Fundur nr. 200

Skóla- og frístundaráð

Ár 2021, 9. febrúar, var haldinn 200. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.42.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í fundarherberginu Hofi: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Örn Þórðarson (D). Auk hans eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir staðgengill sviðsstjóra, Eygló Traustadóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Geir Finnsson (C), Marta Guðjónsdóttir (D) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Albína Hulda Pálsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Brynjar Bragi Einarsson, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Ragnheiður Davíðsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt aðgerðaáætlun 2021-2024, dags. 4. febrúar 2021:

  Skóla- og frístundaráð leggur til aðgerðir til að bæta íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku. Fjármagn til íslenskukennslu þessa hóps í grunnskólum verður hækkað í 130 þúsund krónur á hvern nemanda að meðaltali en jafnframt verður aukin kennslufræðileg ráðgjöf og stuðningur Miðju máls og læsis við kennara og starfsfólk á vettvangi. Sérstök áhersla verði lögð á að bæta móttöku nýrra nemenda með annað móðurmál en íslensku með því að setja á fót tvö íslenskuver sem hafi það meginhlutverk að tryggja þessum nemendum markvissa íslenskukennslu á fyrstu mánuðum þeirra í reykvísku skólaumhverfi. Þá verður aukið vægi brúarsmiða til að styrkja tengsl nemenda og forráðamanna þeirra við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Loks verði auknu fjármagni varið í fjölmenningarlegt leikskólastarf. Alls verði varið til þessara aðgerða 143 m. kr. á ári næstu þrjú árin, eða 429 m. kr. í heild á tímabilinu.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2021020036

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ný aðgerðaáætlun í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku leggur áherslu á að efla til muna íslenskukunnáttu þessa hóps. Með henni er lögð rík áhersla á að jafna tækifæri þessara barna og jafnaldra þeirra til menntunar enda er íslenskufærni grundvallaratriði varðandi lýðræðislega þátttöku og jafnrétti í skóla- og frístundastarfi og samfélaginu öllu. Aðgerðirnar fela í sér aukið fé í íslenskukennslu í grunnskólum, markvissari íslenskukennslu barna sem koma ný inn í reykvíska grunnskóla, aukna kennslufræðilega ráðgjöf og stuðning við kennara í íslensku sem öðru tungumáli, fjölgun brúarsmiða sem sinna tengslum við foreldra og fjölskyldur barnanna og aukið framlag í fjölmenningarlegt leikskólastarf þar sem framlögin hafa næstum þrefaldast frá 2017. Framlög til íslenskukennslu hækka um tæpan helming eða 143 milljónir á ári næstu þrjú árin eða 429 milljónir króna alls.

  Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

  Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur fagna auknu fjármagni inn í það verkefni að bæta íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku, enda algerlega ljóst að lyfta þarf grettistaki í þeim málaflokki. Fulltrúar vilja árétta mikilvægi þess að fjármagnið rati inn í heimaskóla nemendanna og skólastjórnendur og kennarar þar verði í aðalhlutverki þegar kemur að vinnu með nemendunum. Miðja máls og læsis hefur sannað sig sem stuðningsaðili við skóla í málaflokknum en lykillinn að árangri liggur í þeim krafti sem felst í mannauði hvers skóla og því líka að þessir nemendur fái stuðning inn í sinn heimaskóla. 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna fagnar því að auka eigi stuðning við fjöltyngd börn strax á leikskólastigi enda leggur leikskóladvölin grunn að vellíðan barna og góðri skólagöngu síðar meir. Jákvætt er að lögð sé sérstök áhersla á góð samskipti við foreldra fjöltyngdra barna frá upphafi leikskólagöngu en stundum hefur brunnið við að foreldrar að erlendum uppruna hafi ekki aðgang að sömu upplýsingum um leikskólastarfið og foreldrar sem tala íslensku. Verkefnið leggur nokkra vinnu á starfsfólk leikskóla og tryggja þarf að þau hafi tíma og stuðning til að sinna þessum verkefnum vel.

  Dagbjört Ásbjörnsdóttir, Dröfn Rafnsdóttir, Saga Stephensen og Sabine Leskopf taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram skýrslan Menntastefna Reykjavíkur til 2030, staða innleiðingar, dags. í desember 2020. SFS2017010019 

  -    Kl. 14.08 víkur Geir Finnsson af fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga tekur þar sæti.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Menntastefna Reykjavíkur er mikilvægt siglingakort skólasamfélagsins í Reykjavík - hún var búin til af kennurum og öðru fagfólki í grunnskólum, leikskólum og frístundastarfinu og komu þúsundir að því verki. Nú er stefnan í innleiðingu og hyllir undir að fyrsta aðgerðaáætlun stefnunnar renni sitt skeið. Nýsköpunarmiðja menntamála hefur haldið afburða vel utan um innleiðingu stefnunnar í samvinnu við vettvanginn og með nýjum framtíðarhópi verða lagðar línur fyrir næstu aðgerðaáætlun. Þar þarf að tryggja að rödd barna og starfsfólks heyrist hátt og skýrt og áherslur næstu þriggja ára verði mótaðar í þéttu samstarfi starfsfólks, nemenda, foreldra, annarra haghafa og kjörinna fulltrúa rétt eins og stefnan sjálf á sínum tíma.

  Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hjörtur Ágústsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 

  Fylgigögn

 3. Fram fer umræða um öryggi barna í skóla- og frístundastarfi. SFS2019090277

  -    Kl. 14:50 víkur Soffía Vagnsdóttir af fundinum. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ábyrgð Reykjavíkurborgar á öryggi barna sem koma til náms, frístunda eða félagsstarfs á vegum stofnana hennar er mikil og ber að taka alvarlega. Það vekur óhug að upp hafa komið atvik þar sem það öryggi hefur ekki verið tryggt. Þó þarf að huga að því að öryggi getur aldrei verið algjört og það þarf að ná jafnvægi milli þess að tryggja öryggi barna, starfsfólks og annarra eins vel og hægt er, án þess að fara yfir mörk persónufrelsis og án þess að búa til þess háttar eftirlitssamfélag sem fæstum hugnast að búa í. Fulltrúar meirihlutans leggja áherslu á að skólar komi upp miðlægum gestainngangi og tryggt sé að aðrir en þeir sem eiga erindi séu ekki á ferð um hann á þessum tíma. Öryggismyndavélar ætti helst ekki að nýta nema í undantekningartilfellum, s.s. þegar um ítrekuð skemmdarverk er að ræða á sömu starfsstöð eða ítrekað ofbeldi eða ógn við öryggi barna og mikilvægt að þær séu notaðar í samræmi við reglur um persónuvernd.

  Ásgeir Þór Ásgeirsson, Þóra Jónasdóttir, Elín Agnes Kristínardóttir, Gísli Ólafsson, Sigríður Marteinsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.

 4. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2021, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá 199. fundi skóla- og frístundaráðs um breyttan opnunartíma leikskóla vegna Covid-19.

  Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 26. janúar 2021:

  Lagt er til að leikskólar Reykjavíkur færi þegar í stað opnunartíma sinn til fyrra horfs. Samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst sl. að breyta opnunartímanum þannig að leikskólar yrðu ekki opnir lengur en til kl. 16:30 í stað til kl. 17:00. Um var að ræða tímabundna ráðstöfun vegna Covid 19 og samþykktin átti að gilda til 31. desember 2020. Engin samþykkt er því lengur í gildi sem heimilar þennan breytta opnunartíma og því nauðsynlegt að breyta honum til fyrra horfs sem fyrst.

  Frestað. SFS2020080077

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 26. janúar 2021:

  Lagt er til að farið verði yfir uppfærða stöðu biðlista eftir leikskólarými á næsta reglulega fundi ráðsins og þær lagðar fram sundurgreindar eftir hverfum borgarinnar.

  Samþykkt. SFS2021010168

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Miðað er við það að öllum börnum sem orðin eru 18 mánaða 1. september ár hvert sé boðin leikskólavist. Eftir að börnum var boðin leikskólavist í september 2020 voru 19 börn á biðlista, en talið er að í flestum tilfellum sé um að ræða foreldra sem vildu bíða eftir tilteknum leikskóla. Síðan þá hefur bæst í hópinn, og voru 61 barn á biðlista í janúar 2021, en aukningin felst í nýjum umsóknum sem bárust eftir aðalinnritun í september. Þá ber að nefna að mikil aukning er á börnum sem fá leikskólavist fyrir 18 mánaða aldur á ungbarnadeildum, en mikil uppbygging er í gangi í borginni þar sem leikskólaplássum er fjölgað til að anna þeirri þörf og mæta aukinni þörf í þeim borgarhverfum þar sem fjölgun barnafjölskylda varð meiri en fyrirséð var, og er þar um að ræða nýjar deildir við leikskóla sem fyrir eru, ásamt kröftugri uppbyggingu nýrra leikskóla, svo sem Miðborgarleikskóla, við Kleppsveg, Safamýri og Kirkjusand.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ljóst er af þeim tölum sem hér eru lagðar fram að staða biðlista eftir leikskólarými er alvarleg og óásættanleg og brýnt að farið verði í átak í að stytta biðlista sem fyrst. Vandinn vex með hverjum mánuði en nú eru 737 börn 12 mánaða og eldri á biðlista og 61 barn 18 mánaða og eldri. Farið er að síga á seinnihluta kjörtímabilsins og ljóst að áætlanir um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hafa ekki gengið eftir þrátt fyrir loforð flokkanna fyrir kosningar og ákvæði þar um í meirihlutasáttmálanum. Ljóst er af stöðu biðlista að enn er langt í langt að hægt verði að efna loforð um að öllum börnum 12 mánaða og eldri verði tryggð leikskólavist.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. febrúar 2021, um stöðu biðlista eftir leikskóla. SFS2021010168

  -    Kl. 15.07 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

  Fylgigögn

 7. Lagðar fram embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. febrúar 2021. Tvö mál. SFS2019020033

  Fylgigögn

 8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. febrúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði um viðbrögð vegna kynþáttafordóma í skólum. SFS2021010083

  Fylgigögn

 9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. febrúar 2021, um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, um notkun fjarfundabúnaðar og fleira. SFS2020040074

  Fylgigögn

 10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir því að gerð verði myglu- og rakapróf í eftirfarandi skólum af óháðum aðilum. Mikilvægt er að foreldrar barna sem dvelja í eftirfarandi skólum verði síðan upplýstir um það hvort að myglu sé að finna í húsnæði skólanna. Eins væri gagnlegt að nálgast mætti upplýsingar um úttektir er gerðar hafa verið á húsnæði leik- og grunnskóla á heimasíðum skólanna. Myglu- og rakapróf verði gerð á eftirfarandi starfsstöðum: Breiðagerðisskóli, Réttarholtsskóli, Hvassaleitisskóli, Álftamýrarskóli og Laugalækjarskóli.

  Frestað. SFS2021020072

 11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkir að farið verði í þróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskólum borgarinnar til að efla lestur og bæta líðan barna með sérstaka áherslu á drengi. Um yrði að ræða sams konar þróunarverkefni og Vestmannaeyjabær hefur þegar ýtt úr vör þar sem megináherslan er á læsi, lestrarfærni, stærðfræði, náttúruvísindi og hreyfingu ásamt því að stundataflan er stokkuð upp. Helstu sérfræðingar á þessu sviði yrðu fengnir til að þróa og halda utan um verkefnið og veita faglega ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Tveir eða fleiri skólar gætu tekið þátt í verkefninu og gætu þeir skólar sem áhuga hafa á að taka að sér þróunarverkefnið sótt um og yrðu þeir skólar sem verða fyrir valinu valdir af sérfræðingum. Skóla- og frístundasviði verði falið að undirbúa og móta þróunarverkefnið í samráði við sérfræðinga og færi verkefnið af stað haustið 2021. Niðurstöður kannana sýna að lestrarfærni hefur hrakað mikið síðasta áratuginn. Síðast þegar lagt var fyrir lesskimunarpróf í öðrum bekk árið 2019 kom í ljós að 35-40% reykvískra nemenda gátu ekki lesið sér til gagns. Það er jafnframt óásættanleg staðreynd að um 39% drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskólans. Þessari stöðu verður að taka alvarlega því það er of seint að bregðast við í lok grunnskólans. Blása verður til sóknar til að snúa þessari óheillaþróun við. Þróunarverkefnið sem hér er lagt til að farið verði í gæti orðið mikilvægur liður í því. Tillagan sem hér er lögð fram er í framhaldi af tillögu okkar Sjálfstæðismanna í borgarstjórn frá 20. október á síðasta ári þar sem lagt var til að greina kynbundinn mun á námsárangri og fara í aðgerðir til að bæta stöðu drengja í skólakerfinu.

  Frestað. SFS2021020073

 12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Lagt er til að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista verði settar í mæliborð Reykjavíkurborgar. Þar komi fram aðgengilegar, sundurgreindar og auðskiljanlegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Þá er ennfremur lagt til að þessar upplýsingar verði uppfærðar um leið og breytingar verða. Markmiðið með tillögunni er að auðvelda foreldrum aðgengi að upplýsingum og gera stjórnsýsluna gagnsærri og skilvirkari. Slíkt fyrirkomulag sparar foreldrum mikla fyrirhöfn að afla sér upplýsinga innan úr kerfinu og dregur jafnframt úr álagi á leikskólana og leikskóladeild skóla- og frístundasviðs að veita upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista. Það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að tölulegar upplýsingar um jafn mikilvæga þjónustu við borgarbúa sem leikskólarnir eru séu opinberar og aðgengilegar á hverjum tíma þannig að foreldrar geti betur gert ráðstafanir og fylgst með stöðunni.

  Frestað. SFS2021020074

 13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að öllum upplýsingum vegna úttekta er gerðar hafa verið á húsnæði leikskólans Laugasólar verði kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki. Eins þá muni fara fram kynning á þeim úttektum sem gerðar hafa verið á húsnæðinu á fundi skóla- og frístundaráðs.

  Frestað. SFS2021020075

 14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um hvort að ekki sé fylgd fyrir börn frá frístundaheimilinu Neðstalandi í íþróttastarf á þeim tíma sem frístundaheimilið er opið.

  SFS2021020076

Fundi slitið klukkan 15:31