þriðjudagur, 1. desember 2020

Tónlistarborgin Reykjavík kallar eftir umsóknum frá tónleikastöðum í Reykjavík um styrki til tónleikahalds í formi streymis í Reykjavík í desember.

  • Hljómsveitin Úlfur Úlfur á Iceland Airwaves 2019 Ljósm. Florian Trykowski

Tónlistarborgin Reykjavík kallar eftir umsóknum frá tónleikastöðum í Reykjavík um styrki til tónleikahalds í formi streymis í Reykjavík í desember. Tónleikastaðir geta sótt um styrk til að greiða laun tónlistar- og tæknifólks eða standa straum af öðrum kostnaði við tónleikahaldið. Tónlistarborgin Reykjavík mun hins vegar standa straum af öllum kostnaði við streymið sjálft og leggja til kvikmyndatökumann, hljóðmann og nauðsynlegan tækjakost. Einnig mun Tónlistarborgin taka þátt í að kynna dagskrá tónleikastaðanna í desember. 

Um er að ræða sérstakt viðspyrnuverkefni fyrir tónleikastaði. Í pottinum eru 3.550.000 kr. 

Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudaginn 7. desember nk.

Senda skal umsóknir á netfangið tonlistarborgin@reykjavik.is með efninu Umsókn um streymisstyrk. Ekki þarf að fylla út sérstakt eyðublað en í umsókn þurfa að koma fram upplýsingar um umsækjanda (kennitala, heimilisfang, símanúmer, netfang auk upplýsinga um tengilið), upplýsingar um viðburði sem sótt er um styrk fyrir og einföld kostnaðaráætlun. Við mat á umsóknum verður tekið mið af gæði dagskrár, kostnaðaráætlun og mikilvægi tónleikastaðanna fyrir tónlistarlífið í borginni.

Faghópur Úrbótasjóðs tónleikastaða í Reykjavík sem skipaður er einum fulltrúa Reykjavíkurborgar og tveimur fulltrúum sem skipaðir eru saman af FÍH, STEF og FHF,  metur umsóknir í sjóðinn og tekur ákvörðun um úthlutun.

Styrkumsóknir verða afgreiddar hratt og örugglega svo tími gefist til að skipuleggja tónleika og framkvæma í desember.