föstudagur, 7. maí 2021

Mánudaginn 10. maí verður haldin uppskeruhátíð í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar þegar yfir 5000 kennarar, frístundafræðingar og annað starfsfólk hittist á MenntaStefnumóti og kynnir sér nýjustu fræðastrauma og nýbreytni í námi og kennslu. 

  • Menntastefnumót - merki

Á Menntastefnumótinu verða kynnt á fjölmörg nýsköpunar- og þróunarverkefni sem unnið er að í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum út um alla borg. Þá verða þrír erlendir gestir með erindi á mótinu;

  • Finnski menntafræðingurinn Pasi Sahlberg sem tók þátt í mótun menntastefnu Reykjavíkur
    Látum draumana rætast – en unnið hefur verið að innleiðingu stefnunnar af miklum metnaði og með styrkveitingum síðastliðin þrjú ár.
  • Anne Bamford, prófessor og stefnumótandi sérfræðingur í menntamálum hjá Lundúnarborg. Hún mun fjalla um gildi nýsköpunar, lista og sköpunar í allri menntun en Anne á heiðurinn af hugtakinu „fusion skills“ sem þýða mætti sem „samruna hæfniþátta” í námi og kennslu.
  • Paul Bennett, yfirhönnuður og stjórnandi hjá IDEO, einu framsæknasta hönnunarfyrirtæki heims. Paul segir nýsköpun og hönnun hreyfiafl breytinga og vill að börn með skapandi huga fái menntun við hæfi svo þau geti haft áhrif á framtíðina.

Á meðal annarra gesta eru Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, Oddný Sturludóttir menntunarfræðingur og aðjunkt, Nanna Kristín Christiansen sérfræðingur um leiðsagnarnám, Bergrún Íris Sævarsdóttir rit- og myndhöfundur og Marco Solimene mannfræðingur. Þungamiðjan í dagskrá menntastefnumótsins er þó á annað hundrað kynningar og smiðjur á vegum starfsfólks í skóla- og frístundastarfinu um þau fjölmörgu nýsköpunar- og þróunarverkefni sem unnið er að með börnum og ungmennum í borginni. Menntastefnumótið er rafrænn viðburður sendur úr frá Hörpu. Hann er öllum opinn á slóðinni https://menntastefnumot.velkomin.is/  

200 milljónir króna á ári í þróunar- og nýsköpunarstarf

Látum draumana rætast er yfirskrift menntastefna Reykjavíkur sem gildir til ársins 2030. Hún var unnin í víðtæku samráði barna, foreldra, kennara, starfsfólks og stjórnenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar og með ráðgjöf erlendra og innlendra menntasérfræðinga. 

Á þeim þremur árum sem liðin eru frá samþykkt stefnunnar hefur verið unnið að innleiðingu hennar með margs konar þróunar- og nýsköpunarverkefnum en meðal aðgerða var að veita árlega 200 milljónum króna í styrki til skóla- og frístundastarfsins. Uppskeru alls þessa víðtæka nýsköpunarstarfs má kynna sér á MenntaStefnumótinu þann 10. maí. Skjáumst! 

Sjá FB-viðburðarsíðu um MenntaStefnumótið