbreyttar leiðir til að bæta ímyndina og virkja þjónustustefnu betur. Einnig myndi það laða að ef hundar væru ávallt velkomnir um borð í vagnana.

  Fylgigögn

 21. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks varðandi göngugötur og akstursþjónustu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. R20070141

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. hvort nefndin hafi beitt sér varðandi 10. gr. laga frá 1. janúar 2020 sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði. Í svari kemur fram að nefndin fékk ekki umferðarlögin til umsagnar, en átti umræðu um málið á einum af fundi sínum. En hvað kom út úr þeirri umræðu kemur ekki fram og hver er þá afstaða nefndarinnar til 10. greinarinnar. Eins og vitað er hafa skipulagsyfirvöld fundið þessari heimild allt til foráttu og til að fá Alþingi til að endurskoða hana var sent minnisblað frá skipulagsyfirvöldum borgarinnar 3. apríl sl. til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Óskað var eftir að fá orðalagi 10. gr. breytt svo skipulagsyfirvöld borgarinnar geti afmáð heimildina. Enn er beðið viðbragða þingsins við minnisblaðinu. En lögin eru skýr. Handhafar stæðiskorta mega aka um göngugötu. Hér er um áralanga baráttu handhafa stæðiskorta að ræða sem loksins skilaði árangri og þetta vill borgarmeirihlutinn eyðilegga fyrir þeim. Þegar um er að ræða mannmarga stórviðburði í miðbænum segir það sig sjálft að vélknúið ökutæki ekur ekki göngugötu nema í neyðartilvikum. Á göngugötu má auk þess aldrei aka hraðar en 10 km á klst.

  Fylgigögn

 22. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. október 2020, ásamt fylgiskjölum, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um langtímaskuldir vegna hjúkrunarheimilisins á Sléttuvegi, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020. R20080091

  Fylgigögn

 23. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um útsvarstekjur og fasteignatekjur Reykjavíkur eftir póstnúmerum frá 2015-2019, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2020. R20010222

  Fylgigögn

 24. Lagðar fram fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 1. og 13. október 2020. R20010023

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar frá 1. október 2020: 

  Í lið 5 eru lögð fram drög mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð aðgengis- og samráðsnefndar á málum sem snúa m.a. að göngugötum í Reykjavík og akstursþjónustu fatlaðs fólks. Ein af spurningum Flokks fólksins var: hvernig hefur aðgengis- og samráðsnefndin beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Í svari segir að nefndin hafi sent ábendingar um merkingar P-stæða þar sem vitað hefur verið til að þeim sé ábótavant en það hafi aðeins átt við einstök svæði. Ekkert er minnst á í svari þann þátt sem snýr að skiltum og merkingum við göngugötur. Er verið að segja með þessu að nefndin hafi eingöngu sent inn ábendingar um merkingu sjálfra bílastæðanna á göngugötunum en ekki beitt sér neitt fyrir að skilti og merkingar við göngugötur séu samkvæmt lögum?

  Fylgigögn

 25. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 5. og 14. október 2020. R20010018

  Fylgigögn

 26. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 19. október 2020. R20010020

  Fylgigögn

 27. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 15. október 2020. R20060037

  Fylgigögn

 28. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 13. október 2020. R20010024

  Fylgigögn

 29. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 19. október 2020. R20010026

  Fylgigögn

 30. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 7. október 2020. R20010027

  Fylgigögn

 31. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. október 2020. R20010029

  Fylgigögn

 32. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 21. október 2020. R20010032

  Fylgigögn

 33. Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 19. nóvember 2020. R20010021

  Fylgigögn

 34. Lögð fram fundargerð samstarfshóps miðborgarmála frá 13. október 2020. R20100323

  Fylgigögn

 35. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 14. október 2020. R20010016

  Fylgigögn

 36. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. október 2020. R20010013

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það vekur athygli að sérstaklega er bókað að ekki sé rætt um önnur mál þegar að fullt tilefni var að ræða um endurvinnslu plasts og brotalamir í því ferli eins og fram hefur komið í fjölmiðlum í mánuðinum.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Athygli er vakin á því að umfjöllun Stundarinnar var birt 23. október en fundargerðin sem er lögð fram í borgarráði er frá 9. október. Nú er stjórn SORPU fjölhæf og fá málefni henni óviðkomandi en ekki býr hún svo vel að eiga tímavél til að ferðast í framtíðina til að geta sett efnisumfjallanir einstaka fjölmiðla á dagskrá fundar áður en þær birtast í þessum sömu fjölmiðlum.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Almenningur greiðir gjald vegna plasts sem á að nota í endurvinnslu. Misbrestur hefur verið á því og hefur komið í ljós að SORPA hefur sent efni til annarra landa þar sem því hefur verið fargað í stað þess að vera endurunnið. Af gagnbókun meirihlutans má ætla að stjórn SORPU hafi ekki vitað af þessu verklagi og ekki vitað af væntanlegri afhjúpun málsins í fjölmiðlum. Því er rétt að fá frekari upplýsingar um málið í fyrirspurn hér í borgarráði.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Stjórn SORPU er vel kunnugt um útflutning plasts til orkuendurvinnslu. Aðeins 30% af því plasti sem kemur til endurvinnslustöðvanna og 50% af því sem kemur úr plastsöfnun við heimilin er hægt að endurvinna. Annað er sent erlendis til orkuvinnslu. Þetta plast er hins vegar barabrot af því plasti sem er í umferð því t.d. 2019 komu ca. 15.000 tonn af plasti í urðun frá rekstraraðilum og ljóst að hægt er að gera mikið betur í þeim efnum. Það er sjálfsagt að upplýsa fólk og borgarfulltrúa um feril plasts og þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru á Íslandi og hjá sveitarfélögum til að endurvinna og endurnýta meira og innleiða hringrásarhagkerfið og er SORPA bs. að undirbúa að slíkt verði gert.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Í umfjöllun Stundarinnar kemur skýrt fram að SORPA var ekki bara upplýst um væntanlega umfjöllun, heldur beinlínis að svara fyrirspurnum fjölmiðilsins vegna málsins. Það hefði verið eðlilegt fyrir stjórn SORPU að ræða þetta mál og taka á því sem aflaga kann að hafa farið. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fundargerðir SORPU eru að verða æ rýrari í samanburði við aðrar fundargerðir svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er sífellt að verða knappari. Hér er dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins er ætlað að vita eftir þennan fund. Þetta er ekki nógu gott. Minnumst þess að SORPA hefur verið í verulegum rekstrarlegum vandræðum tilkomnum m.a. vegna alvarlegra mistaka í fjármálum. Ráðgjafarfyrirtækið Strategía var ráðið í vinnu til að skoða leiðir til að bjóða eigendum og minnihlutafulltrúum ríkari aðkomu að fyrirtækinu m.a. með bættri upplýsingagjöf. Sú vinna kostaði 28 milljónir. Lítið virðist hafa skilað sér til stjórnar SORPU. Eigendum og minnihlutafulltrúum er haldið út í kuldanum alla vega þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir eru einmitt tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, einhver viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum.

  Fylgigögn

 37. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 32 mál. R20090219

  Fylgigögn

 38. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R20090220

  -    Kl. 13:00 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum.

  Fylgigögn

 39. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa óskað eftir að fá aðgang að öllum fundargerðum neyðarstjórnar Reykjavíkur. Þess er óskað að eftirleiðis verði fundargerðir frá fundum neyðarstjórnar lagðar fram í borgarráði. R20100395

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarrstjóra og borgarritara.

 40. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Inn um lúgur borgarbúa eru að berast litprentaður bæklingur útgefinn af Reykjavíkurborg upp á 64 bls. um Græna plan borgarinnar og fasteignaþróunarverkefni. Borgarstjóri lætur sér ekki nægja að upplýsa borgarbúa, heldur sendir hann bæklinginn í nágrannasveitarfélög Reykjavíkurborgar. Þetta er bruðl að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Vakin er athygli á því að borgin hefur nýlega farið í átak til að hvetja íbúa til að sniðganga pappírsbæklinga en borgin fer sjálf gegn eigin hvatningu með því að dreifa pappír inn um allar lúgur óumbeðin. Augljóst er að Reykjavíkurborg er komin langt út fyrir hlutverk sitt en það er ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að auglýsa Græna planið, sem ekki er búið að samþykkja, og fasteignaverkefni á kostnað útsvarsgreiðenda. Í þessu samhengi mætti velta fyrir sér af hverju þeir sem eru að selja eldri fasteignir fái þá ekki sambærilega auglýsingu frá útsvarsgreiðendum. Þá hafa birst auglýsingar í fjölmiðlum vegna sama máls. Óskað er upplýsinga um hvar og hvenær ákvörðun um útgáfu þessa bæklings og auglýsinga var tekin. Hvaða fjárheimildir hafi legið fyrir ákvörðuninni? Fór gerð bæklingsins og dreifing í útboð? Hvað kostaði hönnun, prentun og dreifing bæklingsins? Hver var heildarkostnaður við vinnslu blaðsins og auglýsinga og í hverju fólst hann? R20100404

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 41. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hvert er heildarmagn plasts sem sent hefur verið frá SORPU til endurvinnslu erlendis frá árinu 2014-2020? Þá er óskað eftir upplýsingum um hversu lengi stjórn SORPU hefur haft vitneskju um að plastið hafi ekki verið endurunnið. Hvað hyggst stjórn SORPU bregðast við málinu og eru uppi áform um að leiðrétta tölur yfir endurvinnslu og endurnýtingu hjá Reykjavíkurborg í ljósi þessara upplýsinga? R20100408

  Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.

 42. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hver er staðan á tillögu Sósíalistaflokks Íslands sem var lögð fram þann 16. apríl, um að laun borgarfulltrúa og 1. varaborgarfulltrúa myndu ekki taka hækkunum? Grunnlaun borgarfulltrúa og 1. varaborgarfulltrúa hafa tekið mið af þróun launavísitölu og tillagan var sett fram með það að markmiði að fyrirbyggja að launahækkanir yrðu að veruleika í þeirri efnahagslegU stöðu sem við búum nú við. Grunnlaunin miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Þegar tillagan var lögð fram voru grunnlaunin 773.464 þúsund krónur en hafa svo hækkað og eru nú 813.094 krónur. Grunnlaun 1. varaborgarfulltrúa eru 569.166 þúsund krónur og ofan á grunnlaunin geta lagst álagsgreiðslur sem taka mið af upphæð grunnlauna. Á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir og samfélagið tekst á við efnahagslegar afleiðingar þess er mikilvægt að hinir betur launuðu í ráðandi stéttum sýni ábyrgð í verki. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja að laun borgarfulltrúa taki ekki hækkunum á komandi mánuðum. Þá er mikilvægt að ef þessi ákvörðun verður endurskoðuð síðar, að hún leiði ekki til afturvirkra launahækkana. Það er mat fulltrúa sósíalista að grunnlaun okkar eigi ekki að taka hækkunum á þeim tímum sem við upplifum nú. R20040104

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 43. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Appið Leggja er orðinn hluti af EasyPark sem er mest notaða bílastæðaapp í Evrópu og er núna komið til Íslands. Hvert fara tekjurnar sem koma inn í gegnum appið vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur? Fara þau í Bílastæðasjóð eða til fyrirtækis erlendis? Eða skiptist gjaldið á milli fyrirtækisins og Bílastæðasjóðs og hvernig þá? R20100407

  Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

 44. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Nýlega kom út skýrsla um félagshagfræðilega úttekt á borgarlínu: Borgarlínan Socioeconomic Analysis sem gerð var af danska ráðgjafafyrirtækinu COWI og íslensku verkfræðistofunni Mannviti. 1. Hverjir báðu um þessa félagshagfræðilegu úttekt? 2. Hvernig voru þessir aðilar valdir? 3. Var farið í verðfyrirspurn eða útboð á þessari úttekt/skýrslugerð? 4. Hverjir borga fyrir þessa úttekt/skýrslu? 5. Hvað kostaði hún í heild sinni? 6. Ef fleiri enn einn aðili óskaði eftir skýrslunni, hvað borgaði hver aðili fyrir sig? R20100398

  Vísað til umsagnar Verkefnastofu Borgarlínu.

 45. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Farið var í sérstaka kynningarherferð á Laugaveginum í sumar og ákveðið var að verja 30 milljónum í herferðina. 1. Hvernig fór kynningin fram til umsóknaraðila? 2. Hvernig voru þeir sem hlutu styrk valdir? 3. Hvað voru margir sem sóttu um styrk í verkefnið og hversu margir voru valdir út? 4. Þegar upphæð umsókna var lögð saman – hvað var þá sótt um háa upphæð? Óskað er eftir lista yfir umsækjendur/verkefni tæmandi talið. Óskað er eftir lista yfir umsækjendur/verkefni sem fengu styrk og hvað háa upphæð hvert verkefni fékk. R20040179

  Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

 46. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Þann 10. september sl. var lagt fram svar menningar- og ferðamálasviðs, dags. 4. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til styrkþega vegna aflýsingar Menningarnætur 2020, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. ágúst 2020 og finna má á þessari slóð. Óánægju gætir með þetta fyrirkomulag og því eru lagðar fram eftirfarandi spurningar. 1. Hvers vegna tók Reykjavíkurborg þá ákvörðun að greiða einungis út 25% af umræddum styrk til styrkþega þegar Landsbankinn hafði greitt til borgarinnar umsamda fjárhæð? 2. Stenst það meginreglur samningaréttar að öðrum aðilum en styrkþegum sé greitt út eyrnamerkt fjármagn til listviðburða á Menningarnótt? 3. Hefur einhver útlagður kostnaður verið greiddur auk þessara 25% til hvers og eins til styrkþega? 4. Hver tók þá ákvörðun að veita 25% af fjármagninu sem Landsbankinn lagði til Menningarpottsins? 5. Er sú ákvörðun tekin í samráði við Landsbankann? 6. Hvaða nafngreindu aðilar hafa síðan fengið fjármagn úr Menningarpottinum og hversu háar upphæðir tæmandi talið? 7. Hvernig fór valið á þeim einstaklingum fram sem teknir voru fram fyrir styrkþega? 8. Hvað er mikið eftir af fjármagninu þann dag sem fyrirspurninni er svarað? R20080056

  Bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins við framlagningu svarsins frá 10. september fylgir fyrirspurninni. 
  Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

  Fylgigögn

 47. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er eftir að borgarráð fái senda trúnaðarmerkta kynningu frá þjónustu- og nýsköpunarsviði UTR (upplýsinga- og tæknisviðs Reykjavíkur) sem lögð var fram á 15. fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Einnig er óskað eftir upplýsingum um gögn sem lögð voru fyrir 14. fund mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um rekstur upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar. Bæði fundargögnin voru merkt sem trúnaðarmál og voru færð í trúnaðarbók ráðsins. R20010005

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 48. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir SORPU eru að vera æ rýrari svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er að verða knappari. Dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október 2020 er: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins og minnihlutafulltrúum er ætlað að vita eftir þennan fund. Fundargerðir eru tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Miklu fé var varið í ráðgjafarfyrirtækið Strategíu sem átti að vinna leiðir til að auka aðkomu eigenda að byggðasamlagsfyrirtækjum. Lítið af þeirra ráðleggingum virðist hafa skilað sér inn í stjórn SORPU. R20100401

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 49. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fyrirspurnir um eftirlitsferðir hundaeftirlits og skráningu yfir kvartanir vegna hunda. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá frumgögn sem liggja að baki hundaeftirlitsferðum og kvörtunum vegna hunda fram til 1. október 2020. Einnig hvað felst í eftirlitsferðum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá að sjá skráningar yfir kvartanir. Óskað er eftir að fá þessar upplýsingar um eftirlitsferðir og skráningar kvartana án persónugreinanlegra upplýsinga þeim tengdum. R20010132

  Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

  -    Kl. 13:25 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum ásamt áheyrnarfulltrúunum Vigdísi Hauksdóttur og Kolbrúnu Baldursdóttur.

Fundi slitið klukkan 13:28