B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 21. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sabine Leskopf, Líf Magneudóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Örn Þórðarson, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Björn Gíslason, Katrín Atladóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason, Aron Leví Beck, Hjálmar Sveinsson og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir. 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Til og með 2. júní 2020 verður heimilt að nota fjarfundabúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundabúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 og verklagsreglum um fjarfundi, þó þannig að meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað eins og fram kemur í 5. gr. leiðbeininganna. Einnig verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum, í samræmi við ákvæði 8. gr. leiðbeininganna

Greinargerð fylgir tillögunni. R18060129
Samþykkt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Lagt er nú til á fundi borgarstjórnar að framlengja heimild til notkunar á fjarfundabúnaði og samþykkir Flokkur fólksins það. Fjarfundir og fjarfundabúnaður er fyrirkomulag sem er komið til að vera. Með möguleikum á að hafa fjarfundi skapast hagræðing og sparnaður. Hægt verður t.d. að draga að mestu leyti úr öllum utanlandsferðum á vegum borgarinnar og einnig mun með fjarfundafyrirkomulaginu vera hægt að draga úr útköllum vegna veikinda. Þetta býður upp á alveg ný tækifæri. Þær fréttir að fjarfundabúnaður sé mögulega ekki tryggur er bakslag. Upp hafa komið öryggisgallar í fjarfundabúnaði hjá einstaka fyrirtækjum. Óvelkomnir aðilar hafa ráðist inn í kerfið og komast inn á fundi. Flokkur fólksins vill nota þetta tækifæri og spyrja hversu vel borgin er búin að tryggja sig? Hversu vel eru fundarstjórar þjálfaðir nú þegar ljóst er að fjarfundabúnaður er kominn til að vera? Hvernig er öryggið í aðgangsstýringu? Hafa fundarstjórar fengið námskeið í lausnum? Er búið að greina þarfir borgarinnar í þessum efnum? Þessum spurningum er varpað fram hér í bókun en vænst er að þessi atriði verði öll könnuð til hins ýtrasta.

2.    Fram fer umræða um neyðarstig almannavarna vegna COVID-19. R20030002

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Lítið nýtt kemur fram í máli borgarstjóra hver staðan hjá Reykjavíkurborg er og hvað á að gera vegna COVID-19. Aðgerðirnar byggjast flestar á frestunartillögum. Lítið er um svör og engin framtíðarsýn er til staðar. Borgarstjóra og meirihlutanum er ómögulegt að hugsa út fyrir boxið og með gagnrýnni hugsun. Það ríkir alger biðstaða sem er mjög vont fyrir alla. Óljósar tillögur og misvísandi skilaboð eru verri en ef eitthvað er sagt. Borgarstjóri boðar 60 milljarða lántöku á næstu fimm árum, ofan á allar gömlu skuldirnar, í stað þess að vera með afgerandi tillögur í því að skera niður gæluverkefni. Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög eiga einungis að sinna sinni skyldu samkvæmt lögum. Að sinna lögbundnum verkefnum og grunnþjónustu. Meirihlutinn hefur hvorki kjark eða afl til að breyta stefnu sinni til hagsbóta fyrir íbúa Reykjavíkur í stað „kerfisins“.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarstjóri hefur farið yfir áhrifin af COVID-19. Það eru nokkrir hópar sem nauðsynlegt er að huga sérstaklega að í þessum aðstæðunum og sem segja má að hafi jafnvel orðið útundan. Þessir hópar þurfa svör m.a. til að eyða óvissu. Leigjendur Félagsbústaða hafa ekki fengið svör við hvort leiga verði felld niður í 2-3 mánuði eins og fordæmi er nú fyrir annars staðar. Boð um greiðsludreifingu er ekki nóg fyrir þennan hóp sem margir hafa átt um sárt að binda lengi. Eins er ekki vitað hvort dagforeldrar haldi óskertum tekjum sínum ef þurft hefur að loka vegna sóttkvíar. Eldri borgarar og öryrkjar telja sig margir hafa orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna áhrifa kórónuveirunnar. Horfa þarf til afleiðinganna á börn og ungmenni eftir langvarandi tímabil takmarkaðra félagstengsla sem fylgir skertu skóla, íþrótta- og tómstundastarfi. Okkur hefur verið send tillaga um að lengja tímabil vinnuskólans þannig að hann nái yfir allt sumarið. Þetta er bara eitt af mörgu sem þarf að huga að í þessu sambandi. Skorað er á borgarstjóra að vinna með minnihlutanum að raunhæfum lausnum fyrir alla. Fordæmi eru allt um kring ekki síst í löndunum sem hafa staðið sig hvað best í þessu fordæmalausa ástandi.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að innleiða snjalltækni á öllum sviðum starfsemi sinnar. Aukinn kraftur verður settur í innleiðingu velferðartækni, notkun fjarkennslu efld og stjórnsýslan nýti tækni til að auka skilvirkni og hagræða í rekstri. Áform hafa verið uppi að auka notkun tæknilausna í stjórnsýslunni, velferðarþjónustu og kennslu á ýmsum stigum síðustu misserin. COVID-19 faraldurinn hefur flýtt innleiðingu tæknilausna á öllum sviðum þar sem stórir hópar hafa þurft að nýta tækni á borð við fjarfundi, fjarkennslu og fjarþjónustu. Þessi skyndilega aukning á notkun tæknilausna felur í sér tækifæri til bættrar þjónustu og hagkvæmari rekstrar. Öllum sviðum borgarinnar verði falið að flýta innleiðingu tæknilausna í þessu sambandi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20040141
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillögunni er vísað til meðferðar borgarráðs. Á vettvangi borgarráðs fer fram vinna vegna aðgerða Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna COVID-19. Í þeim aðgerðum sem voru nýlega samþykktar í þverpólitískri sátt kemur fram að fjárfestingum í innleiðingu nýrrar tækni hjá Reykjavíkurborg verði flýtt. Nú er í gangi vinna við útfærslu þessarar samþykktar á vettvangi borgarráðs og því er hægt að líta til þessarar tillögu við útfærsluna. Viljinn til að innleiða tæknilausnir hratt og örugglega endurspeglast í meirihlutasáttmála núverandi kjörtímabils, mikilli fjárfestingu undanfarið í tækninýjungum og stafrænni vegferð borgarinnar og í kröftugri innleiðingu þjónustustefnu Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Tæknin býður upp á marga jákvæða þætti sem er mikilvægt að nýta borgarbúum og starfsfólki borgarinnar til góða. Það er mikilvægt að tryggja þó að nýting tæknilausna fari fram á þeirra eigin forsendum og sé viðbót við þjónustu borgarinnar en að fjarkennsla, fjarþjónusta og notkun fjarfundarbúnaðar komi t.d. ekki í stað hefðbundinna forma sem við þekkjum nú og margir vilja sennilega ennþá styðjast við. Þá getur nýting tæknilausna verið leið til þess að gera ýmsa óaðgengilega þætti í starfsemi borgarinnar, opnari fyrir fleirum. Það er nauðsynlegt að tryggja að borgin sé aðgengileg öllum. Tæknilausnir eiga því alltaf að vera opnar þeim sem vilja taka þátt með þeim hætti.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Þrátt fyrir að ástandið sé erfitt og mikil óvissa ríkir þá er þetta tímabundið ástand. Fundum var breytt og þeir haldnir á tæknilegum grunni. Öll kerfi voru til staðar hvað varðar rafrænar lausnir. Það reyndist auðvelt verk að halda fjarfundi og þar að auki eru þeir oft á tíðum skilvirkari en fundir í sal. Þessi aðferð sýnir að mikið er hægt að spara í utanlandsferðum embættismannakerfisins og kjörinna fulltrúa. Þar eru slegnar tvær flugur í einu höggi – fjárhagslegur sparnaður fyrir útsvarsgreiðendur, minni mengun og færri kolefnisspor. Tillagan fjallar um snjalltækni. Hér verður að minnast á snjallstýringu ljósabúnaðar á götum borgarinnar sem eykur umferðarflæði um 30% sem veldur því að umferðateppur verða úr sögunni. COVID-19 slær borgarlínu út og sýnir svo bersýnilega að fjölskyldubíllinn er nútíðin og framtíðin. Almenningssamgöngur eru agressiv smitleið eins og bersýnilega kom í ljós í London og New York þar sem faraldurinn var sérlega skæður. Snjalltækni er framtíðin og allt sem hægt er að gera til flýtingar tæknilausna á að fara í fljótt og skjótt. Það er óskiljanlegt að meirihlutinn ásamt borgarstjóra skuli ekki samþykkja þessa tillögu í stað þess að vísa henni í borgarráð til lægra setts stjórnvalds en borgarstjórn er.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Tæknilausnir á borð við fjarfundi eru í fullri þróun og voru innleiddar af brýnni nauðsyn og er vonandi eitt af því góða sem mun koma út úr þessum skelfilega faraldri. Fjarfundir munu eiga eftir að spara mikla peninga. Nú er t.d. hægt að nota þær tugir milljóna sem farið hefur í ferðir á vegum borgarinnar til að t.d. greiða niður skólamáltíðir. Sú tillaga sem hér er lögð fram er hvatning til að skoða frekari möguleika með fjarfundi. Nefnt er að nota reynsluna í skólakerfinu. Flokkur fólksins vill setja varann á þegar kemur að börnunum og grunnskólunum. Fjarkennsla má aldrei verða til þess að tækifæri verði tekið af börnum að koma saman. Börn eru nú þegar mikið í snjalltækjum. Snjalltæki koma aldrei í stað mannlegra tengsla. Nú þarf einmitt að stuðla að stöðugum og viðvarandi félagslegum tengslum. Ef horft er til verklegra greina þá er fjarkennsla erfið og í mörgum greinum ógjörningur. Loks vill Flokkur fólksins nefna að ganga skal hægt um gleðinnar dyr. Gæta þarf að öryggi þegar kemur að snjalllausnum enda hafa fréttir borist að því að óprúttnir aðilar hafi ráðist inn á fundi hjá einstaka fjarfundafyrirtækjum.

-    Kl. 17.25 víkur Sigurborg Ósk Haraldsóttir af fundinum og Alexandra Briem tekur sæti í gegnum fjarfundabúnað.

4.    Lögð fram tillaga að stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030, sbr. 33 lið fundargerðar borgarráðs frá 12. mars 2020, ásamt fylgiskjölum. R19010293
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Íþróttastefna til ársins 2030 er afrakstur meira en árslangrar samvinnu Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur. Haldnir voru samráðsfundir, jafnt með kjörnum fulltrúum, aðilum úr stjórnkerfinu og fulltrúum íþróttafélaganna og stefnan sett í opið samráðsferli. Framtíðarsýn stefnunnar er að sem flestir Reykvíkingar stundi reglulega íþróttir, líkamsrækt eða aðra hreyfingu. Fimm megináherslur stefnunnar snúa að íþróttum á öllum æviskeiðum, barna- og unglingastarfi, afreksstarfi, aðstöðu og faglegri umgjörð íþróttastarfs. Sett eru mælanleg markmið um alla þætti og aðgerðir til að hrinda þeim í framkvæmd. Ráðist verður í endurskoðun samninga við íþróttafélög með stefnuna að leiðarljósi. Þá verður ráðist í að þróa nýja aðferð við forgangsröðun fjárfestinga í íþróttamannvirkjum til framtíðar. Við vonumst til að allar þessar aðgerðir leiði til þess að Reykjavík verði áfram sú borg sem litið er til þegar kemur að árangri í íþróttum og þætti þeirra í forvarnarmálum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Það er fjallað um marga mikilvæga þætti í stefnunni en fulltrúi sósíalista sér ekki nógu stórar, skýrar aðgerðir sem snúa að því að tryggja börnum og ungmennum aðgengi að skipulagðri íþróttastarfsemi óháð efnahag. Það er mikilvægt að tryggja að öll börn og ungmenni geti tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfsemi sem þau hafa áhuga á óháð efnahag og að það sé alveg skýrt hvernig borgin muni vinna að því.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúi Miðflokksins getur ekki stutt þessa stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030 á þeim grunni að ekki hafa verið samþykktar tillögur er snúa að hækkun upphæðar frístundakorts sem hún hefur lagt til í borgarstjórn. Alls nýta um 83% barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára kortið. Það er mjög hátt hlutfall og sýnir að almenn vitund er með þessi réttindi. Núverandi upphæð frístundakorts er 50.000 krónur á ári og er því ætlað að gera öllum kleift að stunda íþróttir óháð efnahag og fer kortið í greiðslu æfingagjalda. Kostnaður við þátttöku getur samt verið mun meiri vegna t.d. keppnisbúnaðar og keppnis- og æfingaferðalaga. Tillögur mínar sem felldar voru – voru í fyrsta lagi að hækka frístundakortið í 100.000 kr. á ári og í öðru lagi að hækka kortið í takt við verðlagsbreytingar. Íþróttastefnan er sellófan á meðan frístundakortið er ekki hækkað – notendum, foreldrum og íþróttafélögum til hagsbóta. Hækkun frístundakortsins eru smápeningar fyrir borgina miðað við ávinninginn sem af því hlýst. Hækkun frístundakortsins er ein af tillögum borgarfulltrúa Miðflokksins inn í aðgerðarpakka borgarinnar gegn COVID-19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins fagnar að í íþróttastefnunni er þó alla vega minnst á að endurskoða eigi reglur um frístundakort. Borgarfulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt þessa íþróttastefnu á meðan svo miklir annmarkar eru á reglum um frístundakort sem raun ber vitni. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði Flokkur fólksins til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Að skilyrða notkun frístundastyrksins í námskeið sem eru 10 vikur að lágmarki nær ekki nokkurri átt. Þetta skilyrði lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Vonandi er sá hópur sem vinnur að endurskoðun kortsins að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Reykjavíkurborg samþykkir að leita til þeirra sem hafa komið að uppbyggingu og fjármögnun svokallaðra lúxusíbúða í miðborginni sem hafa ekki verið að seljast (t.a.m. íbúðir við Tryggvagötu 13). Markmið Reykjavíkurborgar verði að taka yfir eignarhaldið á þeim íbúðum á hagstæðu verði og nýta íbúðirnar til að útvega þeim í borginni sem eru í þörf fyrir húsnæði örugga búsetu. Aðilarnir sem standa að baki umræddum íbúðum hafa átt í erfiðleikum með að selja þær og miðað við efnahagsástandið sem nú blasir við okkur er ekki fyrirséð að íbúðirnar verði eftirsóttar á því verði sem þær eru á. Því er lagt til að Reykjavíkurborg leitist við að taka yfir íbúðirnar og gera þær aðgengilegar fyrir þá hópa samfélagsins sem eru í mestri þörf fyrir húsnæði. Þá er einnig lagt til að Reykjavíkurborg skoði sama fyrirkomulag með stór hótel borgarinnar sem eru nú í byggingu og útfæri rýmin t.d. í námsmannagarða og hjúkrunarrými. Fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að leita til þeirra sem hafa komið að fjármögnun og uppbyggingu umræddra íbúða og eiga í viðræðum við þá fyrir hönd borgarinnar. Reykjavíkurborg samþykkir síðan að vinna með hagsmunaaðilum líkt og verkalýðshreyfingunni, Félagsbústöðum, Öryrkjabandalagi Íslands og Félagsstofnun stúdenta og samtökum eldri borgara um nýtingu íbúðanna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20040142
Tillagan er felld með 21 atkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Miðflokksins og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. 
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

Gríðarlega margir eru í þörf fyrir húsnæði, á meðan standa íbúðir tómar og hóteluppbygging hefur verið sett á pásu. Tillagan fól í sér að Reykjavíkurborg myndi leitast við að eiga samtal við þá sem hafa komið að uppbyggingu svokallaðra lúxusíbúða sem hafa ekki verið að seljast sem og stórra hótela sem eru nú í uppbyggingu í borginni. Með því að tala við þá sem hafa komið að uppbyggingunni og fjármögnunni hefði verði hægt að athuga hvort grunnur væri að samtali fyrir borgina til að eignast íbúðirnar á hagstæðu verði og koma þeim til þeirra sem eru í þörf fyrir örugga búsetu. Þörfin er núna. Svör frá fulltrúum meirihlutans voru á þann veg að borgin væri með gott plan í gangi þegar kemur að því að tryggja fólki öruggt húsnæði. Þeir 673 einstaklingar sem eru á biðlista Félagsbústaða eru sennilega ekki sammála því. Þeir sem eru húsnæðislausir eru sennilega ekki sammála því og heldur ekki þeir sem þurfa að greiða stóran hluta ráðstöfunartekna sinna í leigu því ekkert húsnæði finnst á viðráðanlegu verði. Sú leið sem sósíalistar leggja til hefði komið fólki í húsaskjól og tryggt að hér yrðu ekki tómar íbúðir í borginni. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Félagslegu leiguhúsnæði hefur verið fjölgað verulega undanfarin ár, en 374 fjölskyldur fengu slíku húsnæði úthlutað á vegum Félagsbústaða á síðasta ári. Biðlistinn styttist því ört þó allir hafi ekki getað nýtt sér úthlutunina enda mikil hreyfing á listanum. Reykjavíkurborg er leiðandi þegar kemur að uppbyggingu óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis, meðal annars í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Einnig kemur hún til móts við tekjulága einstaklinga með greiðslu sérstakra húsnæðisbóta. Ekki er talin þörf á því að víkja frá því ferli að Félagsbústaðar sjái um innkaup og rekstur húsnæðis fyrir borgina og því er ekki tekið undir þessa tillögu.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Það er ekki nóg. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er samþykkt í borgarstjórn og henni er fylgt eftir meðal annars af Félagsbústöðum sem hafa það hlutverk að kaupa húsnæði til útleigu til þeirra sem ekki geta séð sér fyrir húsnæði vegna félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna. Íbúðum hefur fjölgað um 197 á síðust tveimur árum og áætlanir gera ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 600 á kjörtímabilinu 2018-2022. Teljum við ákjósanlegt að fjölga eignum umfram húsnæðisáætlun er rétt að breyta henni og fela Félagsbústöðum að fjármagna þau kaup og finna íbúðir en ekki hlaupa til að kaupa íbúðir bara vegna þess að aðrir hafa ekki viljað kaupa þær. Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjar af þeim íbúðum sem nú eru tómar séu ákjósanlegar inn í eignasafn Félagsbústaða en við treystum þeim til að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi kaup á leiguhúsnæði.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið myndi t.d. snúa að málum þar sem skimun hefur leitt í ljós sterkar vísbendingar um ADHD. Í samstarfinu fælist að sálfræðingur skóla og sérfræðingar ÞHS færu saman yfir málin og afgreiddu þau með viðeigandi hætti. Þessi hópur barna fengi þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr en ella. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast og jafnframt stytta bið þeirra barna sem glíma við önnur vandamál en þau sem kalla á aðkomu barnalæknis. Á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu voru í febrúar sl. 674 börn, 429 biðu eftir fyrstu þjónustu og 245 eftir frekari þjónustu. Mörg þessara barna hafa verið lengi á biðlista eftir fyrstu þjónustu. Þau börn sem þurfa síðan frekari þjónustu eftir að hafa fengið fyrstu þjónustu fara aftur á biðlista. Að lokinni fullri þjónustu hjá sérfræðingum skólaþjónustu er niðurstaðan stundum sú að vísa þarf málum barna til stofnanna á vegum ríkisins þ.m.t. ÞHS. Þá hefst enn á ný bið á biðlista.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20030170
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um heildstæða þjónustu við börn með sérþarfir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins hefur lagt ýmislegt til sem borgarfulltrúi til að draga megi úr bið barna eftir sérfræðiþjónustu. Hér hefur verið lögð fram ein tillagan enn og hún er sú að skólaþjónustan komi á formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfi sem þessu myndi létta mjög á biðlistum á öllum stigum þjónustunnar. Flokkur fólksins hefur lagt m.a. til fjölgun á stöðugildum sálfræðinga. Sú tillaga var felld. Til að uppræta biðlista eða stytta þá, þarf m.a. að fjölga stöðugildum sálfræðinga enda hefur málum einnig fjölgað. Í dag er hver sálfræðingur/stöðugildi að þjónusta 1000 börn. Flokkur fólksins fagnar því að tillögunni er ekki vísað frá eða hún felld heldur fari hún í stýrihóp. Borgarfulltrúi býður stýrihópnum það að leita ráða hjá borgarfulltrúa Flokks fólksins sem hefur 30 ára reynslu sem sálfræðingur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar þess mjög að sjá þessa hluti lagaða fyri börnin í borginni og það verður að gerast sem fyrst. Ein af ástæðum þess að borgarfulltrúi bauð sig fram í borginni var einmitt til að hlutast til um að koma málum af þessu tagi í betra horf.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Leiðarljós þjónustu við börn eru forvarnir og snemmtæk þjónusta á vettvangi barnanna og fjölskyldu þeirra. Í því felst að veita börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning þar sem börnin eru á grundvelli þeirra þarfa og óska til að gera þeim kleift að nýta styrkleika sína og láta drauma sína rætast. Reykjavíkurborg býður nú þegar fjölbreytta þjónustu fyrir börn með sérþarfir og er í miklu þróunarstarfi með þá þjónustu meðal annars með framkvæmdaáætlun í barnavernd, Keðjunni og verkefninu Betri borg fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. Að störfum er ,stýrihópur um heildstæða þjónustu við börn með sérþarfir, og er þessari tillögu vísað inn í þann stýrihóp þar sem hún mun fá meðferð en þar er einmitt verið að skoða samstarf við heilsugæslu og þroska- og hegðunarstöð.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að hefja nú þegar viðræður við ríkið til að hefja stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma í borginni.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20040143
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarstjóri er í vörn í málinu. Borgarfulltrúi Miðflokksins stal athyglinni í málinu með því að bera fjölgun hjúkrunarrýma upp í borgarstjórn. Í lok máls hans kom fram að viðræður stæðu yfir við ríkið og væri tíðinda að vænta innan skamms. Alltaf kemur meirihlutinn sér undan góðum málum minnihlutans. Verði þessi tillaga samþykkt þá leysir hún í leiðinni fjölmörg hliðsett mál. Fráflæðisvandinn á Landspítalanum minnkar og spítalinn getur þá farið að sinna þeirri þjónustu sem hann á að gera. Með fjölgun hjúkrunarheimila stórminnkar sú hætta að farsóttir nái tökum á öldruðum sem annars eru inniliggjandi á Landsspítalanum. Með aukinni dreifni úrræða er hægt að einangra hverja einingu. Stórfelld uppbygging hjúkrunarheimila í Reykjavík er mjög atvinnuskapandi. Mikið ákall er nú hjá ríkinu að sveitarfélögin ráðist í mannaflsfrek verkefni vegna ástandsins sem nú ríkir vegna COVID-19. Meirihlutinn skreytir sig með stolnum fjöðrum. Það er jafn lítið að frétta af hjúkrunarheimilum í Reykjavík eins og það er lítið að frétta af úrræði fyrir heimilslausa. Það eru öll ljós slökkt og enginn heima. Ekki er staðið við neitt sem sagt er. Kjörtímabilið er hálfnað og enn eru borin upp innihaldslaus loforð en engar efndir.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nýtt 99 rýma hjúkrunarheimili er risið við Sléttuveg og opnaði í lok janúar sl. Eins og fram kemur í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er áætlað að í lok árs liggi fyrir mögulegar lóðir fyrir allt að 210 hjúkrunarrými sem áætlað er að byggja 2020-2023.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Mikil þörf er á að byggja íverustaði fyrir aldraða svo sem hjúkrunarrými og tryggja aðstoð við umönnun. Í alla þjónustu hafa verið biðlistar og eldri borgarar mátt bíða mánuðum saman á sjúkrahúsi þar sem ekki er húsnæði fyrir þá eða skortur er á heimaþjónustu. Eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða bíða nú um 140 manns. Reykjavíkurborg  hefur skipulagsvaldið og getur haft mun meira og markvissara frumkvæði í að byggja upp hjúkrunarrými í samvinnu við ríkið. Borgin stýrir þessum verkefnum. Flokkur fólksins leggur áherslu á skyldu meirihlutans að hefja viðræður við stjórnvöld séu þær þá ekki þegar í gangi. Borgin fjármagnar 15% af stofnkostnaði. Í framkvæmdasjóð aldraðra greiða allir í til 70 ára aldurs.  Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala. Það er ekkert sem bannar borginni að mynda meiri þrýsting en gert hefur verið undanfarin ár t.d. með enn ríkara framboði á lóðum á hentugum stöðum. Góð rök eru fyrir því að hefja framkvæmdir þegar framboð er á vinnuafli og atvinnuleysi með mesta móti.

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins leggur til að börn geti nýtt frístundakort sitt í sumarnámskeið sem eru að lágmarki tvær vikur. Í núgildandi reglum er það gert að skilyrði fyrir notkun frístundakorts að námskeið séu tíu vikna löng. Það skilyrði er allt of langt og takmarkar verulega möguleika barna til að velja þau námskeið sem þau vilja sækja þ.m.t. sumarnámskeið. Það styttist í sumarið og standa börnum til boða ýmis konar sumarnámskeið sem haldin verða m.a. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Eftir strangan og afar óvenjulegan vetur sem einkenndist seinnipartinn af faraldri bíða mörg börn með óþreyju að taka þátt í tómstundum, íþróttum og leikjum. Foreldrar eru missett fjárhagslega. Sumir hafa misst vinnu eða laun verið skert vegna COVID-19. Reglur frístundakortsins kveða á um að aðeins sé hægt að nota frístundakortið á námskeið sem eru að lágmarki 10 vikur en ekkert sumarnámskeið er í 10 vikur. Fjölmörg námskeið eru almennt mikið styttri. Þess vegna er lagt til að hægt verði að nýta frístundakortið í öll sumarnámskeið allt niður í tveggja vikna námskeið. Það skýtur skökku við að sjá á heimasíðu ÍTR, þar sem sumarnámskeið eru auglýst, að þar er einnig minnt á frístundakortið, sem þó er ekki hægt að nýta á sumarnámskeiðin enda ekkert þeirra í 10 vikur.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20040144
Frestað.

9.    Lagt er til að Birgir Þröstur Jóhannsson taki sæti í íbúaráði Vesturbæjar í stað Svafars Helgasonar og að Helga Ösp Jóhannsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Birgis. Jafnframt er lagt til að Birgir verði formaður ráðsins. R19090041
Samþykkt.

10.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. mars og 2. og 16. apríl.R20010001 
20. liður fundargerðar borgarráðs, kjörstaðir, þóknanir til kjörstjórna og umboð til borgarráðs vegna forsetakosninga 27. júní 2020 er samþykktur.R20040070 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 46. lið fundargerðarinnar frá 2. apríl:

Tillögu minni um að opna Laugaveginn og Skólavörðustíg fyrir bílum og að Laugavegurinn yrði á ný einstefnugata var vísað frá í borgarráði. Nú er afar lítið af gangandi fólki á Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg og fjölda verslana og veitingastaða hafa nú þegar lokað vegna stefnu meirihlutans og einnig vegna COVID-19. Til að bjarga rekstri á þessu svæði verður tafarlaust að opna fyrir bílaumferð til að reyna að lífga svæðið. Þeir sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 verða að nota fjölskyldubílinn til að athafna sig við innkaup og forðast margmenni. Einnig lagði ég til að í lok sumars yrði gerð könnun meðal verslunar- og veitingahúsaeigenda við þessar götur svo og íbúa hvernig tekist hafi til með opnun þessara gatna. Viðbrögð Reykjavíkur við COVID-19 var m.a. frestun greiðslna á fasteignasköttum. Verslanir, veitingastaðir og þjónustuaðilar hafa lent í tekjufalli undanfarnar fjórar vikur en nú um mánaðamótin bárust greiðsluseðlar sem eru gjaldfallnir núna. Það er sérlega ósvífið af borginni að senda greiðsluseðla í ljósi ástandsins. Það er blaut tuska í andlit þessara aðila sem ætla að reyna að standa áfallið af sér. Meirihlutinn hefur auglýst jarðarför miðbæjarins, slökkt ljósin og hent lyklunum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 23. lið í fundargerðinni frá 16. apríl:

Liður 23 í fundargerð borgarráðs frá 16 apríl, undir þessum lið vill Flokkur fólksins ræða um börn og ungmenni en áhrif og afleiðingar COVID-19 eiga eftir að birtast í mörgum myndum. Hvað börnin varða þarf að huga að þeim til skemmri og lengri tíma. Lengja þarf vinnuskóla Reykjavíkur þannig að það dekki tímabilið frá skólalokum til skólabyrjunar. Mikilvægt er að börn komist á sumarnámskeið. Breyta þarf reglum um frístundakort þannig að hægt sé a nota það á öll námskeið á vegum borgarinnar. Læknar og fagfólk m.a. á BUGL eru uggandi yfir stöðu barna sem glímdu við vanda fyrir. Gera þarf allt sem í okkar valdi stendur til að hindra að neikvæð áhrif og afleiðingar fylgi börnum okkar inn í framtíðina. Liður 6 í fundargerð borgarráðs frá 16. apríl; borgarfulltrúi vill taka undir þá skoðun og upplifun Landssambands eldri borgara (LEB) að þau hafi orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Mun meirihlutinn sem dæmi taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingu heim til sín. Fjárhagsáhyggjur hrjá marga í Reykjavík, öryrkja sem dæmi, og var staða stórs hóps fólks slæm áður en veiran kom til.

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. mars og 17. apríl, menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. apríl, mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs frá 12. mars og 2. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 1. og 15. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 10. mars og velferðarráðs frá 1. apríl. R20010285

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. apríl: 

Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið leigufélag. Af þeim sökum er umdeilanlegt að félagið sé gert upp á markaðsvirði í samstæðureikningi borgarinnar. Þá verður að líta það alvarlegum augum að fulltrúi í endurskoðunarnefndinni Einars S. Hálfdánarson telur ástæðu til að segja sig úr nefndinni vegna þessa máls. Óskað hefur verið eftir því að hann fái að reifa mál sitt fyrir borgarráði en ekki hefur verið orðið við því.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. apríl:

Þessi afsögn er stórt högg fyrir Reykjavíkurborg. Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd segir sig frá störfum hennar vegna ágreinings um reikningsskil. Athygli vekur afskipti skrifstofu borgarstjórnar af málinu því endurskoðunarnefnd er og á að vera óháð stjórnkerfinu. Félagsbústaðir sýna allar eignir á gangverði og gefa því ekki glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Ekki stendur til að selja eignasafn Félagsbústaða því það er félagslegt úrræði. Stjórn Félagsbústaða kýs samt að nota gangvirðisregluna eins og félög sem eru með starfsemi á sviði fjárfestinga í fjárfestingarfasteignum, sbr. 39. gr. laga um ársreikninga. Skilgreining á fjárfestingarfasteign samkvæmt lögunum er eftirfarandi: „Fasteign, land, bygging eða hluti byggingar, sem ætluð er til öflunar tekna, svo sem til útleigu eða í öðru ágóðaskyni, en ekki til notkunar í rekstri félags við framleiðslu, vörslu vörubirgða, þjónustu í rekstri félagsins, í stjórnunarlegum tilgangi eða til sölu í hefðbundnum rekstrartilgangi“. Því fer fjarri að þetta eigi við Félagsbústaði. Engin dæmi eru hér á landi, á norðurlöndunum eða annars staðar um slík reikningsskil í sambærilegum félögum. Gangvirðisreglan veldur því að fleiri tugir milljarða hafa verið færðir inn í samstæðureikningsskil Reykjavíkur til að fegra bókhaldið án innistæðu. Þessari deilu hef ég nú vísað til reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitastjórnarráðuneytisins til úrskurðar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10 lið í fundargerð velferðarráðs og fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs: 

Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að umsækjandi um fjárhagsaðstoð verði fyrst að nýta réttinn til frístundakorts til að fá aðstoð fyrir barn sitt er óásættanlegt þar sem ákveðið var að gera nákvæmlega það sem tillagan kveður á um. Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn árið 2019. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði þegar tillaga var flutt í borgarstjórn. Formaður velferðarráðs veit vel að það væri ekki búið að ákveða að fella úr gildi þetta ákvæði í drögunum þ.e. að skilyrða aðstoð við að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti nema vegna tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem lagði þetta til, tillaga sem búin er að fara í gegnum borgarkerfið og kemur til afgreiðslu í velferðarráð. Fundargerð menningar- íþrótta og tómstundaráðs frá 6. apríl. Flokkur fólksins spyr, eru engin skoðanaskipti í þessu ráði? Fyrir Flokk fólksins sem ekki á fulltrúa í ráðinu er treyst á að fundargerðin gefi einhverja mynd af þeirri vinnu sem fram fer í ráðinu. Fundir eru lokaðir svo það sem þar fer fram kemur ekki til eyrna annarra. Óskað er því eftir að skoðanaskipti komist í bókanir svo hægt sé að fá nasaþef af hvað fram fer í ráðinu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

Engar breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð hafa verið samþykktar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Eins og kom fram í bókun Flokks fólksins um þessi undarlegu vinnubrögð að vísa tillögu frá sem er á sama fundi í raun samþykkt að framfylgja þá hefur ávallt verið talað um að um drög sé að ræða. Drögin hafa nú farið í umsagnarferil. Engin talaði um að komin væri endanleg samþykkt en líklegt þykir að þar sem tillagan er komin í drögin, þ.e. að fella á út þetta skilyrði eins og Flokkur fólksins lagði til að þá séu miklar líkur á að það verði samþykkt. Annað væri auðvitað stórfurðulegt.

Fundi slitið kl. 21:40

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir    Sanna Magdalena Mörtudóttir