sunnudagur, 29. nóvember 2020

Ljósin á Oslóartrénu á Austurvelli voru tendruð í beinni útsendingu í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í kvöld á fyrsta sunnudegi í aðventu 29. nóvember.

  • Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hákon Örn Steen Bjarnason tendruðu Oslóartréð á Austurvelli í kvöld

Samkomutakmörk vegna heimsfaraldurs gerðu það að verkum að ekki var um neinn viðburð að ræða í ár. Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu hafa í gegnum árin markað upphaf aðventunnar í borginni og minnir sem fyrr á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.

Oslóartréð felldi borgarstjóri í Heiðmörk þann 14. nóvember síðastliðinn og var það sett upp og skreytt á Austurvelli nú í byrjun vikunnar. Tréð er nú skreytt sérstaklega mikið í ár með það fyrir augum að gleðja gesti og gangandi sem eiga leið um Austurvöll á þessum tíma þar sem tekist er á við heimsfaraldur.

Á undanförnum árum hafa 1500 perur lýst upp jólatréð en í ár er bætt um betur og nú eru 4.600 perur á trénu. 50 slaufur eru á jólatrénu, þar af 13 hvítar, jafnmargar og jólasveinarnir, og 37 rauðar. Þá er búið að endurnýja stjörnuna sem er á toppi trésins en hún er í þrívídd og sést vel úr öllum áttum.

Jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir tréð að venju og í ár er það Bjúgnakrækir sem er hannaður af Sigga Odds. Þórdís Gísladóttir, skáld, hefur samið stórskemmtilegt kvæði sem fylgir óróanum. Allur ágóði af sölu óróans rennur til Æfingastöðvarinnar, þar sem börn fá sjúkra- og iðjuþjálfun. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið.

Á Austurvelli í kvöld var gætt samkomutakmarkana og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að það væri mikilvægt að halda í þessa árlegu jólahefð sem hefur ávallt fært birtu og yl í hjörtu borgarbúa, sérstaklega nú í miðjum heimsfaraldri. Að því loknu naut hann aðstoðar Hákons Arnar Steen Bjarnasonar 7 ára norsks íslensks drengs við að tendra ljósin á trénu.  Tónlistarfólkið þau Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar fluttu nokkur jólalög.

Oslóarborg færir öllum grunnskólum Reykjavíkur bókagjöf sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði.