Fundur nr. 189

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 25. ágúst, var haldinn 189. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í borgarstjórnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 12.40.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í borgarstjórnarsalnum: Skúli Helgason formaður (S), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V) og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum.

Eygló Traustadóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lögð fram skýrslan Samstarf Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, skýrsla um fyrsta samstarfsárið, maí 2019 til maí 2020. SFS2019030056 

  Ester Ýr Jónsdóttir og Fríða Bjarney Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 12.55 tekur Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn þakkar fyrir afbragðskynningu á þeim árangri sem samstarfssamningur skóla og frístundasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands hefur skilað frá því hann var undirritaður fyrir hálfu öðru ári. Óhætt er að segja að samstarfið hafi borið ríkulegan ávöxt með áherslu á fjölbreytta starfsþróun fyrir kennara og annað starfsfólk sviðsins, með áherslu á fræðslu, leiðsögn, námskeið og rannsóknir sem komið hafa báðum aðilum til góða. Samstarfið er liður í þeirri almennu aðgerð Menntastefnu Reykjavíkur að fjölga fagmenntuðu starfsfólki í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með áherslu á öflugt kynningarstarf og fjölbreyttar aðgerðir sem hvetja fólk til að starfa í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi. Meginmarkmið með samstarfinu er að byggja upp lærdómssamfélag, samstarf, teymishugsun og hringferli stöðugra umbóta og þróunar. Við væntum mikils af samstarfinu á komandi árum og fögnum því sérstaklega að aðsókn í sumarsmiðjur grunnskólakennara hefur aldrei verið meiri en í ár. Stærsti ávinningurinn liggur svo í þeirri miklu fjölgun nemenda í leikskóla- og grunnskólakennaranám sem orðið hefur á allra síðustu misserum. Umsóknum til Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2020-2021 fjölgar um 72% í leikskólakennaranám, 74% í kennaranám yngstu barna, 68% í kennslu list- og verkgreina og svo mætti áfram telja.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram skýrslan Ytra mat í frístundastarfi, frístundaheimilið Kastali, dags. í janúar 2020. SFS2015060052 

  Sigrún Harpa Magnúsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna: 

  Lagt er til að tekið verði upp reglubundið samráð skóla- og frístundaráðs við fulltrúa hagsmunasamtaka dagforeldra í Reykjavík, tónlistarskóla í Reykjavík, skólahljómsveita í Reykjavík og samtök sjálfstæðra skóla. Samráðið fari fram tvisvar á ári á ráðsfundum eða sérstökum fundum, þar sem málefni þessara hagsmunaaðila verði tekin til umfjöllunar. 

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. SFS2020080157 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar meirihlutans telja virkt samtal við helstu hagsmunaaðila skóla- og frístundasviðs afar mikilvægt. Hagsmunasamtök dagforeldra í Reykjavík, tónlistarskóla í Reykjavík og samtök sjálfstæðra skóla eru í viðamiklu samstarfi við sviðið og því þarf að viðhalda eftir bestu getu og bregðast við samfélagslegum breytingum þá og þegar. Eins er starf skólahljómsveita borgarinnar mikilvægt og nauðsynlegt að efla samtal við þau sem því sinna. Þegar er mikið og formgert samstarf við skólastjóra og kennara í grunnskólum borgarinnar, leikskólastjóra og starfsmenn borgarrekinna leikskóla, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva, ungmennaráð og foreldra í Reykjavík. Það er okkar sýn og von um að regluleg innkoma á ráðsfundi muni skipta sköpum fyrir þau ótal verkefni sem liggja fyrir og hafi jákvæð áhrif á þau börn og ungmenni sem tilheyra málaflokknum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er í samræmi við tillögur sem við Sjálfstæðismenn höfum lagt fram áður, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta, því fögnum við að aukið samráð verði tekið upp nú við sjálfstæða skóla og aðra sjálfstæða aðila sem sinna menntun og uppeldi barna í borginni.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt bréfi KFUM og KFUK, dags. 24. apríl 2020:

  Með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er ákvörðun skóla- og frístundaráðs frá 5. apríl 2017 og borgarráðs frá 27. apríl 2017 afturkölluð en þar var vegna fyrirhugaðrar stækkunar samþykkt að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilað yrði að greiða framlag vegna gæti orðið 155 í stað 95 frá 1. september 2018 í leikskólanum Vinagarði sem rekinn er af KFUM og K. Gerður var fyrirvari um að Vinagarður fái útgefið rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunar leikskólans. Ástæða framangreinds er sú að KFUM og K hafa fallið frá stækkun leikskólans.

  Greinargerð fylgir. 
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020080179

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Staðan er sú að KFUM/K hefur hætt við fyrirætlaða stækkun og því eðlilegt að heimildin til fjölgunar verði felld út, enda fyrirséð að án umræddrar stækkunar mun skólinn ekki geta sinnt þeim fjölda sem samþykktur var með fyrirvara.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 18. ágúst 2020:

  Á fundi skóla- og frístundaráðs 9. júní sl. óskuðu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir stöðu ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Svar við fyrirspurninni var lagt fram á fundi ráðsins 25. júní sl. Samkvæmt því svari kom fram að enn eitt árið virtist stefna í manneklu á leikskólum borgarinnar þar sem eftir var að ráða í fleiri stöður þar en á sama tíma og í fyrra eða í 115,2 stöðugildi og enn átti eftir að ráða í 67 stöðugildi í grunnskólunum. Fram kom í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að bregðast þyrfti strax við þessari stöðu áður en skólastarf hæfist í ágúst. Það vekur furðu að þegar örfáir dagar eru í skólabyrjun að upplýsingar liggi ekki fyrir um hvort búið sé að fullmanna umræddar stöður og að málið sé ekki til umfjöllunar á fyrsta fundi skóla- og frístundaráðs eftir sumarleyfi. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska því eftir að staða ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar liggi fyrir og verði á dagskrá á næsta fundar skóla- og frístundaráðs 25. ágúst nk.

  Samþykkt. SFS2020050139

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Enn eitt haustið blasir við mannekla á leikskólum og frístundaheimilum og enn hefur ekki verið ráðið í allar stöður í grunnskólum. Á frístundaheimilin og sértækar frístundamiðstöðvar vantar að ráða í 62,3 stöður þar af í 18,2 stöður með fötluðum börnum og ungmennum. Ekki liggur fyrir hversu mörg börn eru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilin og hvað mörg börn hafa ekkert pláss sem skapar vanda margra fjölskyldna og þurfa foreldrar því að standa í alls konar reddingum eða taka börnin með sér í vinnuna. Í leikskólunum á svo enn eftir að ráða í yfir 75,7 stöður en sú tala miðast eingöngu við þau börn sem þegar hafa fengið pláss þannig að talan er hærri ef miðað er við þau börn sem eftir á að taka inn. Athygli vekur að staða ráðninga í leikskóla var betri á sama tíma í fyrra en þá var staðan sú að það vantaði í 60,2 stöðugildi á leikskólunum. Brýnt er að leitað verði allra leiða til að manna þessar stöður sem fyrst.

  Fylgigögn

 6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. ágúst 2020, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 20. ágúst 2020. SFS2020050139

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Staða mönnunarmála sýnir að rétt eins og undanfarin ár þarf að fylla lausar stöður í upphafi skólaársins, þrátt fyrir aukið atvinnuleysi. Búið er að ráða í tæplega 95% stöðugilda í leikskólum, 98% í grunnskólum og 80% í frístundastarfinu. Tölurnar breytast reyndar hratt milli vikna og t.d. náðist verulegur árangur í ráðningum í frístundastarfið milli vikna þar sem staðan er nú betri en undanfarin tvö ár. Staða ráðninga í leikskólum er lakari en í fyrra en betri en fyrir tveimur árum. Þar þarf að nýta allar leiðir til að aðstoða stjórnendur við ráðningar og einbeita sér að þeim leikskólum sem eiga lengst í land með að fylla lausar stöður. Athyglisvert er að stór hluti lausra starfa í leikskólum er að finna í einungis þremur leikskólum sem munu fá sérstakan stuðning mannauðsskrifstofu sviðsins. Meirihlutinn mun beita sér fyrir því að málið verði tekið fyrir í stýrihópnum um framtíðarskipan leikskólastarfs sem verði falið að leggja fram hugmyndir og ábendingar um frekari úrræði við fyrsta tækifæri.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júní 2020, um leyfi til daggæslu barna í Reykjavík árið 2019. SFS2019050083

  Fylgigögn

 8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. ágúst 2020, um eftirlit með daggæslu barna í heimahúsum árið 2019. SFS2019050082 

  Fylgigögn

 9. Lögð fram embættisafgreiðsla sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2020. Eitt mál. SFS2019020033

  Fylgigögn

 10. Fram fer umræða um stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. SFS2020080228

  -    Kl. 15.30 víkja Anna Metta Norðdahl, Magnús Þór Jónsson og Sigríður Björk Einarsdóttir af fundinum.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að gott samráð sé við foreldra og starfsfólk Gullborgar vegna framkvæmda við skólann þar sem þær muni fara fram á starfstíma skólans. Heppilegra hefði verið að framkvæmdir hefðu átt sér stað á sumarleyfistíma barna og starfsfólks. Brýnt er að fundin verði lausn sem fyrst til að finna bráðabirgðahúsnæði meðan framkvæmdir standa yfir svo hægt sé að taka inn þau 17 börn sem lofað var leikskólaplássi í haust.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Unnið er að lausn á húsnæðismálum leikskólans Gullborgar svo standa megi við gefin fyrirheit um inntöku nýrra barna í leikskólann. Það er grundvallaratriði að boð sem foreldrar hafa fengið um inntöku barna þeirra verði efnd og allir leggist á eitt við að finna lausn sem tryggir það. Mikilvægt er að hafa í huga að það myndi ekki leysa vandann að setja niður færanlegar stofur því undirbúningur slíkra framkvæmda myndi taka marga mánuði, vegna útboðsmála, tenginga o.s.frv.

 11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að búinn verði til skýr verklagsferill komi upp kórónuveirusmit innan grunnskóla, leikskóla, frístundaheimila og frístundamiðstöðva borgarinnar. Verklagsferillinn taki mið af því að komi upp Kórónuveirusmit á starfstöðvum skóla- og frístundasviðs verði skóla- og frístundaráð upplýst hið fyrsta og haft með í ráðum varðandi ákvarðanir í tengslum við aðgerðir sem teknar verða þá í samráði við sóttvarnarlækni og yfirmenn þeirra starfstöðva þar sem smit kemur upp. Þá verði starfsmenn og foreldrar upplýstir strax. Sviðsstjóra verði falið að framfylgja ákvörðunum ráðsins, eins og fram kemur í 6. gr. samþykktar fyrir skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar.

  Frestað. SFS2020080229

 12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að kostnaðarmat verði fengið vegna kaupa á hugbúnaði og vélbúnaði handa öllum kennurum sem starfa hjá Reykjavíkurborg og ekki hafa viðeigandi hugbúnað og vélbúnað til þess að sinna starfi sínu utan skólanna.

  Frestað. SFS2020080230

 13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja það til að skólaakstur verði fyrir börn úr Staðahverfi í Grafarvogi eftir að frístund líkur þar sem ekki hafa verið gerðar nauðsynlegar úrbætur á umferðaröryggi.

  Frestað. SFS2020080114

 14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að næsta úttekt sem gerð verður 3. september á stöðu ráðningarmála í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og sértækum frístundaheimilum verði send ráðsmönnum til upplýsingar og rædd á næsta fundi skóla- og frístundaráðs. Þá er jafnframt óskað eftir að uppfærð staða biðlista á frístundaheimili verði lögð fram og send ráðsmönnum og tekin fyrir á næsta fundi skóla- og frístundaráðs.

  Frestað. SFS2020050139

 15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði að framkvæmdum og endurbótum við leikskólann Gullborg í samráði við fulltrúa starfsfólks og foreldra. Þá er jafnframt lagt til að foreldrar barna við leikskólann verði upplýstir hið fyrsta um verkáætlanir og tímasetningar á framkvæmdum.

  Frestað. SFS2020080231

 16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að komið verði fyrir færanlegum kennslustofum á lóð leikskólans Gullborgar til að brúa bilið á meðan framkvæmdir við skólann standa yfir til að hægt verði að taka inn þau börn sem hafa fengið vilyrði fyrir leikskólaplássi og áttu að hefja aðlögun nú í haust.

  Frestað. SFS2020080231

 17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Til stóð að fara í framkvæmdir við húsnæði leikskólans Gullborgar í sumar sem ekki varð af heldur var þeim frestað fram á haust. Hver er ástæða þess að ekki var farið í framkvæmdir í júlímánuði þegar skólinn var lokaður vegna sumarleyfa?

  SFS2020080231

 18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Boðað hefur verið að frístund verði lengd í þeim skólum þar sem ekki er hægt að hefja skólahald á tilsettum tíma vegna Kórónuveirusmits. Hvað verður boðið upp á marga tíma á dag á frístundaheimilum og verður öllum börnum boðið upp á þetta úrræði, líka þeim sem ekki eru skráð á frístundaheimili?

  SFS2020080232

 19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Er til formlegt aðgerðarplan um það hvernig staðið verði að kennslu og námi grunnskólanema í Reykjavík ef til lokunar skóla eða skerts skólahalds kemur vegna Kórónuveirusmits? 

  SFS2020080233

 20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hversu mörg börn eru enn á biðlista eftir leikskólaplássi og geta ekki hafið leikskólavist í haust?

  SFS2020080234

 21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hversu mörg börn eru í hverjum árgangi í Engjaskóla og Borgaskóla. Hversu mörg eru stöðugildi umsjónarkennara sem annast hvern árgang og hversu mörg stöðugildi stuðningsfulltrúa eru til aðstoðar í hverjum árgangi. 

  SFS2020080235

 22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um tækjakost barna og kennara í þremur nýjum skólum í norðanverðum Grafarvogi. Hafa kennarar til afnota nýjar fartölvur til þess að sinna sínum störfum staðbundið eða óstaðbundið? Hafa kennarar fengið þjálfun vegna fjarfunda? Hafa nemendur sinn Ipad til afnota? Hversu mörgum nýlegum borðtölvum hafa nemendur aðgang að í tölvuverum/bókasöfnum? Er skipulagt tölvu/margmiðlunarnám á stundaskrá allra árganga, ef svo er hvað eru það margir tímar á nemenda? Óskað er eftir svörum við þessum spurningum verði greind niður á skóla.

  SFS2020080236

Fundi slitið klukkan 15:49