B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 5. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Björn Gíslason, Egill Þór Jónsson, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Örn Þórðarson, Aron Leví Beck, Hjálmar Sveinsson og Alexandra Briem. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lagður fram til fyrri umræðu samantekinn ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 (A- og B-hluti) ódags., ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. apríl 2020, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 30 apríl 2020, yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl, ábyrgða- og skuldbindingayfirlit Reykjavíkurborgar, dags. 30. apríl, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2019, dags. 30. apríl og skýrsla endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019, dags. 28. apríl 2020, og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl 2020. R19120193

-    Kl. 14.50 víkur Baldur Borgþórsson af fundinum og Vigdís Hauksdóttir tekur sæti.

Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu sem fram fer á fundi borgarstjórnar 19. maí nk.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ársreikningur Reykjavíkurborgar ber vitni um styrka fjármálastjórn og sterkan rekstur Reykjavíkurborgar. Þannig er rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir um 9,2 milljarðar. Á sama tíma hefur framkvæmdastig verið gríðarlega hátt og þjónustubæting á öllum sviðum borgarinnar. Niðurstaðan er gott veganesti inn í þær efnahagslegu þrengingar sem allur heimurinn er að sigla inn í núna í kjölfar COVID-19. Borgin mun geta tekið á sig umtalsverðan kostnað vegna faraldursins en ef sveitarfélögin allt landið um kring eiga ekki að fara í niðurskurð á þjónustu þá þarf að koma yfirlýsing frá ríkinu um að það muni standa með sveitarfélögunum í gegnum þennan storm.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ekki tókst að greiða niður skuldir í mesta tekjugóðæri sögunnar og skuldasöfnun A-hluta og samstæðu halda áfram að vaxa á fullu. Uppsveiflan er búin. Skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar jukust um 21 milljarð á síðasta ári, í góðæri, eða um u.þ.b. tvo milljarða á mánuði. Launakostnaður A-hluta hækkar um 8% á síðasta ári. Í stað þess að greiða niður skuldir eins og ríkissjóður hefur gert hafa skuldir borgarinnar aukist um meira en milljarð á mánuði. Atvinnuleysið er böl sem breiðir úr sér eins og veiran. Aldrei í hagsögunni hafa jafn margir misst vinnuna og nú hefur orðið. Tekjufallið er gríðarlegt og hefur áhrif á margar starfsgreinar. Við verðum að sýna ábyrgð og bregðast við þessu með frekari lækkun á álögum á fyrirtæki og heimili í borginni. Nú þurfum við verulegan viðsnúning og viðspyrnu. Við höfum lagt til sölu eigna eins og Gagnaveitunnar, Malbikunarstöðvarinnar Höfða og eignarhlutar borgarinnar í Landsneti til ríkisins en með því gæti borgin mætt bæði fólki og fyrirtækjum og lækkað skuldir um leið.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fjármagnseigendur hafa verið undanþegnir greiðslu útsvars en launafólk og lágtekjuhópar líkt og öryrkjar greiða skatt af tekjum sínum í borgarsjóð og hafa því borið meginþungann í rekstri borgarinnar sem er að stórum hluta fjármagnaður með skattekjum, að stærstum hluta útsvari. Fulltrúi Sósíalistaflokksins er meðvitaður um að borgarstjórn Reykjavíkur geti ekki lagt á skatta án laga frá Alþingi en hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á að hinir allra auðugustu og fyrirtækin greiði sanngjarnan skerf til sveitarfélaganna eins og launafólk og aðrir tekjuhópar. Það er mikilvægt að tekjutapið sem myndaðist með áherslum nýfrjálshyggjutímans sé ekki mætt með sölu almenningsgæða líkt og felst í útboði íbúðalóða og að borgin fari ekki að treysta þar á byggingarréttargjaldið sem hlýst af því, sem tekjustofn. Í því samhengi telur fulltrúinn mikilvægt að vinda ofan af markaðsvæðingu húsnæðiskerfisins þar sem fjármagn ræður því hver fær aðgengi að lóðum til húsnæðisuppbyggingar og tryggir aðgang að ákveðnum gæðum í borgarlandinu. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem hafa fjárhagsleg markmið að baki húsnæðisuppbyggingar komist ekki þar að. Nú eru erfiðir tímar framundan, þar sem aukin grunnþjónusta við borgarbúa skiptir höfuðmáli og fagnar fulltrúinn því að tillaga sósíalista varðandi að krefja ríkið um aukið fjármagn hafi hlotið gott brautargengi.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ekki er hægt að samþykkja ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 fyrr en reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitastjórnarráðuneytisins hefur úrskurðað um uppgjörsaðferðir Félagsbústaða.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Mikið vantar upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 millj. undir áætlun. Ekki tókst að greiða niður skuldir þrátt fyrir góðæri. Skuldir A-hluta og samstæðu jukust um 21 milljarð. Annað er markvert í ársreikningi 2019. Nú loks á að setja meira í viðhald, m.a. vegna skóla og má segja að það þurfti farald til, til að spýta í lófana. Mötuneyti skólanna koma við sögu en þar eru helstu frávik m.a. vegna sölu á máltíðum í grunnskólum en þær voru 116 m.kr. lægri en áætlað var. SORPA kemur sannarlega við sögu en í stað þess að selja metan á kostnaðarverði er því sóað. Flokkur fólksins fékk mat Samkeppniseftirlitsins á þessu atriði og banna samkeppnislög ekki að vara sé seld á kostnaðarverði. Brotthvarf eins endurskoðanda úr endurskoðunarnefndinni vakti upp spurningar og tortryggni sem hætti vegna reikningsskilaaðferða Félagsbústaða sem hann segir að ekki standist skoðun. Ef vikið er að áritun endurskoðanda kemur fram í ársreikningnum að endurskoðandi þarf aðeins að vera nægjanlega viss, sem er ágæt vissa en tryggir ekki að endurskoðun viti um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi, sem hafa mögulega áhrif á fjárhagslega ákvörðun notenda ársreikningsins.

2.    Lögð fram tillaga að ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2020-2025, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. febrúar 2020. R18100018
Frestað.

3.    Fram fer umræða um uppgjör Félagsbústaða hf. í tengslum við samstæðureikning borgarinnar. R19120193

-    Kl. 18.05 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillaga Sjálfstæðisflokksins gengur út á annarskonar framsetningu á uppgjöri Félagsbústaða og er skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar. Skoðun fulltrúans hefur hlotið ítarlega og faglega umfjöllun í nefndinni sem hefur farið yfir málið með ytri endurskoðendum á nokkrum fundum. Fundað hefur verið með fjármála- og áhættustýringarsviði sem ákvað í janúar að óska álits óháðra sérfræðinga í reikningsskilum. Niðurstaðan var enn og aftur sú að núverandi reikningsskilaaðferð væri heimil og í samræmi við reikningsskilastaðla. Fram kom að Félagsbústaðir hafi beitt gangvirðisaðferðinni frá árinu 2004. Þá kemur fram að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, úrskurðaði þann 11. júlí 2013 eftirfarandi varðandi reikningsskil Félagsbústaða hf.: „Ráðuneytið staðfestir ákvörðun ársreikningaskrár frá 29. maí 2012 um að félaginu […] sé skylt til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, IFRS, við gerð ársreiknings síns fyrir árið 2011“. Þessi úrskurður er afdráttarlaus um að Félagsbústöðum er skylt að beita IFRS og hafa ekki val um annað. Vandséð er hvernig hefði átt bregðast við með öðrum hætti en að hlíta afdráttarlausum úrskurði ráðuneytisins. Þá er þess að geta að þrjú hérlend endurskoðunarfyrirtæki, sem eru hluti alþjóðlegra endurskoðunarfyrirtækja, hafa endurskoðað ársreikninga Félagsbústaða frá árinu 2004 og hafa ekki gert fyrirvara varðandi beitingu gangvirðis í reikningsskilum félagsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Athygli vekur að endurmat á félagslegu húsnæði Félagsbústaða, sem er óhagnaðardrifið félag, bókast sem hagnaður upp á 4,5 milljarða. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að heildartekjur Félagsbústaða hf. voru 4,5 milljarðar króna, eða nákvæmlega sama fjárhæð og bókaður hagnaður ársins. Nú er búið að bókfæra hagnað með endurmati félagslegs húsnæðis upp á 57 milljarða króna. Væru eignir Félagsbústaða bókfærðar á kostnaðarverði án endurmats, eins og gert er í löndunum í kringum okkur þegar um er ræða óhagnaðardrifin félög, væri eigið fé samstæðu Reykjavíkurborgar 57 milljörðum lægra en það birtist okkur hér. Ástæða þessa gjörnings meirihlutans, er að fegra afkomu samstæðureiknings borgarinnar. Nú er sú staða uppi að mikill ágreiningur er um það hvort taka eigi inn ársreikning Félagsbústaða inn í samstæðuuppgjör Reykjavíkurborgar með matsbreytingum upp á 57 milljarða. Þessi fjárhæð hefur áhrif á bæði efnahags- og samstæðureikning borgarinnar enda er um gríðarlega fjármuni að ræða. Ágreiningur hefur verið um árabil í endurskoðunarnefnd borgarinnar um þetta mál og hefur einn nefndarmanna sem er löggildur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður, sagt sig frá nefndinni enda telur hann að ársreikningur samstæðu Reykjavíkurborgar gefi ekki glögga mynd af rekstri borgarinnar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Ekki er hægt að samþykkja ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 fyrr en reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitastjórnarráðuneytisins hefur úrskurðað um uppgjörsaðferðir Félagsbústaða.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Mikil áhersla hefur verið lögð á að sannfæra borgarfulltrúa um að sú uppgjörsaðferð sem Félagsbústaðir nota sé eðlileg að öllu leyti. Gangvirðisaðferðin er hvergi viðhöfð í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þegar um er að ræða óhagnaðardrifið félag eins og Félagsbústaði. Þetta vekur tortryggni og jókst sú tortryggni til muna þegar einn af fjórum endurskoðendum taldi sig knúinn að yfirgefa nefndina vegna málsins. Það segir kannski allt sem segja þarf þegar fagmaður, endurskoðandi í endurskoðunarnefnd Reykjavíkur víkur vegna þess að hann telur að aðferðafræðin sem nefndin vill viðhafa stríði gegn sannfæringu sinni, hún standist jafnvel ekki skoðun og íslensk lög. Það er vond staða þegar svo er komið að endurskoðunarnefnd borgarinnar hafi ekki fullan trúverðugleika. Er þessi aðferð að gefa gleggri mynd af fjárfestingaeignum Félagsbústaða eða er hún til þess fallin að eignir séu jafnvel ofmetnar? Nefndin klofnaði í þessu máli. Rökin með gangvirðisaðferðinni sem sett eru fram er að aðferðin „gefi gleggri mynd og að það skipti máli hvernig myndin lítur út þegar félagið leitar leiða með fjármögnun; að framsetningin líti betur út gagnvart þeim aðilum sem félagið leitar til með fjármögnun“ o.s.frv. Þetta að „láta líta vel út“ eru einfaldlega ekki beinlínis trúverðug rök.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að fallið verði frá lokunum á göngugötum, Laugavegi frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu, Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi, sem samþykkt var fram á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 29. apríl sl. með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20050036
Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokk Íslands og Vinstri grænna gegn 8 atkvæðum borgarfulltrúanna Eyþórs Laxdals Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Arnar Þórðarsonar, Valgerðar Sigurðardóttur, Björns Gíslasonar, Egils Þórs Jónssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er öllum nóg boðið í lokunaráráttu borgarstjóra og meirihlutans. Allar tillögur um að hafa miðbæinn opinn fyrir bílaumferð er hafnað. Til að ögra sem mest var akstursstefnu breytt á Laugaveginum. Mikið ákall er frá rekstraraðilum og íbúum að falla frá þeirri ákvörðun. Ekkert er hlustað. Glerhúsið sem borgarstjóri og meirihlutinn býr í er orðið mjög stórt og bergmálið þar inni algjört. Meirihlutinn kýs að vera í stríði við allt og alla. Það er grafalvarlegt mál hvernig borgarstjóri og meirihlutinn lokar miðbæ Reykjavíkur fyrir stórum hluta landsmanna sem verða að hafa greiðan aðgang að stjórnsýsluhúsum ríkisins. Það kom fram í máli borgarfulltrúa Viðreisnar að meirihlutinn hafi verið kosinn til að breyta samfélaginu. Hver gaf leyfi fyrir því að meirihlutinn, sem er minnihluti samkvæmt úrslitum kosninga breyti samfélaginu okkar. Firringin og mikilmennskan er algjör.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reynsla síðustu 9 ára af Laugavegi sem göngugötu á sumrin hefur verið góð. Enda hefur það fyrirkomulag notið stuðnings mikils meirihluta borgarbúa ef marka má fjölda kannana sem gerðar hafa verið. Göngugötur er mjög algengar víða um heim. Það hefur alls staðar sýnt sig að þær efla mannlíf, minnka mengun og styrkja rekstraraðila. Við höfnum þessari tillögu.

Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson, Valgerður Sigurðardóttir, Björn Gíslason og Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur verslana í miðborginni hefur verið þungur undanfarið og tugir rekstraraðila hafa hætt rekstri og nú bætast við neikvæðar efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins við. Sú einstrengingslega ákvörðun að loka Laugaveginum fyrir allri bílaumferð allan ársins hring og breyta akstursstefnu hluta Laugavegarins hafa kallað á enn meiri flótta rekstraraðila. Í stað þess að styðja rekstraraðila í miðbænum við erfiðar aðstæður sem nú eru í samfélaginu vegna COVID-19 hefur borgarstjóri nýtt sér kórónuveiruna til að koma í gegn fyrirætlunum sínum um að fara í enn víðtækari lokanir í miðbænum. Slíkar fyrirætlanir geta gert útslagið um að þeir rekstraraðilar sem enn þreyja þorrann sjái sig nauðbeygða til að skella í lás og hætta rekstri. Án fjölbreytts framboðs verslana á Laugaveginum getur gatan orðið hráslagalegur minnisvarði um enn ein skipulagsmistök þessa meirihluta. Því þarf að forða. Nú á borgarstjórn að einbeita sér að því að vinna með íbúum og rekstraraðilum að uppbyggingu á erfiðum tímum. Vinnubrögð borgaryfirvalda hafa verið ámælisverð þar sem ekkert hefur verið hlustað á sjónarmið hagsmunaaðila og mótmæli þeirra. Það er ekki það samráð, sem meirihlutinn lofaði að haft yrði við þá í öllum lykilákvörðunum. Það kallast því svikasamráð en ekki raunverulegt samráð.

Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan miðar að því að þrír vegkaflar í miðborg Reykjavíkur verði skilgreindir sem göngugötur í samræmi við 10. gr. umferðarlaga. Útfærslan miðar að greiðum aðgangi til vörulosunar, skilgreindum aðgangi fyrir íbúa og ótakmörkuðum aðgangi fyrir handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra. Verulega verður dregið úr kostnaði við útfærslu göngugatna, rask verður minnkað og samráð stóraukið. Jafnframt hefur aðgangur akandi að miðborginni stórbatnað eftir að framkvæmdum við Hverfisgötu lauk. Um er að ræða jákvæð skref, til þess fallin að auka sátt meðal ólíkra hópa. Borgarfulltrúarnir taka undir þau sjónarmið að breytt akstursstefna milli Klapparstígs og Frakkastígs þjóni engum gagnlegum tilgangi, og réttast væri að snúa henni til fyrra horfs. Nú þegar íslenskt samfélag horfir fram á djúpa efnahagslægð, fyrirtæki róa lífróður, ferðaþjónustan er í dauðatygjunum og afkomu heimilanna er ógnað, telja borgarfulltrúarnir miður að svo margir fulltrúar í borgarstjórn hafi ekki annað innlegg í opinbera umræðu en það hvort fólk eða bílar skuli eiga forgang um 400 metra vegspotta í miðborginni. Efnahagsástandið kallar á fumlaus viðbrögð borgarstjórnar. Sannarlega verðum við ekki sammála og margvísleg ólík sjónarmið munu líta dagsins ljós. En það er okkar hlutverk að sýna ábyrgð, vandvirkni og yfirvegun í flóknum viðfangsefnum. Það er okkar hlutverk að sýna borgarbúum að við ráðum við verkefnið. Einungis þannig aukum við traust og tiltrú almennings á stjórnmálin í borginni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Nú er lokunarhrina í miðbænum. Allt sem rekstraraðilar hafa sagt hefur ræst. Veiran sá um ferðamennina og borgaryfirvöld hafa séð til þess að Íslendingar sem búa fjarri koma helst ekki lengur niður í bæ nema kannski á tyllidögum. Hér hafa verið gerð mistök sem meirihlutinn á einfaldlega mjög erfitt með að viðurkenna. Þau hlupu á sig, ákváðu einhliða að loka götum árið um kring fyrir umferð með þeim afleiðingum að verslun hrundi. Þetta settu þau í sáttmála sinn og hafa með því málað sig út í horn. Sök sé með að hlusta ekki á minnihlutann en að hlusta ekki á borgarbúa er alvarlegt. Lýðræði og samráðsvilji er það sem skortir hjá þessum meirihluta en samt var það einmitt það sem þau lofuðu kæmust þau til valda. Nú er tímabært að hefja leiðangur með rekstraraðilum og fólkinu í borginni til að endurlífga miðbæinn. Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við hagsmunaaðila til að ræða björgunaraðgerðir s.s. hvernig markaðsátak hægt er að fara í fyrir miðborgina. Fara þarf í almennar aðgerðir sem nýtast öllum. Almennar aðgerðir þurfa m.a. að fela í sér samvinnu við Bílastæðasjóð og Strætó bs. sem gefa þurfa eftir í gjöldum til að laða að fólk.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Afleiðingar kórónuveirunnar draga skýrt fram viðkvæma stöðu þeirra sem treysta algjörlega á matarúthlutanir. Ef lokað er fyrir þá aðstoð, geta margir ekki leitað neitt annað. Sem dæmi má nefna að Mæðrastyrksnefnd lokaði, skiljanlega tímabundið, fyrir matarúthlutanir þar sem flestallir sjálfboðaliðar voru í áhættuhópi. Ábyrgðin fyrir því að mæta grunnþörfum þeirra sem hafa ekki efni á því að nærast út mánuðinn, á ekki að vera á höndum utanaðkomandi félaga. Ábyrgðin er stjórnvalda sem þurfa að bregðast við þeirri staðreynd að margir búa við verulegan skort. Þörfin er mikil líkt og sjá má í fjölda þeirra sem sækja um mataraðstoð. Því er lagt til að Reykjavíkurborg leiti til félagasamtaka fólks með reynslu af fátækt eftir ráðgjöf og/eða samstarfi um bestu leiðina til þess að koma upp matarbanka, þar sem einstaklingar geta sjálfir valið sér í matinn, eftir því sem er í boði. Í gegnum matarbankann verði hægt að fá fjölbreytt, næringarríkt fæði sem þjóni mismunandi þörfum. Þá muni matarbankinn einnig mæta þörfum þeirra sem þurfa matarbirgðir til lengri tíma vegna sóttkvíar eða einangrunar og þeirra sem þurfa heimsendan mat vegna afleiðinga kórónuveirunnar. Í matarbankanum verði einnig boðið upp á nauðsynjavörur til heimilishalds líkt og klósettpappír, hreinlætisvörur til einkanota, bleyjur og dósaopnara.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20050037
Vísað til meðferðar velferðarráðs og til vinnslu í stýrihóp ráðsins um aðgerðir gegn sárafátækt.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Á vegum velferðarráðs hefur starfað stýrihópur um aðgerðir gegn sárafátækt frá því í mars 2019. Hlutverk hans er að yfirfara reglur og úrræði á vegum velferðarsviðs til að draga verulega úr sárafátækt og gera tillögur um aðgerðir. Hópurinn skilaði áfangatillögum í desember en í ljósi COVID mun hann yfirfara þær niðurstöður áður en lokaskil fara fram. Velferðarráð hefur þegar hafið vinnu við að skoða hvernig megi styðja betur við þá íbúa sem þurfa stuðning til framfærslu. Við þurfum að fara yfir allar mögulegar leiðir til þess að styðja fólk og því er þessari tillögu vísað í yfirstandandi vinnu á vegum velferðarráðs, matargjafir má fá hjá fjölda félagasamtaka víða um borgina í dag og velferðarráð styrkir þau úrræði með mismunandi hætti en við verðum að velta við öllum steinum til að standa með Reykvíkingum í gegnum afleiðingar COVID-19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Enginn á nokkurn tíman að þurfa að vera án matar á Íslandi. Því miður er fólk á Íslandi sem á ekki til hnífs og skeiðar. Velferðaryfirvöldum ber skylda til að sjá til þess að allir eigi að borða í Reykjavík. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Tíð verðkönnun gerð af vandvirkni myndi t.d. styðja það að viðskiptakort nýttist vel þeim sem þess þarfnast. Matarbanki þarfnast auk þess yfirbyggingar og utanumhalds. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins vill styðja þessa tillögu því hún er lögð fram af hug sem samræmist hugsjón og stefnu Flokks fólksins en hann er stofnaður m.a. til að berjast gegn fátækt og hlúa að þeim verst settu. Ef framhaldið verður að fólk fái kort til að kaupa sér sjálft mat þá væri það það allra besta.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar sem og önnur viðurkennd námskeið án tillits til lengdar námskeiðanna. Sumarið er komið og standa börnum til boða ýmis konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á vegum skóla- og frístundaráðs. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinni partinn af faraldri, bíða mörg börn þess með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum. Núgildandi reglur um frístundakort kveða á um að frístundastyrkinn, 50.000 kr., sé aðeins hægt að nýta í námskeið sem eru að lágmarki 10 vikna löng. Nú býður Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn börnum upp á 5 daga námskeið sem kosta 18.500 og 4 daga námskeið sem kosta 15.100. Skóla- og frístundaráð býður börnum einnig upp á námskeið sem kosta um 10.000 á viku. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði ég til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Nú er gerð önnur atrenna að regluverkinu því það er öllum börnum afar mikilvægt að komast á námskeið í sumar eftir þennan óvenjulega vetur.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20050038
Samþykkt að visa tillögunni til stýrihóps um endurskoðun reglna um frístundakort.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að þessi tillaga um að frístundakortið gildi í öll námskeið, stutt eða löng verði vísað í þann hóp sem vinnur að endurskoðun á frístundakorti. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið tíðrætt um annmarka frístundakortsins. Sá annmarki sem hér er leitast við að laga, að kortið gildi í öll sumar- og vetrarnámskeið á vegum borgarinnar án tillits til lengdar er einn sá versti og hindrar fjölmörg börn í að nota kortið. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði Flokkur fólksins til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var þá felld. Að skilyrða notkun frístundastyrksins í námskeið sem eru 10 vikur að lágmarki nær ekki nokkurri átt. Þetta skilyrði lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt og styrkurinn er aðeins 50 þús. á ári. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Vonandi mun sá hópur sem vinnur að endurskoðun kortsins sjá þetta sömu augum og losa um þessi höft sem umlykur frístundakortið.

7.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti sem þriðji varaforseti borgarstjórnar í stað Dóru Magnúsdóttur. R18060080
Samþykkt.

8.    Lagt til að Dóra Magnúsdóttir taki sæti í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í stað Sigríðar Arndísar Jóhannesdóttur. Jafnframt er lagt til að Sigríður Arndís taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Ásmundar Jóhannssonar. R18060083
Samþykkt.

9.    Lagt til að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Sigríðar Arndísar Jóhannesdóttur. Jafnframt er lagt til að Sigríður Arndís taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Lífar Magneudóttur. R18060087
Samþykkt.

10.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Arons Levís Becks. Jafnframt er lagt til að Aron Leví taki sæti sem varamaður í stað Ásmundar Jóhannssonar. R18060086
Samþykkt.

11.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur. Jafnframt er lagt til að Kristín Soffía verði formaður stjórnarinnar. R18060108
Samþykkt.

12.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í stjórn Strætó bs. í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttur. R18060112
Samþykkt.

13.    Lögð fram tilkynning skrifstofu borgarstjórnar þar sem fram kemur að Kolbrún Baldursdóttir taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í skipulags- og samgönguráði í stað Þórs Elís Pálssonar. R18060086

14.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. apríl. R20010001
36. liður fundargerðarinnar, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er borinn upp í fimm liðum, en greinargerð fylgir hverjum lið R20010161: 

1. Hækkun félagsgjalda Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu – SSH. Lagt er til að fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar verði hækkaðar um 4.609 þ.kr. vegna hækkunar á félagsgjöldum SSH. Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður af kostn.st. 09205, ófyrirséð.
Samþykkt með 12 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

2. Norrænu grunnskólaleikunum frestað. Lagt er til að fjárheimildir íþrótta- og tómstundasviðs verði lækkaðar um 5.500 þ.kr. vegna afboðunar á norrænu grunnskólaleikunum sem áttu að fara fram í Reykjavík 2020. Kostnaðarlækkunin verði flutt aftur á kostnaðarstað 09205, ófyrirséð. 
Samþykkt með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

3. Frestun á breytingum á gjaldskrá Veitna ohf. Lagt er til að fjárheimildir íþrótta- og tómstundasviðs verði hækkaðar um 18.000 þ.kr. vegna frestunar á gjaldskrárbreytingum Veitna ohf. Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður af kostn.st. 09205, ófyrirséð.
Samþykkt með 12 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

4. Eingreiðsla til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla. Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 14.690 þ.kr. vegna eingreiðslu til félagsmanna Félags íslenskra hljómlistarmanna og Félags tónlistarkennara vegna innágreiðslu á væntanlegan kjarasamning samkvæmt samkomulagi um endurskoðaða viðræðuáætlun (4. grein). Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður af kostn.st. 09126, launa- og starfsmannakostnaður.
Samþykkt. 

5. Nemendur í Arnarskóla. Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 64.509 þ.kr. vegna skólagöngu fjögurra reykvískra nemenda í Arnarskóla sem er skóli fyrir börn með þroskafrávik. Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður af kostn.st. 09205, ófyrirséð.
Samþykkt.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 26. lið fundargerðarinnar: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins líta svo á að beiðni KSÍ um þátttöku Reykjavíkurborgar í kostnaði vegna umspilsleiks við Rúmeníu verði tekin til rækilegrar skoðunar í tengslum við viðræður við Knattspyrnusambandið um endurskoðun samnings um rekstur Laugardalsvallar.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

Stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt fram fyrirspurn til borgarstjóra um samkomulag ríkisins við Reykjavíkurborg um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Er vísað í samkomulag sem borgarstjóri og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu þann 28. nóvember sl. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið verði að undirbúning og byggingu nýs flugvallar þannig að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn. Í samkomulaginu lýsir Reykjavík yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Lýsir stjórnin yfir miklum áhyggjum um að samkomulagið haldi ekki því í greinargerð með frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 er gert ráð fyrir nýju íbúðahverfi í Skerjafirði sem hefur áhrif á athafnasvæði flugvallarins og vísað er í breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur. Óskað er eftir að borgarstjóri staðfesti sameiginlegan skilning hans og ráðherra um að flugvöllurinn verði tryggður í Vatnsmýrinni. Í loðnu svari borgarstjóra er vísað í „Samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð“ sem gert var 1. mars 2013 þar sem borgin „skuldbatt“ sig til að hraða skipulagi og uppbyggingu umrædds svæðis. Miklar áhyggjur nefndarinnar eru fullkomlega réttmætar og ljóst að ekkert traust ríkir í garð borgarstjóra um að samkomulagið haldi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, sem undirritað var 11. nóvember 2019 stendur. Ekkert í núgildandi áformum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Skerjafirði eða Hlíðarenda skarast við umrætt samkomulag.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur sent erindi á stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til að vara við vinnubrögðum borgarinnar í Vatnsmýrinni. Málið er þar statt og spratt upp af því að stjórn nefndarinnar sendi fyrirspurnarbréf til borgarstjóra um ákveðin atriði samningsins sem vafi lék á að héldi. Allt tal um að þessi fyrirhugaða uppbygging skerði ekki gæði uppbyggingu og viðhalds flugvallarins er firra. Ljóst er að ekki ríkir traust til borgarstjóra og meirihlutans að hálfu umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 56. lið fundargerðarinnar: 

Fulltrúi Flokks fólksins er ekki ósáttur við þær aðgerðir sem gerðar eru. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram strax í upphafi faraldursins nokkrar tillögur sem voru um að styrkja stöðu og gæta hagsmuna minnihlutahópa. Var þeim öllum frestað og var það miður. Sumar voru reyndar teknar upp af hálfu meirihlutans, gerðar að þeirra og settar í framkvæmd. Það varðaði t.d. lækkun gjalda í frístundastarfi og leikskóla í samræmi við fækkun daga og símaþjónusta til eldri borgara. Tillaga Flokks fólksins um aðstoð við dagforeldra, þeirra sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna COVID-19 fór hins vegar í „pott“ og er nú á borði Sambands Íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður sagt að meirihlutinn í Reykjavík er of háður mati SÍS og virðist skorta sjálfstæði til að vera einmitt það leiðandi afl sem borginn ætti að vera sem langstærsta sveitarfélaga landsins. Flokkur fólksins vill einnig bóka við liðinn viðaukar við fjárhagsáætlun, tillögu um að fjárheimildir borgarstjórnar verði hækkaðar um 4.609 þ.kr vegna hækkunar á félagsgjöldum SSH. Furðu vekur að félagsgjald til SSH hækki um 50% eða um ríflega 4,6 milljónir án nokkurs rökstuðnings, sem vekur upp þá spurningu hvernig þetta fé nýtist borginni. Þarf ekki að meta reglulega hvaða gagn borgin hefur af þessum félagsskap?

15.    Lagðar fram fundargerðir, menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 29. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 28. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. apríl og velferðarráðs frá 22. apríl. R20010285

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs: 

Verkefnið er í samræmi við gildandi aðalskipulag um uppbyggingu á svæðinu og í samræmi við samning ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2013. Í nýrri byggð í Skerjafirði er gert ráð fyrir þéttri lágreistri og nútímalegri strandbyggð. Staðsetningin býður upp á fallegt náttúrulegt umhverfi við fallega strandlengju sem gefur frábæra möguleika til útivistar og umhverfisvænna samganga. Íbúðirnar verði fjölbreyttar að stærð og eignarformi og nýr grunnskóli mun þjóna hverfinu öllu. Við fögnum þessari löngu tímabæru uppbyggingu og hlökkum til framhaldsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs:

Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – þarna er um mikla kaldhæðni að ræða – tillagan skapar í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Nú er verið að fara í fyrsta áfanga í þrengingunum og eru gangandi og hjólandi settir í forgang umfram akandi umferð. Það er markvisst verið að eyðileggja miðbæinn þvert á vilja flestra landsmanna og sýnir þráhyggju borgarstjóra og meirihlutans í þrengingar- og eyðileggjandi stefnu sinni. Hver á að nota miðbæinn þegar enginn kemst þangað lengur?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. og 15. lið í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs: 

Fyrirspurn um ástand skólahúsnæðis er svarað af starfsmanni Heilbrigðiseftirlitsins sem fer mikinn í svörum sínum, sakar borgarfulltrúann um að fara með dylgjur í fyrirspurnum sínum þegar einfaldlega er spurt um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla þar sem veikindi hafa ítrekað komið upp. Áhyggjuefni er þegar embættismenn fara fram með slíku offorsi í svörum sínum þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Eitthvað í fyrirspurnunum hefur snert viðkvæma strengi þótt aðeins sé verið að fylgja eftir fyrirspurnum foreldra. Fram kom t.d. þann 1. maí í Fréttablaðinu að foreldrar eru ekki sannfærðir um að búið sé að uppræta mygluna og óska eftir svörum við fyrirspurn frá 21. febrúar. Bókun undir lið 13 og 16: ósk um verkefnaskýrslur hundaeftirlitsmanna. Ekki virðist vera hægt að fá yfirlit yfir verkefni hundaeftirlitsmanna og því ekki hægt að fá að sjá hvernig ákvörðun um eftirlitsgjaldið er tekin. Fyrirspurn frá Flokki fólksins var svarað með útúrsnúningi með því að telja upp atriði sem alls ekki var spurt um. Gjöld á að leggja á samkvæmt kostnaði ef ekki er um skattlagningu að ræða. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur virðist ekki getað rökstutt upphæð gjaldsins en kýs að svara fyrirspurn Flokks fólksins með skætingi. Varnartilburðir embættismanns benda til að málið sé viðkvæmt og þoli ekki nána skoðun.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Frá persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar kemur fram að óheimilt er samkvæmt persónuverndarlögum að veita aðgang að vinnustundum starfsfólks. Varðandi annað í fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um verkefni starfsmanna þá er vísað til starfslýsingar fyrir hundaeftirlitsmann og samþykktar um hundahald í Reykjavík sem hundaeftirlitsmenn vinna samkvæmt, og finna má á vef Reykjavíkurborgar. Hundaeftirlitsmenn eru báðir ráðnir í 100% starf og starfa undir yfirumsjón framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Faglegar úttektir hafa verið gerðar á Fossvogsskóla bæði af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og fleirum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er sá lögboðni og faglegi aðili sem metur hvort húsnæði standist kröfur skv. hollustuháttalöggjöf. Viðamiklar úrbætur hafa verið gerðar á húsnæði Fossvogsskóla og miðað við niðurstöður síðasta heilbrigðiseftirlits og úttekta sem liggja fyrir eru ekki gerðar athugasemdir við störf Heilbrigðiseftirlitsins enda starfar þar fagfólk með mikla þekkingu á málaflokknum. Því má halda til haga að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar gerir kröfur um úrbætur þar sem þess er þörf og fylgir leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og samræmdum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar þegar kemur að eftirliti skólahúsnæðis. Það er mikilvægt að allt skólahúsnæði uppfylli ítrustu kröfur um heilnæmt umhverfi fyrir börn og fullorðna. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir að meirihlutinn er í sömu vörn og embættismaður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Flokkur fólksins leggur til að meirihlutinn og embættismenn hlusti ávallt á foreldra og umfram allt svari erindum þeirra. Það er einnig ávallt góð regla að svara fyrirspurnum af kurteisi og virðingu. Borgarfulltrúar eru að vinna fyrir fólkið í borginni. Ekki var verið að biðja um vinnustundir eins og embættismaður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og meirihlutinn vill vera láta heldur einfaldlega spyrja um hvaða verkefni hundaeftirlitsmenn sinna þar sem hundaeftirlitsgjald hefur ekki lækkað þótt verkefnum þeirra hafi snarfækkað.

Fundi slitið kl. 22:18

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir    Sanna Magdalena Mörtudóttir