Fundur nr. 188

Skóla- og frístundaráð

Ár 2020, 18. ágúst, var haldinn 188. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í borgarstjórnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 12.36.

Eftirtaldir voru komnir til fundar í borgarstjórnarsalnum: Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Diljá Ámundadóttir Zoëga (C), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Guðmundur G. Guðbjörnsson og Stefán Geir Hermannsson.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 
 1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 16. júní 2020, um að Örn Þórðarson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Egils Þórs Jónssonar. Jafnframt að Egill taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Arnar. SFS2019060216

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. ágúst 2020, um samþykkt tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi, notkun fjarfundabúnaðar. SFS2020040074

  Fylgigögn

 3. Fram fer umræða um skóla- og frístundastarf á tímum Covid-19. SFS2020010206 

  -    Kl. 12:51 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

  Áheyrnarfulltrúar kennara og skólastjóra í grunnskólum leggja fram samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara og félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, dags. 10. júlí 2020 og jafnframt svohljóðandi tillögu: 

  Skóla- og frístundaráð lýsir ánægju sinni með þann mikilvæga áfanga sem náðst hefur í kjarasamningsgerð við Félag Grunnskólakennara þann 10.07. 2020. Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara endurnýjuðu þá viðræðuáætlun milli aðila. Með viðræðuáætluninni fylgir eftirfarandi bókun sem aðilar vilja vekja sérstaka athygli á. Innleiðing bókunarinnar nú í skólabyrjun í skólum borgarinnar er afar mikilvæg. Á þessu hausti er skólastarf að hefjast við krefjandi aðstæður í skugga Covid-19 faraldurs og því mikilvægt að nýta þann sveigjanleika sem kjarasamningur aðila inniheldur til að halda uppi venjubundnu skóla- og frístundastarfi þar sem heilbrigði og öryggi barna og starfsmanna er í forgangi.

  Bókun með viðræðuáætlun 10. júlí 2020
  Sveigjanlegt vinnuumhverfi

  Samningsaðilar eru sammála um mikilvægi þess að sá gagnkvæmi sveigjanleiki sem kjarasamningurinn inniheldur um vinnuskil kennara bæði í tíma og til vinnu utan vinnustaðar sé nýttur til fullnustu þegar því er viðkomið í samræmi við framkvæmd skólastarfs. Bætt tækni í fjarvinnu og fjarkennslu hefur gerbreytt möguleikum til aukins sveigjanleika í störfum kennara og skapað ný tækifæri í skipulagi skólastarfs. Svigrúmið sem þetta veitir stuðlar einnig að auknu samræmi á milli vinnu og einkalífs og að bættri vinnustaðamenningu. Skólastjóri ákveður vinnutíma kennara samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningi. Samningsaðilar eru sammála um að sveigjanlegt vinnuumhverfi er forsenda þess að kennarar eins og aðrir þekkingarstarfsmenn geti mætt og aðlagað sig að þeim fjölbreyttu skyldum, kröfum og aðstæðum sem þeim mæta. Við gerð vinnuskýrslu sem gera skal í upphafi hvers skólaárs samkvæmt gr. 2.1.6.1 skal skipuleggja vinnu hvers kennara með framangreint að leiðarljósi og aðgreina staðbundin og óstaðbundin verkefni kennara. Um breytingar á vinnuskýrslu fer samkvæmt gr. 2.1.6.1.

  Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela „Samráðshóp um innleiðingu kjarasamnings SÍS og KÍ vegna KÍ í grunnskólum borgarinnar“ frá sept 2018 það verkefni að fylgja eftir framkvæmd bókunarinnar í skólum Reykjavíkur.

  Frestað. 

  -    Kl. 13:03 tekur Þórunn Steindórsdóttir sæti á fundinum. 

  Áheyrnarfulltrúar kennara í grunnskólum og skólastjóra í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

  Skólaárið sem nú fer í hönd mun án vafa markast af því að skólastarf þarf að taka tillit til sóttvarna vegna Covid19-farsóttarinnar. Grunnskólar borgarinnar undirbúa nú skólastarfið í ljósi áherslna sóttvarnarlæknis um mikilvægi skólastarfs fyrir íslenskt samfélag og samkvæmt leiðbeiningum sem koma til skólanna frá skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Starfsmenn skólanna leggja metnað sinn í það að leysa verkefnið með sóma og eru að skipuleggja viðbrögð við ólíkum sviðsmyndum sem upp kunna að koma í starfinu vegna þessa. Fulltrúarnir vilja sérstaklega hvetja kjörna fulltrúa ráðsins að beita sér fyrir framkvæmd á samþykkt borgarráðs frá í vor þar sem áréttað var mikilvægi þess að bæta sérstaklega þann aðbúnað sem snýr að fjarvinnu og fjarnámi í grunnskólum borgarinnar. Það er lykilatriði fyrir skólastarf að hægt sé að nýta tæknilausnir í þeim raunveruleika sem nú er uppi í skólastarfi og er um leið mikið tækifæri til að þróa og efla skólastarf í borginni. 

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er einbeittur ásetningur Reykjavíkurborgar að halda úti faglegu og vönduðu skóla- og frístundastarfi í leikskólum, grunnskólum og frístund á komandi skólaári þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Að sjálfsögðu vinnum við í samræmi við fyrirmæli sóttvarnaryfirvalda og í góðu samstarfi við önnur stjórnvöld þar sem allir fylgja sömu stefnu. Það er gott að heyra og sjá að fagfólk sviðsins á vettvangi og aðalskrifstofu er vel undir það búið að mæta þeim kringumstæðum sem skapast hafa vegna faraldursins og allir eru viðbúnir því að þurfa að grípa til ráðstafana þegar og ef aðstæður breytast.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. ágúst 2020: 

  Vegna aðstæðna er varða Covid-19 er lagt til að samþykkt verði að til 31. desember 2020 verði almennur opnunartími leikskóla Reykjavíkurborgar frá kl. 07:30 til 16:30. 

  Greinargerð fylgir.
  Frestað. SFS2020080077

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

  Í ljósi þess að skipulag leikskólastarfs þarf að fara fram með breyttum hætti vegna Covid 19 er lagt til að gerðar verði ráðstafanir til að mæta þörfum þeirra foreldra sem þurfa nauðsynlega á leikskólaþjónustu að halda til kl. 17:00. Sviðsstjóra verði því falið, í samráði við leikskólastjórnendur, að koma með tillögur um hvernig megi tryggja fulla þjónustu fyrir þá foreldra sem nauðsynlega þurfa á að halda. Tillögum verði skilað svo fljótt sem verða má, enda áríðandi að hægt verði að skipuleggja skólastarf og skólasókn leikskólabarna í byrjun skólaárs.

  Frestað.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram á fundi borgarráðs 23. janúar 2020, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. júní 2020, um tillöguna: 

  Flokkur fólksins var nýlega með tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg gefi grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf væri borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Einstaklingur með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr þegar það lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskinsmerki. Tillagan var felld. Flokkur fólksins leggur til í framhaldinu að skóla- og frístundaráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Öryggi barna í umferðinni er víða ábótavant í borginni og kemur m.a. til vegna þess að skipulagsyfirvöld vilja ekki lagfæra umferðaragnúa þar sem þeir eru verstir og skapa mögulega slysahættu. Sem dæmi mætti öryggi með bættari ljósastýringu og fjölgun göngubrúa þar sem þeim verður við komið. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engan veginn verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar umferðar ásamt fjölgun íbúa. Það þolir enga bið að hugað verði að velferð gangandi vegfarenda. Börnin eru í sérstakri hættu, þau sjást verr og skynjun þeirra á umhverfinu ekki fullmótuð.

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

  Lagt er til að sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs verði falið að senda hvatningu til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í upphafi nýs skólaárs til að minna á mikilvægi fræðslu til barna um umferðaröryggi og notkun endurskinsmerkja í því samhengi. Sérstaklega verði hvatt til samstarfs við foreldra og forráðamenn um aukna notkun barna og ungmenna á endurskinsmerkjum.

  Greinargerð fylgir.
  Samþykkt. SFS2020010170

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um að ræða breytingartillögu við tillögu Flokks fólksins. Þar sem í upprunalega tillögutextanum eru athugasemdir um núverandi stöðu fræðslu sem ekki er hægt að taka undir felst breytingartillagan í því að undirstrika fyrst og fremst þær aðgerðir sem lagt er til að ráðast í. Efnislega er lagt til að samþykkja aðgerðirnar óbreyttar en Flokkur fólksins á ekki sæti í skóla- og frístundaráði og getur því ekki staðið að breytingartillögum í ráðinu samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 10. september 2019 ásamt minnisblaði Miðstöðvar útivistar og útináms, dags. 8. júní 2020, um tillöguna:

  Lagt er til að könnun verði gerð á notkun útikennslustofa í borginni með það að markmiði að hægt verði að nýta þær betur. Kortlagning þeirra verði nýtt til að hvetja til frekari notkunar þeirra og til samnýtingar milli hverfa, skóla og leikskóla. Þannig gefst tækifæri fyrir fleiri skóla, leikskóla og frístundaheimili að nýta útikennslustofurnar enda er útinám hluti af aðalnámskrá.

  Samþykkt. SFS2019090103

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ánægjulegt er að sameiginlegur vilji er í skóla- og frístundaráði um aukna áherslu á útinám og betri nýtingu á útikennslustofum. Til að ná því markmiði er mikilvægt að hvetja til frekari notkunar og samnýtingar á útikennslustofum milli hverfa, skóla og leikskóla. Þannig gefst tækifæri fyrir fleiri skóla, leikskóla og frístundaheimili að nýta útikennslustofurnar enda er útinám hluti af aðalnámskrá.

  Fylgigögn

 7. Fram fer kynning á úttektum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á lóðum skóla og frístundastarfs árið 2019. SFS2020020124 

  Rósa Magnúsdóttir, Helgi Guðjónsson, Ástrún Eva Sívertsen og Rán Sturlaugsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ljóst er að hætta getur skapast af viðhaldsleysi á leiktækjum og girðingum á leik- og grunnskólalóðum. Til að tryggja öryggi barna og koma í veg fyrir slys er mikilvægt að brugðist sé hratt við athugasemdum í stað þess að fresta viðhaldi og það látið bíða þar til leiksvæði eru endurnýjuð í heild sinni. Ljóst er að viðhald mætti vera meira fyrirbyggjandi og stöðugra.

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihlutinn þakkar fyrir ítarlega og góða kynningu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á úttekt á lóðum og leiktækjum skóla og frístundastarfs í borginni. Það kom fram í kynningunni að heilt yfir sé staðan ágæt, margar lóðir hafa verið endurnýjaðar og bættar á liðnum árum og alvarlegum athugasemdum varðandi leikskólalóðir og tæki hefur t.d. fækkað á undanförnum tveimur árum. Þó þarf að gæta betur að ástandi leikvallatækja í grunnskólum og stefna að því að auka fyrirbyggjandi viðhald.

 8. Lagður fram samstarfssamningur skóla- og frístundasviðs og samtakanna Móðurmáls ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. ágúst 2020.

  Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS2020080079

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samtökin Móðurmál halda uppi afar mikilvægu starfi við móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Samtökin hafa um árabil boðið upp á kennslu um helgar í sjálfboðastarfi og hefur Reykjavíkurborg útvegað húsnæði til kennslunnar og styrkt uppbyggingu bókasafns samtakanna samkvæmt samningi þar um. Slíkur samningur er nú endurnýjaður og er vilji til þess að styrkja enn frekar samstarfið á komandi árum.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júní 2020, um nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs 2020. SFS2020050075

  Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Eitt skemmtilegasta verkefni hvers árs er að veita nemendaverðlaun þeim einstaklingum sem þykja hafa skarað fram úr í námi, félagsstarfi eða með öðrum hætti í grunnskólum borgarinnar. Framtakið er liður í því að hrósa fyrir það sem vel er gert, hvetja til dáða og draga fram jákvæðar fyrirmyndir fyrir aðra nemendur.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 31. október 2019 um vinnuhóp um málefni erlendra starfsmanna og erlendra barna í leikskólum. SFS2019110046

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins frá fundi borgarráðs 29. ágúst 2019, um leikskólamál í Úlfarsárdal. SFS2019090006

  Fylgigögn

 12. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum, frá 179. fundi skóla- og frístundaráðs, um skólaráð í grunnskólum. SFS2020020042

  Fylgigögn

 13. Lagðar fram embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2020. Sjö mál. SFS2019020033

  Fylgigögn

 14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Á fundi skóla- og frístundaráðs 9. júní sl. óskuðu skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir stöðu ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Svar við fyrirspurninni var lagt fram á fundi ráðsins 25. júní sl. Samkvæmt því svari kom fram að enn eitt árið virtist stefna í manneklu á leikskólum borgarinnar þar sem eftir var að ráða í fleiri stöður þar en á sama tíma og í fyrra eða í 115,2 stöðugildi og enn átti eftir að ráða í 67 stöðugildi í grunnskólunum. Fram kom í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að bregðast þyrfti strax við þessari stöðu áður en skólastarf hæfist í ágúst. Það vekur furðu að þegar örfáir dagar eru í skólabyrjun að upplýsingar liggi ekki fyrir um hvort búið sé að fullmanna umræddar stöður og að málið sé ekki til umfjöllunar á fyrsta fundi skóla- og frístundaráðs eftir sumarleyfi. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska því eftir að staða ráðningarmála í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar liggi fyrir og verði á dagskrá á næsta fundar skóla- og frístundaráðs 25. ágúst nk.

  Frestað. SFS2020050139

 15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu: 

  Enn er ekki búið að ganga frá því hvernig skólaakstri verði háttað fyrir þau börn sem búa í Staðahverfi og þurfa að sækja skóla langan veg eftir að Korpuskóla var lokað. Þegar skólanum var lokað var því lofað að skólaakstur stæði til boða en nú þegar örfáir dagar eru í að skólar hefjist er enn ekki búið að ganga frá þeim málum. Mikilvægt er að foreldrar og nemendur séu upplýstir um hvort staðið verði við loforð um skólaakstur og hvernig honum verði háttað. Í ljósi þess er lagt til að loforð um skólaakstur verði efnd og að foreldrar verði upplýstir um þessi mál hið fyrsta.

  Frestað. SFS2020080114

 16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum hvaða framkvæmdir hafa verið í Fossvogsskóla síðustu þrjá mánuði. Hvernig niðurstöður hafa fengist úr myglumælingum og hvaða tegund af myglu hefur fundist í Fossvogsskóla í mælingum sem gerðar voru í sumar.

  SFS2018120034

 17. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir öllum gögnum vegna samskipta í viðræðum Reykjavíkurborgar og Hjallastefnunnar vegna opnunar skóla í norðanverðum Grafarvogi.

  SFS2020080116

 18. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir skýrslu er gerð var af Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem Mannvit sá um rannsóknir vegna húsnæðis leikskólans Langholts.

  SFS2020080117

 19. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hvað var að valda því að ekki var unnt að opna leikskólann Langholt á réttum tíma eftir að sumarleyfum lauk.

  SFS2020080119

 20. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um það hvers vegna skólahald í norðanverðum Grafarvogi er að hefjast þrátt fyrir að ekki sé búið að fara í þær nauðsynlegu úrbætur á samgöngum líkt og lofað var að farið væri í áður en skólahald hæfist. Eins vilja fulltrúarnir vita hvort að ekki sé tryggt að gangbrautarverðir séu á öllum þeim hættulegu stöðum þar sem börn þurfa að þvera akveg til þess að komast í skóla.

  SFS2020080118

 21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir yfirliti um öll mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram á kjörtímabilinu og hvernig þau hafa verið afgreidd.

  SFS2020080120

 22. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Óskað er eftir yfirliti um þær framkvæmdir og það viðhald sem farið var í á leikskólum borgarinnar í sumar. Þar komi fram hvort verk- og tímaáætlanir hafi staðist eða hvort tafir hafi orðið. Ennfremur að þar komi fram hvort slíkar tafir hafi haft áhrif á skólastarf og þá hvernig hafi verið brugðist við þeim töfum.

  SFS2020080121

 23. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Samráðsleysi hefur einkennt allar breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi og enginn upplýsinga- eða samráðsfundur haldinn með foreldrum um stofnun nýsköpunarskóla sem m.a. annars tekur við nemendum eftir að Korpuskóla var lokað. Marta Guðjónsdóttir skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði því fram tillögu á fundi skóla- og frístundaráðs 23. júní sl. þess efnis að haldinn yrði samráðsfundur með foreldrum í norðanverðum Grafarvogi eigi síðar en í byrjun ágúst, fyrir skólabyrjun, til að fara yfir þær breytingar sem breytt skólahald og stofnun nýsköpunarskóla mun hafa í för með sér. Þar sem tillagan hefur ekki verið tekin fyrir og er ekki á dagskrá fundar ráðsins í dag er óskað svara við því hvort slíkur fundur hafi verið haldinn eða hvort til standi að halda slíkan fund.

  SFS2019020105

 24. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Í sumar var áætlað að bæta umferðaröryggi í Úlfarsárdal með því að ganga frá gangstéttum og að merkja og lýsa upp gangbrautir yfir Úlfarsárbraut við Jaðartorg, móts við stíg frá Lofnarbrunni og Sifjartorgi og yfir alla leggi Sögutorgs. Þessar framkvæmdir eru mikilvægar til að tryggja öryggi barna á leið í og úr skóla því er óskað svara við því hvort þessum framkvæmdum verði lokið fyrir skólabyrjun eins og búið var að lofa.

  SFS2019100042

 25. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Í norðanverðum Grafarvogi mun taka til starfa nýsköpunarskóli nú í upphafi nýs skólaárs. Hefur tekist að koma upp nauðsynlegri umgjörð um skólahaldið þar með talið nauðsynlegum tækja- og tæknibúnaði fyrir skólann áður en skólahald hefst?

  SFS2020080122

Fundi slitið klukkan 15:16