Fundur nr. 205

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 13. apríl, var haldinn 205. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst kl. 12.00.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Hildur Björnsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Bára Katrín Jóhannsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Fram fer kynning og umræða um Menntastefnumót skóla- og frístundasviðs sem fram fer 10. maí 2021. SFS2019110025 

  Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihlutinn þakkar fyrir góða kynningu á Menntastefnumótinu sem verður haldið 10. maí og verður eins konar uppskeruhátíð þess fjölbreytta þróunar- og nýsköpunarstarfs sem hefur blómstrað í skóla- og frístundastarfi borgarinnar undanfarin þrjú ár í tengslum við innleiðingu nýrrar menntastefnu. Fjölmörg verkefni verða kynnt og getur starfsfólk valið sér dagskrá sem hæfir hverjum og einum og verður dagskrárefnið aðgengilegt í hálft ár eftir viðburðinn. Markmið Menntastefnumótsins er að skapa vettvang til að koma á framfæri því magnaða skóla- og frístundastarfi sem er í gangi alla daga í borginni undir forystu öflugs starfsmannahóps í menntakerfi borgarinnar.

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. mars 2021: 

  Skóla- og frístundaráð skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að bregðast strax við þeim vanköntum sem er á prófakerfi samræmdu prófanna til að tryggja að hægt verði að leggja prófin fyrir hnökralaust framvegis. Jafnframt er lagt til að ríkið leggi fram nægt fjármagn þannig að tryggt verði að allir vankantar séu sniðnir af samræmdum prófum Menntamálastofnunar. Ekki verður við það unað að sífellt komi upp vandamál í samræmdum prófum hjá reykvískum grunnskólabörnum. Slíkt skemmir ekki bara fyrir nemendum, heldur hefur áhrif á allt skólastarf.

  Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar meirihlutans árétta að samræmdu prófunum 2021 hefur verið aflýst af menntamálaráðuneytinu. Fulltrúarnir óska hins vegar eftir að fá kynningu á niðurstöðum starfshóps á vegum ráðuneytisins um framtíðarskipulag samræmdra prófa.

  SFS2021030125 

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. febrúar 2021:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að öllum upplýsingum vegna úttekta er gerðar hafa verið á húsnæði leikskólans Laugasólar verði kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Eins þá muni fara fram kynning á þeim úttektum sem gerðar hafa verið á húsnæðinu á fundi skóla- og frístundaráðs.

  Samþykkt. SFS2021020075 

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 18. febrúar 2021, um stækkun og endurbætur á leikskólanum Laugasól. SFS2021020098 

  Ásdís Olga Sigurðardóttir og Elías Bjarnason taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar meirihlutans þakka fyrir kynningu á áætlun um framkvæmdir við leikskólann Laugasól. Þetta verkefni er mikilvægur liður í fjölgun leikskólarýma í borginni, sem er hluti af brúum bilið verkefninu, en líka hluti af almennri fjölgun á leikskólaplássum í borginni. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að tryggja að húsnæðið sé í góðu lagi og öruggt að gengið sé þannig frá að húsnæðið sé heilsusamlegt fyrir bæði börn og starfsfólk. Sú aðgerðaáætlun sem hér er kynnt er metnaðarfull og á að tryggja það.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks árétta að mikilvægt sé að allir hlutaðeigandi aðilar séu upplýstir um ástand skólahúsnæðis og fyrirhugaðar framkvæmdir eða viðgerðir séu kynntar án tafa, standi þær til. Kvartanir höfðu borist frá starfsfólki leikskólans Laugasól um skort á samtali og upplýsingagjöf. Þær kvartanir undirstrika hversu mikilvægt er að standa vel að þeim málum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að fara eigi í þær framkvæmdir og viðgerðar sem nú eru kynntar.

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar fyrirhugaðri stækkun leikskólans Laugasólar og endurbótum á húsnæði leikskólans. Tryggja þarf að í þessum umfangsmiklu framkvæmdum verði sem minnst röskun á leikskólastarfinu. Mikilvægt er einnig að börnin hafi gott aðgengi að útileiksvæði á meðan á framkvæmdum stendur og að öryggi leikskólalóðarinnar sé tryggt á framkvæmdatímanum.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. janúar 2021, um öryggi leiktækja. SFS2021030189 

  Ólafur Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  -    Kl. 13:05 víkur Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir af fundinum. 

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. mars 2021 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. apríl 2021:

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að skoðað verði hvort hægt verði að nýta Spennistöðina fyrir móttökudeild fyrir erlenda nemendur.

  Tillögunni er vísað frá. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2021030124

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 14. janúar 2021 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að gera breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Í nágrannasveitarfélögum er fyrirkomulagið í þessum efnum bæði betra og sanngjarnara, þá helst gagnvart einstæðum foreldrum, láglaunafólki og þeim sem mælast undir viðmiði velferðarráðuneytis, einstæðir eður ei. Lagt er til að foreldrar eða forráðamenn barna geti sótt um viðbótarniðurgreiðslu af almennu vistunargjaldi í samræmi við tekjuviðmið sem Reykjavík setur. Niðurgreiðslur gætu annars vegar verið 20% af almennu gjaldi og hins vegar 40%. Í tillögunni felst að til að öðlast rétt til viðbótarniðurgreiðslu sé horft til tekna foreldra, bæði einstaklinga og foreldra í sambúð, sem grundvallast á staðfestu staðgreiðsluyfirliti frá Ríkisskattstjóra síðustu þriggja mánaða. Tekjuviðmið eru reiknuð út frá launavísitölu. Einnig er lagt til að foreldrar með fleiri en eitt barn á sínu framfæri geti sótt um undanþágu frá tekjuviðmiðum ef ráðstöfunartekjur eru rétt fyrir ofan tekjumörk og félagslegar aðstæður viðkomandi eru þannig að rétt sé að meta þörf fyrir undanþágu. Þá skal horfa til fjölda barna í fjölskyldu og greiðslubyrði forsjáraðila vegna þessa. Niðurgreiðslukerfi vegna þjónustu dagforeldra hjá Reykjavíkurborg er lakara en hjá öðrum sveitarfélögum og er tímabært að skoða það með ofangreinda þætti í huga. 

  Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2021010118

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar yfirstandandi endurskoðun á gjaldskrá og niðurgreiðslum þjónustu skóla- og frístundasviðs. Brýnt er að samræmi sé á milli skólastiga í gjaldtöku og að foreldrar og forráðafólk þurfi ekki að bera aukinn kostnað af því að skortur er á leikskólaplássum á vegum borgarinnar. Ótækt er að foreldrar sem eignast börn á „vitlausum“ tíma árs þurfi að greiða hundruðum þúsunda meira vegna dagvistunar barna sinna þar sem börnin þurfa að vera lengur hjá dagforeldrum eða á einkareknum ungbarnaleikskólum þar sem mánaðargjöld eru 2-3 sinnum hærri en á leikskólum borgarinnar. Sérstaklega mikilvægt er að huga að foreldrum/forráðafólki í lágtekjuhópum og stuðningi við þá hópa.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 27. ágúst 2020 sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað. Nú eiga margir foreldrar um sárt að binda vegna COVID, margir hafa misst vinnuna. Ljóst er að skóla- og frístundayfirvöld ætla ekki að bjóða börnum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir á þessu kjörtímabili. Tillaga þess efnis hefur verið lögð a.m.k. tvisvar fram og hefur henni verið hafnað jafn oft. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Eins og fram kom í Fréttablaðinu 26.8 þá eru skólamáltíðir umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra. Reykjavík sem stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins getur ekki verið þekkt fyrir að gera ekki betur en önnur smærri sveitarfélög fyrir foreldra skólabarna og hvetur fulltrúi Flokks fólksins skóla- og frístundayfirvöld að skoða lækkun skólamáltíða af alvöru.

  Tillagan er felld. SFS2021040022

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á gæði skólamáltíða í grunnskólum Reykjavíkur. Lækkun gjalds fyrir skólamáltíðir mun ætíð koma niður á gæðum máltíða. Heilbrigt mataræði er meðal undirstöðuatriða fyrir lýðheilsu og heilbrigði grunnskólabarna í Reykjavík.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf formanna skóla- og frístundaráðs og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs til mennta- og menningarmálaráðherra um nauðsyn jafnréttismenntunar og vandaðs námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. SFS2021040016 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihlutinn leggur mikla áherslu á að efla og styrkja jafnréttisfræðslu í grunnskólum í samræmi við ákvæði jafnréttislaga eins og fram kom í tillögu á sameiginlegum fundi mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs og skóla- og frístundaráðs á síðastliðnu ári þar sem stigin voru skref í átt að aukinni jafnréttisfræðslu. Formenn þessara ráða hafa nú sent formlegt erindi til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem hvatt er til samstarfs ríkis og sveitarfélaga þar með talið borgarinnar um eflingu jafnréttisfræðslu í skólum og hvatning til rektora Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Listaháskóla Íslands um að auka vægi fræðslu um kynjafræði og jafnréttismál í menntun kennara m.a. með því að innleiða skylduáfanga um kynja- og jafnréttisfræðslu. Þá er hvatt til þess að Menntamálastofnun sem ber ábyrgð á gerð og miðlun námsefnis á landinu geri átak í að vinna nýtt og vandað námsefni fyrir öll aldursstig í jafnréttis– og kynjafræði og leiðbeiningar fyrir kennara. Reykjavíkurborg er tilbúin í gott samstarf við ráðuneyti og háskólana um markvissar aðgerðir til að auka hlut jafnréttisfræðslu í skólakerfinu enda um afar mikilvægan málaflokk að ræða.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. janúar 2021, um skólavist barna á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2020-2021 ásamt yfirliti yfir nemendafjölda eftir árgöngum í grunnskólum í Reykjavík skólaárið 2020-2021. SFS2021020018

  Fylgigögn

 11. Lögð fram embættisafgreiðsla sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. apríl 2021. Eitt mál. SFS2019020033 

  Fylgigögn

 12. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  -    Kl. 14.40 víkja Magnús Þór Jónsson, Ragnheiður Davíðsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Haraldur Sigurðsson af fundinum.

 13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er upplýsinga um áætlanir varðandi málefni Fossvogsskóla. Hvaða áform eru um viðgerðir á mygluvandamálum í Fossvogsskóla? Hafa áætlanir verið gerðar og tímasettar? Sömuleiðis er óskað upplýsinga um hvort gerðar hafa verið aðrar áætlanir um skólahald fyrir nemendur í Fossvogsskóla, gangi áform um viðgerðir ekki eftir. Og þá í hverju þær áætlanir felast. Munu þær áætlanir verða kynntar starfsfólki, nemendum og foreldrum þeirra um leið og þær liggja fyrir?

  SFS2018120034

 14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er upplýsinga um hvort eftirlitsaðilar, jafnt utanaðkomandi sem innan borgarkerfis, hafi lýst yfir áhuga á að rannsaka málefni Fossvogsskóla, framkvæmdir jafnt sem málsmeðferð og upplýsingagjöf til aðila sem málið hefur varðað? Hafa Reykjavíkurborg borist tilkynningar um slíkar rannsóknir. Ef svo er, hverjum hafa þær óskir borist og hvenær? Hver hefur verið málsmeðferð slíkra óska um rannsóknir, ef þær hafa verið settar í gang?

  SFS2018120034

Fundi slitið klukkan 14:48