Fundur nr. 383

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 16. september var haldinn 383. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragna Sigurðardóttir og Egill Þór Jónsson. Kolbrún Baldursdóttir tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

 2. Fram fer kynning á nýjum gæðaviðmiðum fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk. 

  Íris Dögg Lárusdóttir og Rósa Guðrún Sólberg, sérfræðingar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2021.

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 16. september 2020, að samningi við Rótina vegna reksturs Konukots:

  Lagt er til að velferðarsvið samþykki að Rótinni (félag um konur, áföll og vímugjafa) verði falið að reka neyðarskýli fyrir konur (Konukot) að Eskihlíð 2-4 101 Reykjavík til 3j ára með endurskoðunarákvæði eftir eitt ár. Áætlaður kostnaður á ári nemur 93,6 m.kr. Fjárheimild velferðarsviðs til reksturs úrræðisins er 70,3 m.kr. Óskað er eftir fjárheimild sem nemur 23,3 m.kr. á ársgrundvelli.

  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar meirihlutans þakka kynningu á samningsdrögum. Það er spennandi að fara til samstarfs við nýja rekstraraðila með reynslu af áfallamiðaðri þjónustu við konur. Sviðsstjóra er falið að ganga til samninga á grundvelli þeirra draga sem hér hafa verið kynnt.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra velferðarsviðs um áætlanir og kaup á félagslegu leiguhúsnæði 2015-2034.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að móta sér heildstæða húsnæðisstefnu. Í kjölfar þeirrar vinnu var unnin ítarleg þarfagreining til að meta þörf fyrir uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði og í kjölfarið samin uppbyggingar- og kaupáætlun. Sú áætlun hefur gengið vel eftir, en þar hefur verið notast við forkaupsréttasamninga í nýbyggingaverkefnum. Þá býðst Félagsbústöðum að kaupa fyrirfram skilgreindan íbúðafjölda á hverju svæði á fyrirfram ákveðnu verði. Ljóst er að skýrar áætlanir sem byggja á greiningum og aðgerðir í kjölfarið hafa skilað árangri, en það sést á því að einstaklingum á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hefur fækkað um tæplega 40% frá því í ágúst 2018. Meirihlutinn lagði mikla áherslu á það í málefnasamningi sínum að fjölga félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík, umfram það sem þegar hafði verið ákveðið. Sú fjölgun gengur hraðar fyrir sig en gert var ráð fyrir. Mikilvægt er að velferðarráð sinni hlutverki sínu sem húsnæðisnefnd sveitarfélagsins og haldi áfram með að fylgjast með þróun eignasafns Félagsbústaða sem og stöðu biðlista, með það í huga að grípa til aðgerða ef nauðsyn krefur.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Engin markviss stefna er hjá Reykjavíkurborg í að hjálpa einstaklingum af félagslega kerfinu. Aðeins 214 leigjendur hafa flutt úr félagslegum leiguíbúðum síðastliðin 10 ár eða um 21 leigjandi á ári, samkvæmt svari velferðarsviðs við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2018. Félagslega leiguhúsnæðiskerfið getur því verið mikil fátæktargildra, þar sem fólk festist í viðjum kerfisins. Marka þarf stefnu í að koma fólki út úr félagslega kerfinu.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Biðlisti eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði er enn allt of langur og auðvitað þarf að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum. Áætlun var sennilega eitthvað of knöpp og allt of seint var farið af stað. Nú er kjörtímabilið hálfnað og enn bíða rúmlega 600 umsækjendur. Af þeim eru 132 umsækjendur sem eiga barn/börn sem eru annað hvort í umgengni hjá umsækjanda eða hafa lögheimili hjá honum. Það á eftir að taka nokkur ár að vinda ofan af því ófremdarástandi sem komið var í félagslegu húsnæðismálin. Mörg þessara barna búa við ótryggar og/eða óviðunandi húsnæðisaðstæður og hafa gert lengi. Þetta er auðvitað óviðunandi. Fjöldi barna hafa liðið fyrir seinagang að koma húsnæðismálum þeirra sem minnst mega sín í viðunandi horf. Ábyrgðin er ekki síst hjá síðasta meirihluta.

  Fylgigögn

 6. Kynning á sumarstörfum og námsmannaverkefni á vegum velferðarsviðs.
  Frestað.

 7. Fram fer kynning á innleiðingu matarstefnu Reykjavíkurborgar og framleiðslueldhúsi velferðarsviðs.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans þakka kynningu á máltíðaþjónustu velferðarsviðs margt gott kom fram sem má nýta til að þróa áfram þjónustu borgarinnar og innleiða matarstefnuna.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu öldungaráðs, að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsvið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar. Loksins er eitthvað að hreyfast í þessum málum en mikið hefur þurft til. Það er alveg ljóst að sá matur sem eldri borgurum hefur oft verið boðið upp á er ekki boðlegur. Annars hefðu ekki allar þessar gagnrýnisraddir heyrst. Á gagnrýnisraddir hefur ekki verið nægjanlega hlustað. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einhverjir hafi viljað berja niður umræðuna. Það sýnir sig best í því að tillögum Flokks fólksins sem unnar voru með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var hafnað. Það er heldur ekki nóg að maturinn sé rétt samsettur fyrir eldri borgara. Huga þarf að framleiðslu hans og hvenær hann er sendur út. Fram kemur að hann sé oft afhentur til neyslu tveimur dögum eftir framleiðslu. Það er ekki viðunandi. Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val t.d. val um meira eða minna grænmeti. 

  Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhúss, Þórhildur Egilsdóttir, deildarstjóri, Berglind Eyjólfsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Ingibjörg H. Sverrisdóttir, Eva Kristín Hreinsdóttir, Viðar Eggertsson og Sigurbjörg Gísladóttir, fulltrúar úr öldungaráði og Sigríður Guðný Gísladóttir, Gísli Felix Rangarsson, Birna Róbertsdóttir, Drífa Baldursdóttir, Droplaug Guðnadóttir, Anna Kristín Bjarnadóttir og Helga Björk Haraldsdóttir, forstöðumenn félagsmiðstöðva fullorðinna taka sæti á fundinum undir þessum lið.

 8. Lögð fram fjórða stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19, dags. 27. ágúst 2020.
  Frestað.

 9. Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneytinu með leiðbeiningum fyrir sveitarfélög um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum skólaárið 2020-2021, dags. 10 september 2020.
  Frestað. 

 10. Lagt fram erindi félagsmálaráðuneytisins um framtíð öryggisgæslu og öryggisvistunar í Reykjavík, dags. 8. september 2020.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Velferðarráð hefur margsinnis ítrekað til velferðarráðuneytisins, allt frá árinu 2017, að nauðsynlegt sé að sett verði lög um öryggisvistun og ábyrgð á slíku sérhæfðu úrræði sem hluta af réttarvörslukerfinu sé hjá ríkinu. Ítrekað var í bréfi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 28. nóvember 2018, þar sem fram kemur að ef dæma á einstaklinga til öryggisvistunar er um hluta réttarvörslukerfisins að ræða. Nægur tími hefur gefist til að vinna að þessum málum af hendi ríkisins, en starfshópur um framtíð öryggisvistunar var skipaður árið 2015 og skilaði hann niðurstöðum árið 2016. Þar var vakin athygli á nauðsyn þess að sett yrðu lög um rekstur slíkrar starfssemi. Velferðarráð hefur ítrekað bent á þessa nauðsyn en hefur jafnframt sýnt mikinn skilning og samstarfsvilja þar sem um viðkvæma starfsemi er að ræða og hefur sinnt öryggisvistun með samningi við ríkið allt frá árinu 2017. Þau rök ráðuneytisins um að starfssemin standist ekki lög halda engu vatni enda hefur starfssemin verið í gangi frá upphafi árs 2017. Samningurinn hefur ítrekað verið framlengdur þar sem ráðuneytið hefur óskað eftir því meðan unnið er að lausnum. Velferðarráð samþykkir að framlengja samninginn að til 1. mars 2021 en ítrekar mikilvægi þess að unnið verði hratt og vel að framtíðarlausn út samningstímann. Fulltrúarnir taka að lokum fram að samningurinn um rekstur öryggisvistunar verði ekki framlengdur til lengri tíma en 1. mars 2021.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar Reykjavíkur um framlengingu heimildar til fjarfunda, dags. 1. september 2020. 
  Frestað.

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 16. september 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 30. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. ágúst 2020 um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar.
  Frestað.

 13. Lögð fram á ný tillaga Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020 um vinnureglu starfsmanna.
  Frestað.

 14. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Nýlega var starfsmaður Reykjavíkurborgar dæmdur fyrir brjóta kynferðislega á konu í skammtímavistun á vegum Reykjavíkurborgar. Í dóminum segir að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína. Í framhaldi hófst umræða um hvað reglur gilda almennt um baðaðstæður og hverjir aðstoði þá sem þess þurfa við böðun. Fram kom að reglur hafi verið yfirfarnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um hvernig þessum reglum sé háttað og hvort það sé í reglum nú að aðeins fólk af sama kyni aðstoði við böðun nema fyrir liggi samþykki um annað?

 15. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Það liggur í augum uppi ef horft er til markmiða Aðgengisstefnunnar (drög) frá 22.9. 2017 að það vantar mikið upp á að tekið sé með markvissum hætti á ákveðnum þáttum sem snúa að aðgengismálum. Samkvæmt erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum skal aðgengisstefnan snúa að eftirfarandi þáttum: Aðgengi að húsnæði í eigu borgarinnar og aðgengi að því húsnæði sem borgin leigir fyrir starfsemi sína. Hvar er að finna heildstæða áætlun varðandi húsnæði? Hvernig er farið með byggingarleyfisskyldar breytingar á þegar byggðu húsnæði? (Ef breyta á eldra húsnæði á, skv. byggingarreglugerð, að leggja fram greinargerð um aðgengi og eftir atvikum rökstuðningi á af hverju ekki sé hægt að uppfylla aðgengi fyrir alla, þ.e. undanþágur frá kröfum reglugerðar. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur sagt að það ”yrði mjög tímafrek vinna að fara í gegnum öll skjöl og finna út úr því sérstaklega hvar gefin hefur verið undanþága, en erindi og samþykktir þar sem þannig er háttað, eru ekki skráð sérstaklega í gagnagrunn embættis byggingarfulltrúa.” Þetta hlýtur að teljast gagnrýnisvert. Þetta á að vera gegnsætt ferli og því verður að halda utan um og gera þessi gögn aðgengileg). Í drögum að Aðgengisstefnu frá 2017 voru sett fram markmið og aðgerðir í 19 liðum sem ekki hefur verið framfylgt. Hvernig á að taka á aðgengismálum þegar ákvæði byggingarreglugerðar geta ekki verið uppfyllt og hvernig er þá hægt að leita skapandi lausna? (Ekki liggur fyrir neinn farvegur fyrir skapandi lausnir eftir því sem best er séð og eru því þessi mál óljós). Varðandi markmið og aðgerðir hefur ýmislegt verið gert. Það er t.d. vísir að því að skipta út gönguljósabúnaði og bæta biðsvæði strætó. Á ekki að fara markvisst í að afmarka og merkja rétt bílastæði hreyfihamlaðra og veita upplýsingar um þau á korti? Þarf ekki að fjölga og upplýsa um salerni hreyfihamlaðra? Hvernig er unnið að því að losa snjó af göngustígum, yfir götur og á biðstöðvum strætó? Hvernig gekk það síðasta vetur og hvernig mun því verki verða háttað næsta vetur í ljósi fyrri reynslu? Hvernig gengur að gera útisvæði aðgengileg? Hvernig miðar að gera áætlun um aðgengi að félags-, íþrótta- og menningarstarfsemi? (Aðgengi að íþróttamannvirkjum er t.d. oft mjög lélegt) Hvernig miðar að koma upp skiltum og fjarlæga hindranir á götum og gangstéttum? Spurt er í ljósi þess að í vaxandi mæli hafa skipulagsyfirvöld verið að stilla upp húsgögnum, borðum og stólum á gangstéttir ef sést sem dæmi til sólar. Með þessu er stundum verið að teppa gönguleiðir.

 16. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Hver er staðan á innleiðingu markmiða í matarstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn þann 15. maí 2018, er varðar velferðarsvið? Hafa allar aðgerðir í matarstefnu varðandi þjónustu við eldri borgara fengið fjármagn, er varðar velferðarsvið?

 17. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er eftir upplýsingum um hver staða verkefna er miðað við aðgerðaráætlun og markmið Stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir?

 18. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Sólarhringsopnun neyðarskýla hefur orðið að veruleika vegna COVID-19 faraldursins. Þjónustuþegar hafa fagnað þeirri breytingu og því er óskað eftir kostnaðargeiningu á því hvað það myndi kosta að breyta neyðarskýlum borgarinnar þannig að þar sé sólarhringsopnun og hvaða breytinga á samningum og húsnæði þyrfti að grípa til til að gera það mögulegt.