Fundur nr. 380

Velferðarráð

Ár 2020, miðvikudagur 24. júní var haldinn 380. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:06 í Hofi, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Aron Leví Beck, Elín Oddný Sigurðardóttir, Alexandra Briem, Örn Þórðarson, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

 2. Fram fer kynning á drögum að tillögu að breytingu á aðalskipulagi í Reykjavík - Sérstök búsetuúrræði, Heimildir innan landnotkunarsvæða. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar meirihlutans fagna því að unnið sé að breytingu á aðalskipulagi með það að markmiði að skapa aukinn sveigjanleika til að staðsetja ný úrræði, eftir því sem þörf krefur hverju sinni, með eins skjótum hætti og kostur er. Reykjavíkurborg þarf að sameinast um það að tryggja framfylgd stefnumörkunar Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra. Það eiga allir að geta átt heimili í Reykjavík og aðalskipulag þarf að gera ráð fyrir fjölbreytileika mannlífs eins og velferðarþjónustan. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins telur þessa breytingu nauðsynlega í ljósi þess að erfitt hefur verið að finna smáhýsum fyrir heimilislausa staðsetningu. Það er skylda og ábyrgð sveitarfélags að bjóða öllum þeim sem vilja og þurfa öruggan stað að búa á, stað sem hægt er að kalla heimili. Það getur komið fyrir alla að vera á götunni, heimilislaus, öðrum háður og þurfa að leita til stjórnvalda eftir húsnæði. Það er skylda samfélagsins að bregðast við því kalli. Út á það gengur samfélag. Að búa í samfélagi þýðir samneysla. Þeir sem eru betur settir hjálpa þeim sem eru verr settir. Flokkur fólksins lætur sig varða alla þá sem hafa af einhverjum orsökum orðið undir, verið beittir misrétti, hafa slasast eða eru veikir og þar að leiðandi ekki færir um að koma sér þaki yfir höfuðið. Sumir íbúar þeirra hverfa sem komið hafa til greina fyrir smáhýsin hafa mótmælt því að þau verði reist í þeirra hverfi. Sumt fólk er uggandi því það upplifir óvissu um verðandi íbúa smáhýsanna. Góðar upplýsingar og almenn fræðsla um heimilislaust fólk á Íslandi gæti verið hjálplegt til að draga úr óvissu og kvíða nágranna.

  Haraldur Sigurðsson, deildarstjóri aðalskipulags á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

 3. Fram fer kynning á niðurstöðum úr útboði á akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
   
  Hagsmunir Strætó og sveitarfélaganna sem að baki akstursþjónustunni standa sem þjónustukaupa snúa að því að fleiri gild tilboð en færri séu send inn og leitt að sjá hve fá tilboð voru að lokum metin gild. Af hálfu velferðarráðs er fyrir öllu að þjónustan sé traust og áreiðanleg og að ekki verði rof á henni, þetta samkomulag mun vonandi tryggja áframhaldandi góða þjónustu við íbúa borgarinnar.

  Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri, Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri og Erlendur Pálsson, sviðsstjóri farþegarþjónustu hjá Strætó taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

 4. Lögð fram breyting á gjaldskrá akstursþjónustu fyrir fatlað fólk.
  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er um að ræða breytingu til að koma á skýru verklagi sem kveðið er á um í þjónustulýsingu og reglum inn í gjaldskrá til að auka gagnsæi bæði fyrir notendur og þjónustuaðila en eðlilegt er í þjónustu sem þessari að væntingar séu skýrt fram settar og fyrirsjáanlegar.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í nýju gjaldskránni verður gerður greinarmunur á föstum ferðum og tilfallandi ferðum. Rukkað verður hálft strætógjald fyrir fastar ferðir, líkt og nú er gert fyrir allar ferðir, og síðan fullt gjald fyrir tilfallandi ferðir. Þetta er að mörgu leyti gjaldaukning fyrir notendur. Hér er verið að ýta á að fólk panti sér ferðir með fyrirvara enda sé það hagstæðara. Það væri ásættanlegra ef hægt væri að panta ferðir fyrirvaralaust, en það er ekki hægt enn. Áfram er miðað við a.m.k. 2 klst fyrirvara. Þjónustan er því ekki sambærileg við strætó að þessu leyti, sem hún þó á að vera. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að áfram er hægt að taka með sér farþega, sem greiða sitt fargjald. En helsti vandinn er þó að fólk sem á rétt á akstursþjónustu en getur líka notað strætó, a.m.k. við og við, þarf þá að borga tvöfalt gjald. Þetta er ósanngjarnt með meiru og er málið á borði umboðsmanns borgarbúa. Akstursþjónustan er ígildi strætó og það á ekki að fæla fólk frá því að reyna að nota strætó í bland. Er ekki gott að fækka ferðum akstursþjónustunnar? Þetta er alger bremsa og væntanlega brot á jafnræðisreglu. 

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Í drögum á gjaldskrá á aksturþjónustu fyrir fatlað fólk kemur fram að: „Afpöntun ferða skal fara fram með a.m.k. 2 klst. fyrirvara, að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri bæði gagnvart sveitarfélagi og notanda“. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram í upplýsingagjöf að sveigjanleiki sé gefinn fyrir því að fella niður gjald, þar sem skiljanlegar ástæður liggja að baki því að hætta þurfi skyndilega við ferð og slíkt var ekki innan 2 klst. fyrirvara. 

  Agnes Sif Andrésdóttir, skrifstofustjóri og Þórdís Linda Guðmundsdóttir, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra um greiðslur sveitarfélaga vegna gistinátta í Gistiskýlinu. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúarnir lýsa yfir ánægju með það hversu vel hefur gengið að framkvæma tillögu ráðsins frá 21. nóvember 2018 um að innheimt verði gjald af þeim sveitarfélögum sem nýta þjónustu neyðarskýla borgarinnar. Nú þegar hafa tólf sveitarfélög gert samning við borgina. Þó er ljóst að ennþá eiga nokkur sveitarfélög sem nýta sér þjónustu gistiskýla borgarinnar eftir að gera slíkan samning og hvetja fulltrúarnir þau til að ganga frá samningum við borgina sem allra fyrst. 

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram ályktun frá stjórn Geðhjálpar vegna smáhýsa við Skógarhlíð.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti velferðarráðs þakkar Geðhjálp fyrir ályktunina og hvatningu til að halda áfram að leggja áherslu á skaðaminnkandi nálgun og hugmyndafræði um ,,húsnæði fyrst” í þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það munum við að sjálfsögðu gera með því að fylgja eftir stefnu okkar í málaflokknum. Öll vinna í málefnum heimilislausra þarf að byggja á gagnkvæmri virðingu þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins og umburðarlyndi eru í fyrirrúmi og það umburðarlyndi þarf að vera til staðar í öllu samfélaginu. Reykjavíkurborg mun halda áfram að fjölga íbúðum og húsum til leigu fyrir heimilislaust fólk sem hefur sótt um húsnæði til leigu og er tilbúið til að halda heimili með einstaklingsbundnum stuðningi, það er mikilvægt fyrir þá Reykvíkinga sem um ræðir, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. 

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi skilaboðanna sem fram koma í ályktuninni en eins og er svo vel að orði komist þá erum við margbreytileg og undirstaða samfélagsins er umburðarlyndi fyrir náunganum.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Smáhýsi fyrir heimilislausa í Reykjavík hafa verið til umræðu um skeið. Hér er um að ræða nýtt búsetuúrræði og er það þar af leiðandi framandi fyrir marga. Það er ekki óalgengt að þegar um er að ræða nýjungar og ekki alveg séð fyrir hvernig gengur að fólk fyllist óöryggi og kvíða. Það þarf að virða. Þótt fólk gagnrýni og mótmæli einhverju sem því líst ekki á í fljótu bragði þýðir það ekki að það sé „skilningslaust“ fólk. Fulltrúi Flokks fólksins er þeirra skoðunar að með samtali, útskýringum og almennri fræðslu má milda margt í þessu sambandi og jafnvel draga úr óöryggi og kvíða fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt. Það er óskandi að þar sem smáhýsin munu rísa muni ríkja um þau þokkaleg sátt. Heimili er nefnilega ekki aðeins skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið er ekki síður háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn á staðinn og í hverfið. Það getur komið fyrir alla að vera heimilislausir. Ástæður þess að fólk verður heimilislaust til langs tíma eru oftast margþættar. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. 

  Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  Fylgigögn

 7. Á fundi velferðarráðs þann 3. júní 2020 var lagt fram þriggja mánaðauppgjör velferðarsviðs jan-mars 2020. Eftirfarandi bókanir voru lagðar fram og færðar í trúnaðarbók:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það vekur ávallt áhuga að sjá hver helstu frávikin eru á velferðarsviði sem og á öðrum sviðum borgarinnar. Þegar talað er um frávik er það oftast í þeim tilfellum sem farið er umfram fjárheimildir. Þannig er það með nokkur atriði hjá velferðarsviði en fulltrúi Flokks fólksins vill þó bóka um frávik í heimaþjónustu og heimahjúkrun sem voru um 98 m.kr. innan fjárheimilda. Þetta vill maður helst ekki sjá því þetta þýðir að ekki var hægt að veita grunnþjónustu sem fólk á rétt á og þarfnast. Heimaþjónusta var um 75 m.kr. innan fjárheimilda sem er vegna verkfalla í byrjun árs eins og segir í gögnum. Heimahjúkrun var 23 m.kr innan fjárheimilda sem má m.a. rekja til þess að ekki hefur náðst að manna allar stöður sbr. þriggja mánaðauppgjör velferðarsviðs. Mannekla er rótgróinn vandi í borginni sem ekki hefur tekist að vinna á. Helsta ástæðan er lág laun og mikið álag í þessum störfum. Í upphafi kjörtímabils lofaði þessi meirihluti að taka á mannekluvandanum fyrir alvöru en nú þegar kjörtímabilið er hálfnað hefur það ekki enn tekist.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Rétt er að taka fram að ekki er vitað að frávik á árinu í heimahjúkrun og heimaþjónustu séu vegna manneklu, mun frekar er um að ræða sérstakar aðstæður vegna Covid faraldurs og mögulega vegna verkfalla, sem hafa sett svip sinn á það sem af er árinu 2020. Vegna þeirra aðstæðna dróst kostnaður sviðsins saman, en jókst líka vegna viðbragða við aðstæðunum. Því er mikilvægt að halda til haga að rekstur sviðsins er innan fjárheimilda, þó aðstæður hafi verið því valdandi að þær voru nýttar öðruvísi en fyrirfram var gert ráð fyrir.

  Fylgigögn

 8. Lagt fram erindi Félags heyrnarlausra um félagsþjónustu fyrir heyrnarlausa og CODA á höfuðborgarsvæðinu.

  Fylgigögn

 9. Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs dags. 16. apríl 2020, um sérstaka stuðningsþjónustu fyrir börn alkóhólista.
  Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Eins og fram kemur í umsögn velferðarsviðs er nú þegar í gildi samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og SÁÁ frá árinu 2008, sem m.a. tryggir börnum fólks með áfengisfíkn endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu. Það fyrirkomulag hefur reynst vel og árið 2019 voru 39 börn sem fengu þá þjónustu í alls 135 skipti. Samkvæmt samningnum geta allt að 45 börn fengið 8 tíma hvert á ári. Þar að auki er velferðarsvið með samning við Foreldrahús, þar sem Reykjavíkurborg niðurgreiðir þjónustu og notendur á vegum þjónustumiðstöðva eða barnaverndar fá án endurgjalds. Velferðarsvið og Barnavernd veita auk þess stuðning og ráðgjöf á eigin vegum. Ekki er hægt að taka undir það sjónarmið að á meðan þessi þjónusta er veitt samkvæmt samningi við SÁÁ ætti samhliða því að reka annað samskonar úrræði fyrir sama hóp á öðrum stað, en vissulega má alltaf skoða með hvaða hætti er best að veita þjónustu sem þessa.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sérstaka stuðningsþjónustu fyrir börn alkóhólista hefur verið felld. Fulltrúi Flokks fólksins vill að Reykjavíkurborg veiti meiri stuðning við þennan hóp barna en gert hefur verið. Hér er ekki verið að segja að börn alkóhólista og vímuefnaneytenda fái enga þjónustu hjá Reykjavíkurborg en með tillögunni er verið að kalla eftir að stuðningurinn verði markvissari, skilvirkari og fjölbreyttari. Öllum börnum í þessari stöðu á að bjóða aðstoð. Margra mánaða biðlisti er í þjónustu SÁÁ. Vegna mikillar aðsóknar þarf SÁÁ að forgangsraða börnunum. Auk þess er krafist tilvísunar í úrræðið. Aðgengi að þjónustu sem þessari þarf að vera gott. Vinna SÁÁ sem er sértæk þjónusta fríar ekki borgina frá skyldum sínum gagnvart börnum alkóhólista og þá meinar fulltrúi Flokks fólksins öllum börnum sem eru í þessum aðstæðum. Minnt er á jafnréttisstefnu borgarinnar sem segir að börn skulu sitja við sama borð og ekki vera mismunað vegna aðstæðna foreldra. Auka þarf ráðgjöf samhliða til foreldra. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort markvisst er verið að sinna þeim börnum sem ekki fá aðstoð hjá SÁÁ ýmist vegna þess að þau eru ekki talin í áhættuhópi sjálf eða hafa verið á biðlista í vikur eða mánuði?

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg er með samstarfssamning við SÁÁ og samning við Foreldrahús auk þess sem hún veitir aðra þjónustu sem getur hentað þeim sem um ræðir. Í tillögunni er fjallað um uppsagnir sálfræðinga hjá SÁÁ sem m.a. sinntu þjónustu við börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Í umsögn velferðarsviðs með tillögunni kemur fram að umræddar uppsagnir sálfræðinga hjá SÁÁ náðu ekki til þessara þjónustu og hafa auk þess verið dregnar til baka. Fulltrúi sósíalista telur vert að skoða þessa tillögu nánar og tryggja að enginn sé að bíða lengi eftir þjónustu sem viðkomandi þarf á að halda og styður þessa tillögu.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs þann 12. mars 2020, um að enginn verði án matar. 
  Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Ísland og Sjálfstæðisflokksins. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Í samráðsgátt stjórnarráðsins eru tillögur að aðgerðum gegn matarsóun þar sem ein aðgerðin er að stofnaður verði matarbanki með það að markmiði að minnka sóun í verslun og matvælaiðnaði og koma matvælum sem uppfylla kröfur til þeirra sem þurfa. Það er jákvætt skref sérstaklega ef litið er til loftlagsmála og nauðsyn þess að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess sinna amk. fjögur félagasamtök sem starfa í Reykjavík matargjöfum eða veita stuðning til þess að kaupa matvæli. Langtímamarkmið hvers samfélags ætti þó alltaf að vera að enginn verði að treysta á matargjafir til að nærast og að framfærsla dugi til nauðþurfta. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enginn á nokkurn tímann að þurfa að vera án matar á Íslandi og auðvitað þarf að vera viðbragðsáætlun. Covid hefur kennt ýmislegt og skemmst er einnig að minnast þess að í fyrra lentu 3700 manns í því að fá ekki að borða því góðgerðarsamtök lokuðu. Þetta er áhyggjuefni. Velferðaryfirvöldum ber skylda til að sjá til þess að allir eigi að borða í Reykjavík. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það eru hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki er flóknari útfærsla. Slíkt fyrirkomulag þarfnast yfirbyggingar og utanumhalds. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins styður efnislega þessar tillögur enda mátast við stefnu Flokks fólksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn fátækt og hlúa að þeim verst settu. 

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þessi tillaga var upphaflega lögð fram á fundi borgarstjórnar þann 5. maí 2020 og þá var samþykkt að vísa henni til meðferðar velferðarráðs og til vinnslu í stýrihóp ráðsins um aðgerðir gegn sárafátækt. Meirihlutinn ákvað að fella tillögunni á þessum fundi velferðarráðs. Fulltrúi sósíalista vill brýna fyrir meirihlutanum að horfast í augun við veruleikann. Á meðan að stjórnvöld vilja ekki hækka lægstu tekjur þeirra sem minnst hafa, þar með talið þeirra sem fá fjárhagsaðstoð greidda er nauðsynlegt að tryggja að enginn sé án matar. Ekkert okkar í samfélaginu á að þurfa að búa við svengd og hungur sem að mörg í samfélaginu búa því miður við. Það er því leitt að það hafi ekki verið vilji til þess að skoða þessa tillögu nánar og vinna með hana.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar þann 8. maí 2020, um viðbragðsáætlun vegna lokunar góðgerðarfélaga sem sjá um matarúthlutanir.
  Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins. 

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Eins og fram kemur í tillögunni dró tímabundið úr matarúthlutunum nokkurra hjálparsamtaka á tímum Covid. Flest þeirra hafa þó hafið starfssemi að nýju samhliða tilslökunum á samkomubanni. Einnig nýttu sum samtök nýjar aðferðir á borð við heimsendingu matar til þeirra sem þurftu á að halda. Stjórnvöld veittu ýmsum félagasamtökum styrki í kjölfar Covid upp á samtals 55 m.kr. Styrkirnir voru hugsaðir til að styðja við aukna þjónustu samtakanna við viðkvæma hópa sem verða fyrir áhrifum vegna faraldurs kórónuveiru. Þau félagasamtök sem hlutu styrki voru m.a. Fjölskylduhjálpin, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og Mæðrastyrksnefnd. Á fundi velferðarráðs þann 6. maí 2020 var samþykkt að veita forsjáraðilum sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu í janúar - mars 2020, 20.000 kr. eingreiðslu með hverju barni með lögheimili hjá forsjáraðila vegna ástandsins og fengu foreldrar afturvirkar greiðslur. Þann 22. maí fékk 201 foreldri greidda eingreiðsluna vegna 343 barna. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Enginn á nokkurn tíman að þurfa að vera án matar á Íslandi og auðvitað þarf að vera viðbragðsáætlun. Covid hefur kennt ýmislegt og skemmst er einnig að minnast þess að í fyrra lentu 3700 manns í því að fá ekki að borða því góðgerðarsamtök lokuðu. Þetta er áhyggjuefni. Velferðaryfirvöldum ber skylda til að sjá til þess að allir eigi að borða í Reykjavík. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki er flóknari útfærsla. Slíkt fyrirkomulag þarfnast yfirbyggingar og utanumhalds. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins styður efnislega þessar tillögur enda mátast við stefnu Flokks fólksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn fátækt og hlúa að þeim verst settu. 

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það á ekki að vera á ábyrgð sjálfboðaliða hjálparsamtaka að tryggja að fátækt fólk geti borðað út mánuðinn, ábyrgðin er stjórnvalda og fátækt ætti ekki að vera veruleiki. Þessi tillaga fól í sér að Reykjavíkurborg ynni með viðeigandi aðilum og leitaði t.a.m. til sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins að því að setja fram viðbragðsáætlun sem næði utan um þá sem munu hljóta skaða af lokun góðgerðarstarfsemi sem sjá um matarúthlutanir til þeirra sem búa við bág efnahagsleg kjör. Þó svo að hjálparsamtök hafi opnað fyrir starfsemi eftir að hafa lokað tímabundið í kjölfar Covid-19, þá er nauðsynlegt að við drögum lærdóm af því sem hefur gengið yfir samfélagið okkar og séum í stakk búin til þess að bregðast við ef að hjálparsamtök loka. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir lokunum, þ.m.t. sumarlokanir og það er ekki hægt að loka augunum gagnvart því að mörg í samfélaginu eru oft án matar og verða að treysta á matarrúthlutanir. Við verðum að taka pólitíska ábyrgð á því að grunnþörfum íbúa sé mætt og því er nauðsynlegt að viðbragðsáætlun sé tilbúin. Hér skal þó tekið fram að það er áfall í sjálfu sér að upplifa svengd og þurfa að treysta á matarúthlutanir vegna fátæktar.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. júní 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um lista yfir úrræði/aðstoð sem eldri borgarar fengu í Covid aðstæðunum.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Á meðan samkomubannið stóð yfir veitti velferðarsvið alls 2639 eldri borgurum þjónustu í heimahúsi. Eldri borgarar sem höfðu nýtt sér aðstöðu í félagsmiðstöðvum til að borða var boðið að fá heimsendan mat. Á meðan félagsmiðstöðvar voru lokaðar var eldri borgurum boðið upp á ýmsa rafræna viðburði. Velferðarsvið stóð fyrir úthringingum til Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Markmið verkefnisins var að draga úr félagslegri einangrun eldri borgara vegna útbreiðslu Covid-19 faraldursins. Fjöldi námsmanna hefur verið ráðinn til þess að auka þjónustu við eldri borgara á hjúkrunarheimilum, dagdeildum, þjónustuíbúðum, í heimaþjónustu og á félagsmiðstöðvum. Einnig verða ráðnir námsmenn til þess að efla tæknilæsi o.fl. Velferðarsvið fékk styrk frá félagsmálaráðuneytinu til að auka starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna sumarið 2020, umfram hefðbundið sumarstarf, vegna Covid-19.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í vinnu sinni eða sem sjálfboðaliðar til styðja og styrkja eldri borgara í Covid-19 aðstæðunum. Ljóst er að mikið hefur verið gert og vonandi hefur náðst til allra sem þurftu aðstoð eða stuðning af einhverju tagi. Ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins fann sig knúinn til að kalla eftir þessu yfirliti er að í ályktun Landssambands eldri borgara (LEB) frá 28. mars segir „að í öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gert til að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið sé hvergi minnst á aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins“. Í sömu ályktun skorar stjórn LEB á sveitarfélögin að taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín. Þegar stjórn LEB hefur áhyggjur hefur Flokkur fólksins áhyggjur enda flokkur sem er búinn til með það að markmiði að halda utan um okkar viðkvæmasta hóp. Varðandi matarheimsendingar þá eru þær ekki fríar. Vel kann að vera að gjaldskráin sé sanngjörn en fyrir þá sem eru fátækir þá er allur kostnaður erfiður.

  Fylgigögn

 13. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. júní 2020, um styrkingu barnaverndar:

  Velferðarráð samþykkir að óska eftir fjárheimild við borgarráð að fjárhæð 30 m.kr. frá og með 1. september 2020 til að styrkja starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur um sjö stöðugildi vegna fjölgunar tilkynninga í kjölfar Covid-19. Þau sjö stöðugildi sem horft er til skiptast í fjögur stöðugildi ráðgjafa, sem munu sérhæfa sig í málefnum barna af erlendum uppruna og málefnum tengdum heimilisofbeldi, eitt stöðugildi gæða- og fræðslufulltrúa og tvö stöðugildi í eftirlit. Auk þess er óskað eftir þremur stöðugildum til viðbótar á árinu 2021. Árskostnaður fyrir 10 stöðugildi er metinn 116 m.kr. Hækkun fjárframlags á árinu 2021 er til að mæta undirmönnun og langvarandi álagi í starfseminni. 
  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Á síðasta fundi velferðarráðs var velferðarsviði falið að móta tillögu að styrkingu Barnaverndar Reykjavíkur til að mæta þeirri 10 - 15% aukningu á tilkynningum sem fyrirsjáanleg er vegna ástandsins í samfélaginu. Það er sameiginlegt verkefni okkar að vernda börn og tryggja þeim öruggt umhverfi í hvívetna. Með tillögunni er bætt við samtals 10 stöðugildum í barnavernd og starfseminni breytt með þeim hætti að sett eru á fót ný teymi. Kostnaður við tillöguna er 110 milljónir á ársgrundvelli og kemur til viðbótar þeim rúmlega 700 miljónum sem settar hafa verið í að efla Barnavernd Reykjavíkur á síðustu tveimur árum.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins gerir sé grein fyrir að barnaverndin þarf að hafa tryggan fjárhagslegan grunn og samþykkir því tillögu um styrkingu til barnaverndar. Varðandi barnaverndarmál þá liggur það þokkalega ljóst fyrir hvað málaflokkurinn þarf af fjármagni sem tryggja ætti þá í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár. Málum fer ekki fækkandi, þeim fer fjölgandi og allar líkur eru á að þeim fjölgi áfram í framhaldi af Covid og þeim áhrifum og afleiðingum sem veirufaraldurinn hefur og mun hafa til langs tíma. Allt þetta bitnar á börnunum. Knýjandi er einnig að taka á biðlistameini í þjónustu borgarinnar. Biðlistar eru nánast í alla þjónustu fyrir börn. Það kostar að veita góða þjónustu. Börn eiga ávallt að fá góða þjónustu og þau eiga ekki að þurfa að bíða eftir henni.

  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri, Sigrún Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri, Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og Unnur Halldórsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 14. Lögð fram umsögn um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og einnig fer fram kynning á frumvarpinu ásamt frumvörpum til laga um gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og barna- og fjölskyldustofu.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúarnir taka undir umsagnir velferðarsviðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga við framkomin lagafrumvörp. Í heild er margt gott í þessum frumvörpum en í umsögnunum koma fram margar mikilvægar athugsemdir eins og afnám heimilda opinberra aðila til að deila persónuupplýsingum sem varða velferð barna. Slíkt gæti aukið álag á barnavernd en dregið úr því að hægt sé að vinna mál á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem ganga út á að veita börnum og fjölskyldum þeirra heildstæðan og snemmtækan stuðning. Auk þess vara fulltrúarnir við því að dregið sé úr sjálfstæði sveitarfélaga með því að koma á fót svæðisbundnum farsældarráðum barna. Ljóst er að ef koma á fót hlutverkum tengiliða og málsstjóra sem hluta af lögbundinni þjónustu af hálfu sveitarfélga mun því fylgja mikill kostnaður. Velferðarráð tekur undir umsögn sambandsins og bendir á að í 129 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er skýrt kveðið á um skyldu ráðherra til að láta framkvæma mat á fjárhagslegum áhrifum lagasetningar á fjárhag sveitarfélaga. 

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúa Flokks fólksins finnst jákvætt að nú sé verið að koma á fót samráðsvettvangi milli mismunandi þjónustuveitenda á vegum sveitarfélaga, stjórnvalda og ráðuneyta til að efla þjónustu við börn. Þá fá foreldrar sinn tengilið sem sér um að veita þeim upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins, svonefndan tengilið. Gert er ráð fyrir því að það verði starfsmaður heilsugæslu þar til barn hefur nám og eftir það starfsmaður skóla. Ef tengiliður telur að barn þurfi á frekari þjónustu að halda en fyrsta stigs þjónustu (grunnþjónusta aðgengileg öllum og einstaklingsbundinn snemmtækur stuðningur) skal hann skipa barninu málsstjóra sem er með meiri sérhæfingu en tengiliðurinn. Þessi frumvörp snúast um að barnið fái sinn fulltrúa, sem er með sérþekkingu og gerir sitt besta til að tryggja barninu réttu þjónustuna af hálfu hins opinbera. Biðlistar eru í alla þessa þjónustu hjá borginni og einnig hjá stofnunum ríkisins er það því miður svartur blettur á öllu því góða sem þó er verið að gera. Þá verður með hinum 2 frumvörpunum stofnað: Barna og fjölskyldustofa sem mun m.a. fræða stjórnvöld, gefa út leiðbeiningar og gátlista til þeirra, þróa nýjar aðferðir og úrræði í þágu barna. Allt mjög jákvætt.

  Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri, Sigrún Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri, Helga Jóna Benediktsdóttir, lögfræðingur, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og Unnur Halldórsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 15. Fram fer kynning á verklokum neyðarstjórnar vegna Covid-19.

  Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Velferðarráð þakkar neyðarstjórn velferðarsviðs vegna Covid-19 kærlega fyrir vel unnin störf. Neyðarstjórnin á lof skilið fyrir frábær vinnubrögð í þessu óvenjulega og flókna verkefni. Verkefnið hefur verið unnið af mikilli yfirvegun og fagmennsku undir miklu álagi frá upphafi til enda.

  Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri, Katrín Helga Hallgrímsdóttir, skrifstofustjóri, Sigrún Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri, Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri, Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri, Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, framkvæmdastjóri, Unnur Halldórsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri, Lilja Petra Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri, Arne Friðrik Karlsson, verkefnisstjóri, Ólafía Magnea Hinriksdóttir, forstöðumaður, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, Sóley Ösp Vilhjálmsdóttir, hjúkrunarstjóri, Hrefna Guðmundsdóttir, hjúkrunarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

 16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra, dags. 16. júní 2020, þar sem kemur fram að Egill Þór Jónsson taki sæti í velferðarráði í stað Arnar Þórðarsonar og jafnframt að Örn Þórðarson taki sæti sem varamaður í ráðinu.

 17. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu: 

  Tillaga Flokks fólksins um að auka gegnsæi þjónustu Þjónustumiðstöðva Reykjavíkur og auka upplýsingaflæði og fræðslu til foreldra. Í samtali fulltrúa Flokks fólksins við foreldra hefur komið í ljós að gegnsæi á þjónustu þjónustumiðstöðva er ábótavant. Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Foreldrar barna með námsörðugleika ásamt foreldrum fatlaðra barna hafa kvartað yfir þessu vandamáli. Þetta er m.a. ástæða þess að árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um gerð upplýsingabæklings og í þeim bæklingi kæmi skýrt fram hvaða þjónusta er í boði hjá borginni. Upplýsingar um þjónustu verður að vera gagnsærri og aðgengilegri. Það gæti verið afar hjálplegt ef útbúinn yrði bæklingur fyrir hvern skóla fyrir sig sem útskýrir á einfaldan og skýran hátt birtingarmyndir helstu námsörðugleika, réttindi barna í skólanum, hvaða samtaka hægt er að leita til og hverjar eru áherslur þeirra. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram hvað þjónustumiðstöðvar bjóða upp á, hvernig má hafa samband við þær og hversu langur biðtími er eftir hverri þjónustu fyrir sig. Upplýsingar verða jafnframt að vera aðgengilegar á einfaldan máta á netinu. Fyrir þá sem ekki nota netið þarf viðkomandi að geta náð símasambandi við félagsráðgjafa samdægurs til að bóka upplýsingaviðtal.
  Frestað. 

 18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Í Covid-19 aðstæðunum stóð velferðarsvið fyrir úthringingum til allra Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið var samstarfsverkefni Landssambands eldri borgara (LEB) og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis ásamt Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. Markmiðið var að veita félagslegan og sálrænan stuðning á þessum erfiða tíma og sporna við einangrun meðal eldri borgara. Í ljósi þess að verkefnið skilaði tilætluðum árangri leggur fulltrúi Flokks fólksins til að því verði framhaldið með eða án samstarfs við LEB eða Félags eldri borgara í Reykjavík. Mikilvægt er að mati fulltrúa Flokks fólksins að halda áfram því sem gengur vel, útvíkka verkefnið og þróa það áfram og umfram allt að gera það að föstu verkefni til framtíðar. Þeir eldri borgarar sem ekki vildu símtal eða símavin núna gætu t.d. viljað síðar og mikilvægt er að stækka þann hóp sem hringt er í. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst oft heilmikill lærdómur.
  Frestað. 

 19. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Í Covid-19 aðstæðunum voru ráðnir námsmenn til þess að auka þjónustu við eldri borgara. Ráðið var í 63 stöðugildi námsmanna vegna eldri borgara og var ráðningatímabilið 2 mánuðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að framhald verði á ráðningu námsmanna. Hér er um beggja hag að ræða. Eldri borgarar fá þjónustu sem ekki hefur alltaf verið fullnægjandi og jafnvel ekki viðunandi oft vegna manneklu og námsmenn fá dýrmæta reynslu við störf sín með eldri borgurum ýmist við aðhlynningarstörf eða félags- og tómstundastörf. Þetta fyrirkomulag ætti að vera komið til að vera.
  Frestað.

 20. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sett verði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn velferðarþjónustu/þjónustumiðstöðva yfirgefi ekki vinnustaðinn í lok dags fyrr en þeir eru búnir að svara með einum eða öðrum hætti innkomnum erindum (skeytum/skilaboðum) sem borist hafa. Vissulega gætu komið dagar sem þetta er ekki hægt en í það minnsta muni starfsmenn leitast við af öllum mætti að gera þetta. Hér er ekki átt við að öll erindi fái fullnaðarafgreiðslur enda slíkt ekki raunhæft heldur að þeim sem sent hafa skeyti eða skilaboð verði svarað sem dæmi: „erindið er móttekið/málið er í skoðun/ haft verður samband hið fyrsta“, eða eitthvað á þessa leið. Fólk sem hringir á þjónustumiðstöðvar er með ákveðin erindi, misáríðandi eins og gengur. Í flóknari málum skilja flestir að afgreiðsla getur tekið einhvern tíma. Hins vegar skiptir það máli að fá vitneskju um að erindi þeirra er móttekið og haft verði samband. Þær upplýsingar hjálpa. Við sem erum í þjónustustörfum eigum ávallt að gera allt til að létta skjólstæðingum okkar lífið, milda álag og draga úr streitu og kvíða. Móttökuskeyti getur skipt þjónustuþega þjónustumiðstöðva máli.
  Frestað.

 21. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Afhverju er ekki í boði fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks að kaupa árskort og önnur tímabilskort fyrir þjónustuna, líkt og við á um notendur Strætó bs.?

 22. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs jan-mars 2020 vöktu upp nokkrar spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins. Þær eru lagðar fram hér formlega:
  1. Þjónustumiðstöðvar voru 15 m.kr. umfram fjárheimildir sem rekja má til langtímaveikinda. Hér er óskað nánari skýringa? 2. Seljahlíð fer 68% fram yfir áætlun og er skýrt með því að þetta sé óhagstæð rekstrareining. Það geta ekki verið nýjar fréttir? Af hverju hefur þá ekki verið bætt úr því með því að búa til hagstæðustu rekstrareininguna sem völ er á? 3. Barnaverndarmálum hefur farið fjölgandi. Ætla má að gera megi tiltölulega nákvæmar áætlanir í þessum málaflokki. Málum hefur farið fjölgandi frá ári til árs og fer þeim klárlega ekki fækkandi. Hvernig stendur á því að áætlanir eru svo ónákvæmar sem raun ber vitni? 4. Heimaþjónusta er ítrekað innan fjárheimilda vegna manneklu. Af hverju hafa velferðaryfirvöld ekki leyst manneklumálin eins og þau lofuðu þegar þau skrifuðum undir meirihlutasáttmálann. Hvaða aðgerðir eru í gangi sem leysa á mannekluvanda til skemmri og lengri tíma?

  -    Kl. 17:03 víkur Aron Leví Beck af fundinum.