Fundur nr. 387

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 2. desember var haldinn 387. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mætti Heiða Björg Hilmisdóttir. Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson og Kolbrún Baldursdóttir tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ásamt minnisblaði og fylgigögnum:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 17. nóvember 2010 og á fundi borgarráðs þann 25. nóvember 2010, með áorðnum breytingum. Kostnaðarauki vegna breytinganna er um 67,1 m.kr. sem ekki er til í fjárhagsramma sviðsins. VEL2020040020.

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt að vísa til umsagnar hagsmunaaðila, þó með þeirri breytingu að gildistími læknisvottorðs í 8. og 11. grein verði lengdur í 4 vikur.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögur að breytingum þessum byggja í grunninn á þeim tillögum sem komu fram í áfangaskýrslu stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna sem lagðar voru fram í velferðarráði þann 4. desember 2019 og vísað var til endurskoðunar reglna um fjárhagsaðstoð. Auk þess eru lagðar til breytingar vegna frádráttar tekna þeirra sem eru að koma úr endurhæfingu, breytingar er varða framfærslu til einstaklinga sem stunda nám á framhaldsskólastigi, breytingar á skilyrðum fyrir húsbúnaðarstyrk, breytingar er varða greiðslu sérfræðiaðstoðar og útfararstyrks og breytingar vegna tryggingar húsaleigu. Auk þess eru lagðar fram ýmsar breytingar sem skýra betur fyrir umsækjendum þá framkvæmd sem þegar er viðhöfð. Tillögunni er nú vísað til umsagnar hagsmunaaðila og mun velferðarráð taka þær aftur fyrir að umsagnarferli loknu.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í drögum er ýmsar ágætar breytingar. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að komið verði til móts við bágstadda foreldra með sértækum aðgerðum til að aðstoða með greiðslur á frístundaheimili, gjöld skólamáltíða eða dvöl á leikskóla án þess að grípa til frístundakortsins. Til stendur að mæta þessu með ákveðnum þjónustugjöldum fyrir börn notenda fjárhagsaðstoðar. Þegar fulltrúi Flokks fólksins lagði til að afnema skilyrðið um að nýta frístundakort barnsins til að fá fjárhagsaðstoð vegna barns brást meirihlutinn ekkert vel við. Í kjölfar þess að fulltrúi sagði frá tillögu sinni á Bylgjunni var starfsmaður sendur út af örkinni til að snúa út úr orðum fulltrúa Flokks fólksins með því að segja að frístundakortið tengist ekki fjárhagsaðstoð. Rétt er að það tengist ekki almennri fjárhagsaðstoð heldur fjárhagsaðstoð vegna barna. Sumt í drögunum er frekar harkalegt sbr. lokamálsgrein 8. gr. Benda má einnig á 19. gr. Styrkur vegna húsbúnaðar. Hér má athuga samvinnu við Góða hirðinn. Flokkur fólksins lagði til árið 2019 að borgin kæmi upp aðstöðu þar sem húsgögn/húsbúnaður fengist gefins. Tillagan var felld, sögð ógna þeim dreifiaðilum sem fyrir eru. Svona vettvangur er ekki til. Til er aðstaða sem selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Tillagan gekk út á að fá húsgögn gefins.

  -    Helga Jóna Benediktsdóttir, yfirlögfræðingur, Elsa Guðrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri, Bára Sigurjónsdóttir, lögfræðingur, Þóra Kemp, deildarstjóri og Kristín Ösp Jónsdóttir, lögfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 16. september 2020 varðandi svohljóðandi tillögu Sósíalistaflokks Íslands sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar þann 15. september: 

  Lagt er til að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Þó að nám sé lánshæft hjá sjóðnum, sem nú heitir Menntasjóður námsmanna, þá þýðir slíkt ekki að allt námsfólk geti uppfyllt skilyrðin til að teljast lánshæft hjá sjóðnum. Skilyrðin fela í sér að mega ekki vera í vanskilum við sjóðinn og ábyrgðar á námslán er krafist ef lánþegi telst ekki tryggur. Ef viðkomandi er á vanskilaskrá, bú viðkomandi í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart einstaklingnum, þá telst hann ekki tryggur. Námsmenn þurfa að vera í fullu lánshæfu námi til að geta fengið námslán. Lágmarksárangur á önn eru 22 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. Fullt nám telst vera 30-ECTS einingar á hverju misseri/önn. Hér skal tekið fram að námsfólk getur sótt um aukið svigrúm í námi ef ákveðnar kringumstæður koma í veg fyrir lágmarksnámsframvindu á tiltekinni önn. Þá er í mesta lagi hægt að fá 22 ECTS-einingar skráðar. Þess ber að geta að framfærsla lækkar eftir því sem námsframvinda er minni í einingum talið. Í ljósi alls ofangreinds er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til að mæta því námsfólki sem getur ekki uppfyllt kröfur lánastofnana um lánshæfi. Einnig er lagt til að Reykjavíkurborg skori á ríkið að gera umbætur í þeim efnum svo að nám verði aðgengilegt öllum, óháð fjárhag og getu um námsframvindu. Við eigum öll að geta verið þátttakendur í samfélaginu, á okkar eigin hraða. VEL2020090044.

  Greinargerð fylgdi tillögunni.
  Tillögu vísað til velferðarsviðs til meðferðar samhliða vinnu við breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tekið er undir áhyggjur borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um framfærslu námsmanna. Það er almennt ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að sjá um framfærslu námsmanna í lánshæfu námi en bent er á að upphæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sem er neyðaraðstoð sveitarfélagsins, er hærri en framfærsla námsmanna í eigin- eða leiguhúsnæði á vegum Menntasjóðs námsmanna (MSN). Jafnframt benda fulltrúarnir á að námsmenn hafi samkvæmt lögum ekki rétt á atvinnuleysisbótum þó þeir greiði eins og aðrir hluta af launum sínum í atvinnuleysistryggingasjóð. Fulltrúar ráðsins skora því á ríkið að grípa þá einstaklinga sem eru í lánshæfu námi með hækkun á framfærslu MSN og með lagabreytingu um rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta. Ráðið vísar tillögunni að öðru leyti inn í vinnu við breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sem nú stendur yfir. Brugðist hefur verið við áliti úrskurðarnefndar velferðarmála í málaflokknum með breytingu á framkvæmd reglna um fjárhagsaðstoð en nauðsynlegt er að breyta reglunum með það fyrir sjónum að aðstæður námsmanna verði metnar hverju sinni.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar:

  Lagt er til að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki sem hér segir:
  - Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 207.709 kr. í 212.694 kr. á mánuði.
  - Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 332.334 kr. í 340.310 kr. á mánuði.
  - Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 175.006 kr. í 179.206 kr. á mánuði.
  - Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 103.854 kr. í 106.346 kr. á mánuði.
  - Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækki úr 16.671 kr. í 17.071 kr. á mánuði. VEL2020110025

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt að vísa til borgarráðs með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að leggja til að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar hækki um 2,4% í samræmi við forsendur við úthlutun fjárhagsramma velferðarsviðs fyrir árið 2021. Þá verður grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar 212.694 kr. á mánuði fyrir skatt. Það er allt of lág upphæð til að framfleyta sér. Fulltrúi sósíalista hefur lagt til frekari hækkanir á þessari upphæð og mun halda áfram að gera slíkt. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:    

  Sú hækkun sem hér er lögð til er lág. Þótt muni um hverja krónu hjá þeim bágstöddu þá er þetta varla fyrir einni máltíð handa meðalstórri fjölskyldu. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækka t.d. vegna barna í 16 gr. a úr  16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Nú eru þess utan allar gjaldskrár að hækka, gjöld á frístundaheimili, gjöld fyrir skólamat, ýmis gjöld fyrir þjónustu á velferðarsviði. Segja má því að þessi hækkun hafi þá þegar verið þurrkuð út.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram skýrsla starfshóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. VEL2019030016.

  Samþykkt og vísað til meðferðar á velferðarsviði.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð samþykkir nú fyrstu aðgerðaáætlun velferðarsviðs til að vinna gegn sárafátækt barna. Leiðarljós hennar er að öll börn í Reykjavík skuli njóta sömu tækifæra og að fátækt hindri ekki þátttöku þeirra í samfélaginu. Áætlunin byggir á réttinda- og barnmiðaðri nálgun. Núverandi framboð á úrræðum verður kortlagt og endurskoðað til að mæta betur þörfum notenda og gert er ráð fyrir að þeir séu hafðir með í ráðum um mótun þjónustunnar og verða framkvæmdar reglulegar notendakannanir til að fylgja því eftir. Einnig verður tekið upp samstarf við EAPN með það að markmiði að ná fram sjónarmiðum barna og þau nýtt til að bæta þjónustu. Þar er einnig að finna tillögur sem tryggi aðgang barna foreldra á fjárhagsaðstoð, dvöl á leikskóla, í frístundaheimili og til skólamáltíða. Sérstök áhersla er lögð á að sinna ungu fólki á aldrinum 18-24 ára með börn á framfæri. Efla skal stafræna þjónustu og auka aðgengi að upplýsingum á ýmsum tungumálum. Nauðsynlegt er allir notendur, eða væntanlegir notendur, séu vel upplýstir um réttindi sín hjá Reykjavíkurborg til stuðnings, þjónustu og framfærslu, og skal það gert með heildstæðari hætti en verið hefur.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að enn meira hefði mátt gera í þessari aðgerðaáætlun gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Útrýma á allri fátækt og hefur borgin alla burði til þess ef vel er haldið á spilunum. Það er ekki nóg að ætla bara að kortleggja og greina. Það verður enginn saddur af því. Það er ánægjulegt að tillaga Flokks fólksins um að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16.a sé nú orðin að veruleika. Einnig ber að fagna að reyna á að ná fram sjónarmiðum barna sem eiga foreldra sem hafa þurft fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fátækt meðal barna á Íslandi er staðreynd. Þeir sem búa við sárafátækt eru oft börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti tekna fátækra og láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80%. Til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum hefur Flokkur fólksins ítrekað lagt fram tillögu um að börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir en þær eru felldar jafnharðan.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi sósíalista sat í starfshópnum og vildi taka stærri skref í ýmsum liðum, t.d. varðandi hækkun fjárhagsaðstoðar til framfærslu og hækkun frítekjumarks í takt við upphæð lágmarkstekna. Fulltrúinn fagnar því að áhersla sé sett á að notendur séu hafðir með í mótun þjónustunnar. Það er mikilvægt að talað sé við fólkið sem þekkir reynsluna best. Á grundvelli samstarfssamnings velferðarsviðs og EAPN verði lagðar fram tillögur um með hvaða hætti hægt er að ná fram sjónarmiðum barna sem eiga foreldra sem hafa þurft á fjárhagsaðstoð til framfærslu og/eða félagslegri aðstoð að halda til langs tíma. Aðgerðaáætlun kveður á um skýrt aðgengi að upplýsingum og að notendur verði upplýstir um réttindi sín hjá Reykjavíkurborg til þjónustu, stuðnings og framfærslu með heildstæðum hætti. Þjónustutrygging vegna barna birtist sem sjálfkrafa réttur inn í rafrænni umsókn um fjárhagsaðstoð. Fræðsla mun einnig fara fram um birtingarmyndir sárafátæktar en það er mikilvægt að afleiðingar þess á heilsu og líðan barna séu ljósar þeim sem starfa með börnum. Börn sem búa við fátækt fela oft aðstæður sínar og stilla væntingum sínum í hóf þar sem þau hafa lært að aðlaga sig að því að búa við skort. Enginn á að þurfa að upplifa slíkt.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um þjónustusamning við Útlendingastofnun vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt minnisblaði og fylgigögnum:

  Lagt er til að velferðarráð veiti heimild til að endurnýja þjónustusamning við Útlendingastofnun þannig að velferðarsvið þjónusti allt að 300 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun greiðir allan kostnað vegna samningsins. VEL2020110012.

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt og vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Því ber að fagna að samningar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd séu stækkaðir um 80 manns, en Reykjavíkurborg tekur það að sér samkvæmt samningi við Útlendingastofnun. Hér er um að ræða viðkvæman hóp sem þarf að taka vel á móti og sinna vel, svo að þau geti komið sér fyrir í samfélaginu og dafnað og öll efling og bæting á þeirri þjónustu er jákvæð. Í heiminum er mikil neyð, og það er mikilvægt að Reykjavíkurborg og Ísland leggi sitt af mörkum til að hjálpa fólki á hrakhólum.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða var stofnað teymi starfsmanna sem koma að vinnslu mála umsækjenda um alþjóðlega vernd (UAV teymi). UAV teymið er þverfaglegt teymi og segir í gögnum að það samanstandi af starfsmönnum með fjölþætta menntun og mismunandi bakgrunn og reynslu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort í teyminu sé fulltrúi notenda (umsækjenda) sjálfra? Það er mjög mikilvægt að hafa fulltrúa þeirra hópa sem teymið sinnir með í hópnum bæði þegar verið er að skipuleggja aðstoðina og veita hana. Það er erfiðara fyrir teymi að skynja og skilja þá fjölbreyttu flóru sem umlykur notendur þjónustunnar ef fulltrúi hennar er ekki í skipulaginu sama hversu þverfaglegt teymið er og fjölþætta menntun starfsmenn hafa eða eru með mismunandi bakgrunn og reynslu.

  -    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um þátttöku í tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytisins um móttöku flóttamanna, ásamt beiðni félagsmálaráðuneytisins, dags. 26. október 2020, um þátttöku í tilraunaverkefni í samræmdri móttöku flóttamanna:

  Lagt er til að velferðarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytisins um samræmda móttöku flóttamanna sem gildir frá 1. apríl 2020 til 1. apríl 2021. Gert er ráð fyrir að samningurinn gildi fyrir allt að 384 einstaklinga, eða 287 fjölskyldueiningar, á ársgrundvelli, þ.e. fjölskyldur og einstaklinga. Fjárhæð samningsins gæti numið allt að 111 m.kr. Þar af eru 92 m.kr. áætlaðar í almenna ráðgjöf og stuðning en 18,5 m.kr. fyrir húsnæðisumsýslu. Gert er ráð fyrir 9,2 stöðugildum ráðgjafa, þar af 1,6 stg. í húsnæðisráðgjöf. Kostnaður greiðist alfarið af félagsmálaráðuneytinu. VEL2020110032.

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt og vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um að ræða ákaflega viðkvæman hóp með breytilegar þjónustuþarfir sem geta verið mjög miklar. Það liggur í hlutarins eðli að Reykjavíkurborg þjónustar fólk í borginni í nauð, geri það enginn annar, því ber að fagna að með þessum hætti komi félagsmálaráðuneytið til móts við þá miklu og góðu vinnu sem borgin vinnur í þágu þessa hóps og taki þátt í kostnaði með Reykjavíkurborg.

  -    Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 8. Fram fer kynning á drögum að samningi um heimahjúkrun og viðauka við samningsdrög um heimahjúkrun. VEL2011090013.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Samningur um heimahjúkrun, drög eru kynnt. Hér er um vel skilgreint og afmarkað verkefni sem heilbrigðisstarfsfólk hefur með höndum. Allt spilar þetta saman, heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta til að gefa fólki kost á að vera sem lengst heima. Sennilega er heimahjúkrunin í góðu lagi en ýmislegt vantar upp á félagslegu heimaþjónustuna til að fólk geti verið heima sem allra lengst. 

  -    Berglind Víðisdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 9. Fram fer kynning um stöðuna á akstursþjónustu Strætó. VEL2020120005.

  -    Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri og Erlendur Pálsson, sviðsstjóri akstursþjónustu Strætó taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 10. Fram fer kynning á rafvæðingu umsóknarferlis um stuðningsþjónustu. VEL2020120006.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans fagna rafvæðingu umsóknarferlis um stuðningsþjónustu, en með því að nútímavæða slíka ferla valdeflum við notandann og nýtum betur tíma bæði notenda og starfsfólks. Miðað við reynslu af rafvæðingu umsókna um fjárhagsaðstoð til framfærslu má vænta þess að þessi breyting muni stytta afgreiðslutímann, fækka óþarfa ferðalögum og gera starfsfólki kleift að nýta sinn tíma betur til að vinna úr þeim málum sem ekki er hægt að leysa sjálfvirkt.

  -    Eyrún Ellý Valsdóttir, sérfræðingur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

 11. Fram fer kynning á ársskýrslu velferðarsviðs 2019. VEL2020120004

  -    Arnar Snæberg Jónsson, verkefnastjóri, Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri, Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, teymisstjóri og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi velferðarsviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um kostnað vegna barna með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Trúnaðarmál. VEL 2020110031.

  -    Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 13. Lagðar fram 7. og 8. stöðuskýrslur teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. VEL2020080017.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 2. desember, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 21. október, um biðlista í úrræði og þjónustu. VEL2020100028.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn vinnur markvisst að því að samþætta þjónustu við börn og mæta þeim sem mest í þeirra nærumhverfi. Gott dæmi um það er tilraunaverkefnið Betri borg fyrir börn, sem gefið hefur góða raun í Breiðholti, en þar er þjónusta færð nær börnum og út í hverfi, og gerðar breytingar á fyrirkomulagi skólaþjónustu þannig að stærri hluti hennar sé skipulagður í hverfi. Þar að auki ber ávallt að skoða úrræði út frá því að þau nýtist notendum sem best. Mikilvægt er að rýna og endurskipuleggja úrræði þannig að þau nýtist sem best hverju sinni.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um biðlista í úrræði og þjónustu á vegum borgarinnar kemur fram að 210 börn bíða eftir talmeinafræðingi. Það er einnig bið í námskeið sem dæmi bíða 41 barn eftir að komast í námskeiðið Klókir litlir krakkar. Af hverju eru þessir biðlistar eftir þjónustu svo langir? Af hverju hafa þeir nánast fengið að festa sig í sessi sem væru þeir eitthvað lögmál? Biðlistar koma fyrst og fremst til vegna þess að ekki er nægt fjármagn og ekki tekst að ráða fólk vegna lágrar launa. Biðin er slæm fyrir öll börn og sérstaklega geta verið alvarlegar afleiðingar ef börn með málþroskaröskun fá ekki nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir nánum félagslegum samskiptum við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína. Tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalegar. 

  Fylgigögn

 15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að brúa bilið milli kynslóða með reglulegum og markvissum hætti:

  Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að brúa bilið milli kynslóða, eldri borgara og barna. Við getum lært svo mikið hvert af öðru, fullorðnir af börnum og börn af fullorðnum. Hægt er að finna alls konar flöt á samskiptum og samveru eldri og yngri kynslóðarinnar. Tala saman, fara eitthvað saman eða gera eitthvað saman. Lagt er til að leitað verði leiða til að auka samskipti yngri og eldri, barna og eldri borgara til að efla gagnkvæman skilning og virðingu og umfram allt eiga ánægjulegar stundir. Nota má leik- og grunnskólana og félagsmiðstöðvarnar í þessum tilgangi.

   Frestað.

 16. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar fyrirspurnir um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum.     Nokkrir leigjendur hafa verið að koma með ábendingar sem ekki hefur verið brugðist við af Félagsbústöðum t.d. að loftræstitúður spúi ryki og að ekki hafi verið brugðist við glugga sem ekki var hægt að loka vegna myglu og raka. Eins er leiga að hækka jafnt og þétt og er spurt hvort eitthvað annað en leigan sé að hækka. Í fyrirspurn Flokks fólksins fyrir skemmstu um hækkun leigu kom fram að aðeins sé um að ræða vísitölubundna hækkun og ekkert annað. Ef reikningar eru skoðaðir þá má sjá að verið er að rukka um húsgjald, eitthvað þjónustugjald og eitthvað greiðslugjald. Hvað er þetta eiginlega? Og eru þessar upphæðir að hækka jafnt og þétt? Nú í COVID aðstæðunum er enginn að koma frá Félagsbústöðum til að sinna viðhaldi að sögn nokkurra leigjenda. Benda má á í því sambandi að vel er hægt er að sinna viðhaldi í þessum aðstæðum sé gætt að reglum um sóttvarnir.

  -    kl. 16:22 víkja Egill Þór Jónsson og Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.